Categories
Fréttir

Vonandi er tími aðgerða runninn upp ‒ ekki fleiri skýrslur um skýrslur

Deila grein

18/10/2023

Vonandi er tími aðgerða runninn upp ‒ ekki fleiri skýrslur um skýrslur

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins fjölmargar skýrslur um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Niðurstöðurnar eru á einn veg „að á Vestfjörðum hafi afhendingaröryggi lengi verið heldur lakara en víðast annars staðar á landinu“.

Árið 2020 kom út skýrsla um skýrslu starfshóps um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Í apríl 2022 kom út skýrsla starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum. „Þar er minnt á markmið orkustefnu Íslands, að stefna eigi að jöfnu aðgengi að orku um land allt og orkuþörf samfélagsins eigi að uppfylla. Niðurstaða starfshópsins er, eins og segir í samantekt, með leyfi forseta, „að til þess að bæta afhendingaröryggið á Vestfjörðum og tryggja nægilegt afl, ásamt því að auka kerfisstyrk, sé nauðsynlegt að vinna að úrbótum og verkefnum sem snerta nánast alla hluta raforkukerfisins“,“ sagði Halla Signý.

Sagði hún skýrsluna taka ágætlega saman hver sé vandinn og bendi jafnframt á leiðir til úrbóta. Enn ein skýrslan kom svo út í sumar á vegum starfshóps um eflingu samfélags á Vestfjörðum. „Þar er ágæt setning sem segir „ekki í boði að gera ekki neitt““. Eins segir þar: „Í sem skemmstu máli má því segja að á Vestfjörðum þurfi því í senn aukna raforku vegna fólksfjölgunar, aukinna umsvifa í atvinnulífi og orkuskipta …“

„Árið 2018 samþykktu stjórnvöld stefnu um uppbyggingu flutningskerfis raforku í landinu. Þar kemur m.a. fram að stefna stjórnvalda sé styrking á uppbyggingu á flutningskerfinu og að auka afhendingaröryggi raforku á landsvísu með sérstakri áherslu á Vestfirði og Norðausturland.

Virðulegi forseti. Í ritröð um raforkumál og afhendingaröryggi á Vestfjörðum má finna fleiri skýrslur, þar á meðal eina frá 2013. Þar má finna sömu kaflana og sömu ágætu tillögurnar og í nýju skýrslunum — endurtekið efni.

Ég segi nú bara: Vonandi er ekki þörf fyrir fleiri skýrslur um skýrslur heldur að tími aðgerða sé runninn upp því svo sannarlega er það ekki í boði að gera ekki neitt,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Árið 2020 kom út skýrsla um skýrslu starfshóps um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Þar kemur fram að á Vestfjörðum hafi afhendingaröryggi lengi verið heldur lakara en víðast annars staðar á landinu. Í apríl 2022 kom út skýrsla starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum. Þar er minnt á markmið orkustefnu Íslands, að stefna eigi að jöfnu aðgengi að orku um land allt og orkuþörf samfélagsins eigi að uppfylla. Niðurstaða starfshópsins er, eins og segir í samantekt, með leyfi forseta, „að til þess að bæta afhendingaröryggið á Vestfjörðum og tryggja nægilegt afl, ásamt því að auka kerfisstyrk, sé nauðsynlegt að vinna að úrbótum og verkefnum sem snerta nánast alla hluta raforkukerfisins.“ Þessi skýrsla tekur ágætlega saman hver vandinn er og markar leiðir að úrbótum.

Þá kom út í sumar skýrsla starfshóps um eflingu samfélags á Vestfjörðum, á málefnum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, um raforkumál m.a. Þar er ágæt setning sem segir „ekki í boði að gera ekki neitt“.

Í samantekt þeirrar skýrslu segir, með leyfi forseta:

„Í sem skemmstu máli má því segja að á Vestfjörðum þurfi því í senn aukna raforku vegna fólksfjölgunar, aukinna umsvifa í atvinnulífi og orkuskipta …“

Árið 2018 samþykktu stjórnvöld stefnu um uppbyggingu flutningskerfis raforku í landinu. Þar kemur m.a. fram að stefna stjórnvalda sé styrking á uppbyggingu á flutningskerfinu og að auka afhendingaröryggi raforku á landsvísu með sérstakri áherslu á Vestfirði og Norðausturland.

Virðulegi forseti. Í ritröð um raforkumál og afhendingaröryggi á Vestfjörðum má finna fleiri skýrslur, þar á meðal eina frá 2013. Þar má finna sömu kaflana og sömu ágætu tillögurnar og í nýju skýrslunum — endurtekið efni. Ég segi nú bara: Vonandi er ekki þörf fyrir fleiri skýrslur um skýrslur heldur að tími aðgerða sé runninn upp því svo sannarlega er það ekki í boði að gera ekki neitt.“