Categories
Fréttir

Vísbending um vanþekkingu stjórnarandstöðunnar á þingræðisreglunni

Deila grein

18/03/2015

Vísbending um vanþekkingu stjórnarandstöðunnar á þingræðisreglunni

ÞórunnStaða Alþingis var rædd á Alþingi í gær að lokinni yfirlýsing forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar.
Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður og þingflokksformaður framsóknarmanna, sagði við þá umræðu að stóryrði úr ræðustól Alþingis eða í fjölmiðlum væru ekki til að auka virðingu þingsins. Umræðan fari oft að snúast um ýmis hugtök og núna síðast um „þingræði“. En að vandamálið sé að ekki sé alltaf sami skilningur á hugtakinu.
„Þingræðisreglan svokallaða felur í sér að meiri hluti Alþingis þarf að styðja ráðherra. Reglan er stjórnskipunarvenja sem á stoð í 1. gr. stjórnarskrárinnar, en þar stendur: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn“,“ sagði Þórunn og bætti við, „með öðrum orðum, ríkisstjórn situr í skjóli Alþingis þar sem þingræði ríkir og þurfa ráðherrar að fylgja fyrirmælum þingsins.“
„Þingræði þýðir í raun að ríkisstjórn þarf að njóta stuðnings meiri hluta þingsins,“ sagði Þórunn.
„Stefna ríkisstjórnarinnar hefur legið ljós fyrir frá upphafi. Utanríkisráðherra greindi þinginu frá afstöðu sinni strax í upphafi kjörtímabils, gerði það með bréfi til utanríkismálanefndar þannig að þinginu á að hafa verið ljóst að ráðherra telur sig ekki bundinn þingsályktunartillögunni. En það að kalla nýlegt bréf utanríkisráðherra til forustu Evrópusambandsins, sem staðfestir stefnuna og skýrir stöðuna, atlögu að þingræðinu er vísbending um mögulega vanþekkingu manna á því hvað þingræðisregla felur í sér og hvað þingræði þýðir,“ sagði Þórunn.
Og bætti við: „Staðan sem hér er uppi er sú að minni hluti á hverjum tíma getur tekið mál í gíslingu og gert atlögu að þingræðinu með því að koma í veg fyrir að vilji þingsins komi fram. Það er afleitt vopn sem eykur ekki virðingu Alþingis, því að ásýnd þess þegar á málþófi og eilífum ræðum um fundarstjórn forseta stendur er ekki góð. Hvenær rétta tímasetningin er til að breyta þessu veit ég ekki, en þó held ég að mikilvægt sé að þingskapanefnd reyni að finna leiðir til þess að hér geti vinnulag orðið markvissara og skilvirkara, því að þótt eitthvað hafi viðgengist er ekki þar með sagt að svo eigi að vera áfram.“
Að lokum sagði Þórunn: „Megi okkur öllum farnast vel í því að vinna landi og þjóð gagn.“
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.