Categories
Fréttir

„Sparisjóðirnir þýsku njóta trausts“

Deila grein

04/02/2019

„Sparisjóðirnir þýsku njóta trausts“

Willum Þór Þórsson, alþingismaður, sagði í umræðu á Alþingi um hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið að það megi „velta því fyrir sér hvort það sé vænlegur kostur að breyta öðrum ríkisbankanum í samfélagsbanka að þýskri fyrirmynd. Þá erum við um leið búin að skilgreina hvað samfélagsbanki er. Sparisjóðirnir þýsku njóta trausts. Um 40% af umfangi fjármálakerfisins þar eru sparisjóðir. Þeir vinna fyrir nærumhverfið og hafa það á stefnuskrá sinni að sinna viðskiptum einstaklinga og fyrirtækja á samfélagslegum forsendum. Það er gert í mjög nákvæmu regluverki, þ.e. það þýðir ekki að verið sé að niðurgreiða fjármálaþjónustu eða niðurgreiða vexti. Það yrði aldrei heimilt. Það felst hins vegar í því að farið sé með ákveðnum hætti með eigin fé. Það myndast ákveðin samfélagslegur sjóður sem fer til samfélagslegra verkefna.“
Ræða Willum Þórs Þórssonar, alþingismanns, í umræðu á Alþingi um hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, 29. janúar 2019.

Í flokksþingssamþykktum Framsóknarmanna frá í mars á síðasta ári segir að „við endurskipulagningu fjármálakerfisins leggur Framsóknarflokkurinn áherslu á að fjármálakerfið þjóni fyrst og fremst heimilum og fyrirtækjum í landinu sem skapa störf og raunveruleg verðmæti á landsvísu.“
Síðan segir: „Framsóknarflokkurinn telur að annar ríkisbankanna eigi að vera áfram í eigu þjóðarinnar, með það markmiði að þjóna samfélaginu sem best. Til að bregðast við fákeppni á bankamarkaði er nauðsynlegt að samfélagsbanki hafi þann tilgang að bjóða góða þjónustu á sem bestum kjörum. Þannig má efla samkeppni í bankaþjónustu á landsvísu.“
„Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar segir um fjármálakerfið að það eigi að vera traust og þjóna samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt. Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er eitt það umfangsmesta í Evrópu og vill hæstv. ríkisstjórn leita leiða til að draga úr því. Ljóst er þó að ríkissjóður verður leiðandi fjárfestir í a.m.k. einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun. Þá liggur það bara fyrir. Lagt er upp með það í stjórnarsáttmála og það þýðir einfaldlega um leið að verið er að stíga varlega til jarðar,“ sagði Willum Þór.
„Hvað eignarhaldið varðar, eins og fram hefur komið í umræðu um þessa skýrslu og í umfjöllun á vettvangi fjölmiðla, þarfnast það frekari ígrundunar hvernig farið verður með eignarhald ríkisins á tveimur af þremur stóru bönkunum, hvaða eignarform á við í því tilliti. Og það er mikilvægt að greina á milli eignarforms og eignarhalds. En eins og komið hefur fram í umræðunni, og könnun meðal neytenda, fer því fjarri að samstaða eða meirihlutaskoðun sé til staðar um það. Í því tilliti er nærtækt að vitna til könnunar sem starfshópurinn lét Gallup gera fyrir vinnu hvítbókarinnar, um viðhorf almennings til bankaþjónustu. Þar kemur m.a. fram að 61% er jákvætt fyrir eignarhaldi ríkisins. Þar kemur einnig glöggt fram það vantraust sem ríkir á íslenskum bönkum. Í samhengi úrbóta nefnir fólk m.a. háa vexti, dýra þjónustu, græðgi og há laun og ljóst að tiltrúin á kerfinu hefur ekki unnist til baka frá hruni,“ sagði Willum Þór.