Categories
Fréttir

Vinnuhópur tekur að sér stefnumótun í ferðaþjónustu

Deila grein

13/07/2017

Vinnuhópur tekur að sér stefnumótun í ferðaþjónustu

Framkvæmdarstjórn Framsóknarflokksins hefur sett af stað vinnuhóp við að móta tillögur til stefnumótunar fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu. Hópurinn er tilkominn vegna ályktunar á vorfundi miðstjórnar flokksins.
Hópinn skipa fulltrúar og ferðaþjónustuaðilar með víðtæka reynslu úr ferðaþjónustu vítt og breitt um landið. Tilgangur hans er að móta tillögur sem miða að því að bæta framleiðni í greininni, tryggja sjálfbærni, auka skilvirkni, nýsköpun og þjálfun.
Það er fagnaðarefni að fá svona öflugt fólk, með reynslu úr ferðaþjónustu og er eða hefur verið í miklum samskiptum við ferðamanninn sjálfan, til að takast á við þetta brýna verkefni. Ríkisstjórninni hefur ekki auðnast að taka mikilvægar ákvarðanir tengdar greininni sem miða að því að skapa umhverfi sem gefur möguleika á vel launuðum störfum. Þá liggur fyrir að taka þarf ákvarðanir um dreifingu ferðamanna um landið og hvernig eigi að standa að gjaldtöku“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Ör vöxtur og stefnuleysi í ferðaþjónustu getur auðveldlega haft neikvæð áhrif á efnahags- og umhverfislega þætti. Brýnt er því að móta framtíðarstefnu sem byggir á sérstöðu landsins, náttúrunni, sameiginlegri sögu og menningu.
Vandamálin eru fjöldamörg. Auknar líkur eru á því að arðsemi minnki og fleiri láglaunastörf verði til í landinu ef ferðamönnum fjölgar meira en hægt er að sinna með góðu móti. Við ofnýtingu auðlinda er hætt við því að einsleit ferðamennska fylgi í kjölfarið með ferðamönnum sem hafa lægri kaupmátt en ella. Sérhæfingu og fjölbreytni starfa yrði ógnað í ferðaþjónustu sem og öðrum útflutningsgreinum.
Ef ferðamönnum fækkar þá óhjákvæmilega fækkar störfum sem kemur verst niður á landsbyggðinni.
Ákvarðanir um einstök mál hafa setið á hakanum of lengi. Til að mynda hvernig hægt er að ná meiri dreifingu ferðamanna um landið og hvort taka eigi gjald á ferðamannasvæðum eða ekki.
Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir komugjöldum. Þau hafa ekki áhrif á hvort ferðamaðurinn stoppar t.d. í þrjá daga eða þrjár vikur. Fyrirvaralausar álögur eins og lagðar voru fram nú í vor hefðu án efa komið harðast niður á landsbyggðinni sem hefur oftar en ekki þurft að horfa á eftir störfum yfir í þéttari byggðir. Þess vegna er svo brýnt að fjölga ferðamönnum á austurlandi, norðurlandi og vesturlandi því þar er sannarlega þörf á nýjum viðskiptavinum í verslun og þjónustu.
Hópurinn mun m.a. horfa til eftirfarandi atriða:
• Hvernig getur ferðaþjónustan viðhaldið samkeppnishæfni sinni betur borið saman við önnur lönd og skapað aukin verðmæti?
• Hvernig getur landsbyggðin búið sér til atvinnutæki og fjölgað heilsársstörfum í ferðaþjónustunni?
• Hvaða innviði þarf að styrkja í ferðþjónustu svo greinin geti vaxið og dafnað á heilsársvísu og orðið blómleg atvinnugrein til lengri tíma?
Hópinn skipa:
Formaður: Einar Freyr Elínarson, ferðaþjónustubóndi
Einar G. Bollason, fyrrum framkvæmdarstjóri
Fjóla Hrund Björnsdóttir, stjórnmálafræðingur, starfar við ferðaþjónustu
Gréta Björg Egilsdóttir, vararborgarfulltrúi
Karl Garðarsson, framkvæmdarstjóri
Lilja Sigurðardóttir, sjávarútvegsfræðingur
Pétur Snæbjörnsson, landeigandi og hótelstjóri
Sigurlaug Gissurardóttir, ferðaþjónustubóndi
Snorri Eldjárn Hauksson, sjávarútvegsfræðingur
Sólborg L. Steinþórsdóttir, hótelstjóri
Viggó Jónsson, framkvæmdarstjóri skíðadeildar
Þórður Ingi Bjarnason, ferðamálafræðingur
Þórey Anna Matthíasdóttir, sérfræðingur í ferðaþjónustu og leiðsögumaður