Categories
Fréttir

„Við þurfum að halda samstöðunni“

Deila grein

15/04/2020

„Við þurfum að halda samstöðunni“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, sagði m.a. í ræðu sinni á Alþingi í gær í umræðu um áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, að við værum „að horfa á efnahagsaðgerðir nr. 2, sem við getum vonandi unnið í lok þessarar viku eða í byrjun næstu viku. Þar munum við án efa halda áfram að horfa á einhvers konar vernd samfélagsins og á félagslegar áherslur, til að mynda tengsl náms og námsmanna við störf og frekara nám, koma fleira fólki til starfa. Við munum horfa án efa á varnir, leita allra leiða til að tryggja lausafé og rekstur fyrirtækja. Hér hafa verið nefnd í dag litlu fyrirtækin sem var lokað af völdum sóttvarna. Auðvitað þurfum við að skoða stöðu þeirra. Það liggur í augum uppi. Þau voru að verja samfélagið og það er eðlilegt að samfélagið verji þau.“

„Ríkisstjórnin og landbúnaðarráðherra eru einfaldlega þessa dagana að vinna að samningum við garðyrkjubændur. Þar hlýtur að verða horft í lækkun á dreifikostnaði raforku, eins og við höfum oft talað um, og viðhalda þeim stuðningi eins háum og hægt er. Það hljóta að koma til álita einhvers konar landgreiðslur til að hvetja til útiræktunar á grænmeti sem við höfum séð að hefur hrapað í hlutfalli miðað við innflutning á síðustu árum.“
„Ef við meinum eitthvað með því að auka innlenda matvælaframleiðslu á þessum tíma þá hljótum við að skoða, og það hefur verið til skoðunar í landbúnaðarráðuneytinu, tollana, tollverndina. Tollar eru jú notaðir til að vega upp kostnað, mismunandi stofnkostnað, rekstrarkostnað við framleiðslu. Það er hugsunin á bak við tolla. Við höfum látið það óáreitt í mjög langan tíma. Ef við meinum eitthvað með því að við ætlum að auka innlenda framleiðslu er það nokkuð augljós leið að skoða það líka, myndi ég telja.“
„Við þurfum að horfa á sjávarútveginn. Við þurfum að horfa á það sem hefur verið okkar stærsta tækifæri, ekki síst í útflutningi, að auka virði sjávarútvegs. Það getur komið inn átak á heimsvísu í að selja ímynd okkar, vöru og gæði. Sjávarútvegurinn sjálfur hefur getað staðið undir því en vegna þess að aðrir auðlindageirar eru að gefa mjög mikið eftir á þessu ári gætum við þurft að velta því fyrir okkur hvort við ættum að nota þá frábæru stöðu sem við erum búin að skapa með því að byggja upp sterka stofna að veiða einfaldlega meira í eitt skipti í því skyni að búa til tekjur fyrir samfélagið. Það er eitt af því sem mér finnst að við ættum alla vega að velta vöngum yfir.“
„Það er augljóst að við þurfum að viðurkenna það að aðgerðirnar sem við erum að velta fyrir okkur núna munu án efa ekki duga. Ef veiran hagar sér með versta hætti getur vel verið að við þurfum að grípa inn á næstu mánuðum og jafnvel lengra inn í framtíðina. Við vitum það einfaldlega ekki. Við þurfum bara á hverjum tíma að grípa til þeirra aðgerða sem við teljum skynsamlegastar.“

„Mín lokaorð er einfaldlega þessi: Við þurfum að halda samstöðunni. Við náum sigri, samfélagið allt, við munum ná því að lokum en fögnum ekki sigri of fljótt. Á næstu vikum og mánuðum gætum við þurft að velta vöngum yfir því hvernig við ætlum að ná sem sterkastri viðspyrnu og þar er augljóst að innlend framleiðsla mun skipta mjög miklu máli,“ sagði Sigurður Ingi.