Categories
Fréttir

„Við þurfum ekki að velja á milli kolefnisbindingar með skógrækt, endurheimt votlendis eða landgræðslu“

Deila grein

24/10/2019

„Við þurfum ekki að velja á milli kolefnisbindingar með skógrækt, endurheimt votlendis eða landgræðslu“

„Við þurfum ekki að velja á milli kolefnisbindingar með skógrækt, endurheimt votlendis eða landgræðslu. Við eigum að sinna öllum þeim verkefnum en vanda val á landi fyrir mismunandi verkefni. Við verðum að geyma besta ræktarlandið til að nýta við matvæla- og fóðurframleiðslu, hvort sem það er framræst votlendi, mólendi eða valllendi. Annað land bújarða getur verið skynsamlegt að nýta við endurheimt, sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins í gær.
„Í landnotkun er best að samþætta mörg markmið, t.d. getur skógrækt bundið jarðveg í skógræktarrýru eða örfoka landi og skapað viðarauðlind, byggt upp beitiland og skapað skjól fyrir búfé, allt á sömu landspildunni. Í því tilfelli væri bæði verið að koma í veg fyrir losun kolefnis úr landi og binda kolefni í trjáviði og öðrum gróðri auk þess að rækta fóður.“
„Af umræðu á samfélagsmiðlum í kjölfar líffræðiráðstefnunnar 2019 mætti draga þá ályktun að nú séu 12% Íslands þakin skógi eða að rækta ætti nytjaskóg á 12% landsins. Hvort tveggja fer fjarri. Hið rétta er að skógur þekur nú um 2% landsins. Þar af eru 1,5% náttúrulegur skógur og ræktaðir skógar þekja um hálft prósent. Þar af er einn fjórði birki, innlend tegund. Viðurkennt markmið stjórnvalda um nytjaskógrækt er um allt að 5% þekju láglendis, undir 400 metra hæð, eða um 2% Íslands. Hins vegar hafa verið leiddar líkur að því að eftir því sem dregur úr nýtingu úthaga til beitar gætu náttúrulegir íslenskir skógar þakið allt að 6–8% og ræktaðir yndis- og útivistarskógar 1–2%.
Vissulega er mikilvægt að sátt verði um þessi markmið. Það gerist ekki með því að stilla aðferðum við kolefnisbindingu upp sem andstæðum heldur með samþættingu áætlana um landnýtingu og skipulag,“ sagði Líneik Anna.