Categories
Fréttir

Vilhjálmur 99 ára í dag

Deila grein

20/09/2013

Vilhjálmur 99 ára í dag

sigmundur_og_vilhjalmurVilhjálmur Hjálmarsson á Brekku, fyrrverandi alþingismaður og menntamálaráðherra, er 99 ára í dag. Hann er elstur af þeim mönnum núlifandi sem setið hafa á Alþingi. Vilhjálmur er við hestaheilsu, þrátt fyrir háan aldur.
Vilhjálmur kann vel að koma fyrir sig orði. Í umræðum um frumvarp til laga um Sinfóníuhljómsveit Íslands í menntamálaráðherra tíð Vilhjálms komst hann svo að orði: „Ég vil þakka háttvirtum þingmanni fyrir ágætan stuðning við þetta mál. Skilst mér að hver einasti þingmaður sem hér hefur tekið til máls hafi lýst stuðningi við frumvarpið. Það er til dæmis ekki bráðónýtt fyrir mig að fá stuðning tveggja fyrrverandi menntamálaráðherra við þetta frumvarp. Því betur kemur það sér fyrir núverandi ráðherra þar sem hann þekkir ekki nóturnar og er þar að auki nokkurn veginn laglaus.“
Vilhjálmur Hjálmarsson er fæddur á Brekku í Mjóafirði 20. september 1914. Foreldrar voru Hjálmar Vilhjálmsson útvegsbóndi og Stefanía Sigurðardóttir húsmóðir, móðursystir Sigurðar Vilhjálmssonar vþm., ömmusystir Tómasar Árnasonar alþingismanns og ráðherra.
Vilhjálmur lauk héraðsskólaprófi frá Laugarvatni 1935. Var bóndi á Brekku í Mjóafirði 1936-1967, fyrst með föður og föðurbróður, síðar með syni. Kennari við barnaskólann í Mjóafirði 1936-1947, skólastjóri 1956-1967. Vann jafnan nokkuð við jarðvinnslu í Mjóafirði haust og vor, síðar forstöðumaður Ræktunarfélags Mjóafjarðar, verkstjóri við vegagerð um tíma. Rak með öðrum síldarsöltun í Mjóafirði 1964-1970. Skipaður 28. ágúst 1974 menntamálaráðherra, lausn 27. júní 1978, en gegndi störfum til 1. september. Aðstoðarsáttasemjari 1979-1980.
Í hreppsnefnd Mjóafjarðarhrepps 1946-1990, oddviti 1950-1978. Fulltrúi Sunnmýlinga á fundum Stéttarsambands bænda 1945-1967, í stjórn sambandsins og Framleiðsluráði landbúnaðarins 1963-1974 og í verðlagsnefnd landbúnaðarafurða 1965-1972. Formaður skólanefndar Húsmæðraskólans á Hallormsstað 1954-1974. Í sýslunefnd Suður-Múlasýslu 1960-1988. Formaður Kjördæmissambands framsóknarmanna á Austurlandi 1962-1967. Skipaður 1965 í endurskoðunarnefnd laga um afurðasölu landbúnaðarins, 1968 í nefnd til að athuga ýmsa þætti landbúnaðarmála, 1969 í endurskoðunarnefnd laga um stofnlánadeild landbúnaðarins o. fl. og 1972 í nefnd til að endurskoða löggjöf um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Fulltrúi Mjóafjarðarhrepps í Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi 1967-1990, í stjórn þess 1980-1983, formaður tvö ár. Kosinn 1973 í flutningskostnaðarnefnd, formaður nefndarinnar. Í kirkjuráði 1976-1982. Skipaður 1978 formaður nefndar um rekstrarlán landbúnaðarins. Í byggingarnefnd Safnahússins á Egilsstöðum 1979-1991. Formaður stjórnar Menningarsjóðs félagsheimila 1980-1988. Formaður útvarpsráðs 1980-1983. Var í nefnd um endurskoðun útvarpslaga 1981-1982 og í byggingarnefnd Ríkisútvarpsins 1981-1990.
Alþingismaður Framsóknarflokksins 1949-1956 og 1959, og 1967-1979. Varaþingmaður mars 1961, maí 1964, apríl-maí 1965 og apríl-maí 1966. Menntamálaráðherra 1974-1978.
Framsóknarflokkurinn óskar Vilhjálmi til hamingju með daginn.