Categories
Fréttir

„Við þurfum að byggja“

Deila grein

02/06/2022

„Við þurfum að byggja“

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, vék að stöðunni á húsnæðismarkaði í störfum þingsins á Alþingi í vikunni. Starfshóp um umbætur á húsnæðismarkaðnum skilaði nýverið tillögum til innviðarráðherra, Sigurðar Ingi Jóhannssonar er hafa að geyma 28 tillögur í sjö málaflokkum. Lögð er áhersla á að auka framboð íbúða til að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði og aukið húsnæðisöryggi. Gerð er tillaga um húsnæðisáætlun fyrir allt landið og sérstök áhersla lögð á áframhaldandi uppbyggingu almenna íbúðakerfisins og endurskoðun opinbers húsnæðisstuðnings. Þá er í tillögunum að finna tillögur um virkan og heilbrigðan leigumarkað sem raunverulegan valkost, tillögur um skilvirkt regluverk, stjórnsýslu og framkvæmd í skipulags- og byggingarmálum og um samþættingu uppbyggingu íbúða og samgönguinnviða. Tillögurnar voru fyrst kynntar í Þjóðhagsráði.

„Hún gefur okkur svigrúm og tækifæri til að vinna raunhæfar áætlanir sem við getum svo, bæði ríki og sveitarfélög, fylgt eftir með mjög markvissum aðgerðum. Það er nefnilega þannig, og það kemur skýrt fram í þessari skýrslu frá starfshópnum, að við þurfum að byggja. Við þurfum að byggja meira. Það vantar í dag um 4.500 íbúðir á markaðinn og til viðbótar svo 35.000 íbúðir á næstu tíu árum,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Það er ánægjulegt að Samband íslenskra sveitarfélaga ætli að fara að vinna rammasamning sem mun tryggja uppbyggingu 4.000 íbúða til næstu fimm ára og svo 3.500 íbúðir næstu fimm árin þar á eftir. Auðvitað er mestur þunginn hér á höfuðborgarsvæðinu og þurfa sveitarfélögin öll sem á þessu svæði eru að lyfta grettistaki og hefja kröftuga uppbyggingu íbúðarhúsnæðis fyrir alla hópa,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.