„Hæstv. forseti. Ég tek heils hugar undir með þeim þingmönnum sem talað hafa á undan mér um að ríkisstjórnin er ótrauð í þeirri ætlan sinni að innan þriggja ára eða svo verði kjör aldraðra og öryrkja þannig að þeir muni bera út býtum 300 þús. kr. á mánuði.
Mig langaði til þess að gera hér að umtalsefni frétt úr Morgunblaðinu í morgun um viðskiptakjör Íslands sem er mjög ánægjuleg. Þar kemur fram að lækkun hrávöruverðs í heiminum kemur okkur Íslendingum mjög til góða eins og öðrum. Fram kemur í greininni að nú í vikunni fór olíufatið í New York niður í 6,52 dollara, sem er lægsta verð frá 2009. Þau tíðindi eru afar ánægjuleg og eru til þess fallin að hér verði ekki verðbólga á næstunni nema hún verði búin til hér heima eins og til dæmis af Seðlabanka Íslands með ótrúlega háum stýrivöxtum. Það segir hér að viðskiptakjör Íslands geti batnað á þessu ári um 10–11% og munar um minna. Hins vegar er sagt hér, með leyfi forseta:
„Til samanburðar er áætlað í nýjustu Peningamálum Seðlabankans sem út kom í byrjun nóvember að viðskiptakjörin geti batnað um 5% á þessu ári.“
En fram kemur í þessari frétt Morgunblaðsins í morgun að þessi bati geti orðið allt að 11%. Við sjáum þess merki, sem betur fer, að kaupmenn axla ábyrgð með því að lækka verð á vörum núna á síðustu vikum, bæði út af styrkingu krónu, og það kom reyndar fram núna í óvísindalegri verðkönnun einnar sjónvarpsstöðvarinnar að jólamatur er víða ódýrari nú en hann var á sama tíma í fyrra. Allt eru það góð tíðindi og til þess fallin að halda verðbólgu í skefjum. Vonandi verður það til eftirbreytni fyrir þá sem stýra hér stýrivöxtum.“
Þorsteinn Sæmundsson — störf þingsins 11. desember 2015.
Categories
„Viðskiptakjör Íslands geta batnað á þessu ári um 10–11% og munar um minna“
14/12/2015
„Viðskiptakjör Íslands geta batnað á þessu ári um 10–11% og munar um minna“