Categories
Fréttir

Fólk viti hvaða heilbrigðisþjónustu verði á hverjum stað!

Deila grein

04/02/2019

Fólk viti hvaða heilbrigðisþjónustu verði á hverjum stað!

Ásgerður K. Gylfadóttir, varaþingmaður, ræddi í umræðu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030, mikilvægi þess að „fyrsta stefnumiðið að löggjöf um heilbrigðisþjónustu verði skýr og kveði afdráttarlaust á um hlutverk heilbrigðisstofnana og annarra sem veita heilbrigðisþjónustu og hvernig samskiptum þeirra skuli háttað.“
„Í dag er mjög mismunandi þjónusta á starfsstöðvum heilbrigðisstofnananna landsins og hefur verið kallað eftir skýrri stefnumörkun í heilbrigðisstefnu um hvaða þjónustu skuli veita á hverjum stað. Það var ánægjulegt að heyra í framsögu hæstv. heilbrigðisráðherra að verið er að skoða hvaða þjónusta er veitt á hverjum stað. Hún er mjög mismunandi yfir landið og kallað er eftir því að ef ákveðin þjónusta er í boði á einum stað sé hún það líka annars staðar, sem eðli málsins samkvæmt er ekki hægt og ekki alltaf eitthvað sem útskýrir af hverju þjónustan er einungis í boði sums staðar,“ sagði Ásgerður.
„Ég má til með að nefna að fyrir einu og hálfu ári síðan, eða þann 31. maí 2017, samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu þingflokks Framsóknarflokksins, lagða fram af þáverandi hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, um að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heilbrigðisáætlun fyrir Ísland í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Nú erum við komin af stað með það plagg,“ sagði Ásgerður.

„Liður tvö fjallar um fjármögnun, hlutverk og fjárhagslega ábyrgð ríkis og sveitarfélaga um veitingu heilbrigðisþjónustu, að hún verði vel skilgreind. Þrátt fyrir að komið hafi aukið fjármagn inn í heilbrigðisþjónustuna, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Óla Björns Kárasonar, lítur ekki út fyrir að við höfum náð rekstrarjafnvægi í heilbrigðisþjónustunni. Það má vera að hluta til vegna þess að hlutverk eininganna er ekki nógu vel skilgreint. Bæði ég og fleiri hafa væntingar til þess að slík skilgreining komi fram til þess að fólk átti sig á því hvaða þjónustu ber að veita á hverjum stað og væntingar séu ekki umfram fjármagn sem veitt er til þjónustunnar,“ sagði Ásgerður.
Ræða Ásgerðar K. Gylfadóttur, varaþingmanns, í umræðu um heilbrigðisstefna til ársins 2030.