Categories
Fréttir

Við sem þjóð stefnum á græna framtíð – látum verkin tala

Deila grein

04/02/2019

Við sem þjóð stefnum á græna framtíð – látum verkin tala

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður, ræddi í störfum þingsins um orkuöryggi og hvort að það væri til staðar á Íslandi og hvort flutningskerfi okkar gæti annað auknum orkuflutningi.
„Virðulegi forseti. Það er enn meira um orku. Orkuöryggi snýst um skýra orkustefnu, framboð sem uppfyllir þarfir þjóðarinnar, skilvirkt og hagkvæmt regluverk og trausta orku fyrir innviði. Er orkuöryggi á Íslandi? Eigum við næga tiltæka orku til að uppfylla orkuþarfir okkar og getur flutningskerfi raforku annað auknum orkuflutningi? Allt eru þetta þættir sem við verðum að geta svarað því við stefnum sem þjóð á græna framtíð.
Ræða Þórarins Inga Péturssonar, varaþingmanns, í störfum þingsins 30. janúar 2019.

Orkuspá gerir ráð fyrir að árið 2030 hafi orkuþörf okkar aukist um 230 MW ef miðað er við hægar framfarir, 480 MW ef miðað er við græna framtíð. Til að setja það í samhengi þá þurfum við níu Hvalárvirkjanir til að anna því. Flutningur á orku er síðan annað mál. Ljóst er að þar er mikið verk óunnið. Í dag er staðan sú að nær allir þéttbýlisstaðir á landsbyggðinni fá ekki nægjanlega orku til atvinnuuppbyggingar og rafvæðingu hafna, svo eitthvað sé nefnt. Á Akureyri t.d. eru fyrirtæki sem þurfa að reiða sig á brennslu olíu til að geta mætt sínum orkuþörfum.
Orkuöryggi er stór þáttur í því að við getum nálgast framtíðina á þann hátt sem við viljum. Í mínum huga er ljóst að við verðum að nýta okkur sem flesta virkjunarkosti sem landið gefur okkur. Þar á ég við virkjun fallvatna, vindorku og jarðhita, en með virkjunum komum við alltaf til með að hafa áhrif á umhverfi okkar. Annað er óumflýjanlegt. Markmiðið á samt alltaf að vera það að allar okkar gjörðir miðist við að lágmarka umhverfisáhrif við svona framkvæmdir.
Virðulegi forseti. Við sem þjóð stefnum á græna framtíð. Látum verkin tala,“ sagði Þórarinn Ingi.