Categories
Fréttir

Dæmi er um hækkun um tæp 60% á einu ári

Deila grein

04/02/2019

Dæmi er um hækkun um tæp 60% á einu ári

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins um raforkukostnað í dreifbýli.
„Umræða um jöfnun orkukostnaðar í dreifbýli og þéttbýli hefur lengi verið viðvarandi á Alþingi. Stundum hafa náðst ákveðin skref í rétta átt en svo vex munurinn aftur. Þetta er eins og með snigillinn sem skríður upp vegginn en sígur alltaf niður aftur. Staðan veldur viðvarandi óöryggi fyrir atvinnurekstur í dreifbýli.
Um áramótin hækkaði verðskrá Rarik fyrir flutnings- og dreifikostnaði raforku, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Hækkun í þéttbýli nemur 1,9% en 2,6% í dreifbýli, það hækkar sem sagt um mun fleiri krónur í dreifbýli því að kostnaðurinn var hærri fyrir þar. Dæmi er um að dreifikostnaður raforku hjá grænmetisbónda í Eyjafirði hafi hækkað um tæp 60% á einu ári. Viðkomandi bóndi hefur slökkt á raflýsingu og raforkufyrirtæki hefur tapað viðskiptum.
Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur, alþingismanns, í störfum þingins 30. janúar.

Það eru allt of mörg dæmi um atvinnu við ræktun og ferðaþjónustu sem stendur höllum fæti í samkeppni vegna þess að fyrirtæki hafa lent utan línu sem dregin er um þéttbýli á dreifingarkorti raforku. Tapið verður allra. Raforkufyrirtækið tapar viðskiptum þegar fyrirtæki gefast upp, dreifbýlið tapar atvinnutækifærum og samfélagið tapar verðmætum þegar fjárfesting nýtist ekki. Þannig standa færri og færri undir kostnaðinum sem búið er að leggja í við uppbyggingu dreifikerfisins. Kerfið étur sig upp innan frá.
Eitt af verkefnunum í núgildandi byggðaáætlun er að stuðla að aukinni jöfnun orkukostnaðar, bæði hvað varðar dreifingu á raforku og húshitun. Fleiri markmið í áætlunum stjórnvalda miða í sömu átt. Ég vil leggja áherslu á að horft verði heildstætt á verkefnið, að ekki verði eingöngu horft á heimilin heldur heimili, húshitun og atvinnulíf. Hægt er að ganga markvisst og heildstætt til verka varðandi jöfnun orkukostnaðar í landinu,“ sagði Líneik Anna.