Categories
Fréttir

Willum Þór: „Meginmarkmiðin eru að verja störfin, verja fyrirtækin, verja efnahag heimilanna“

Deila grein

31/03/2020

Willum Þór: „Meginmarkmiðin eru að verja störfin, verja fyrirtækin, verja efnahag heimilanna“

Alþingi samþykkti í gær ráðstafanir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, ásamt fjáraukalögum 2020 og um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak. Eru málin framkomin í beinu framhaldi af samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 10. mars 2020 um aðgerðir í sjö liðum til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins, við afar sérstakar og fordæmalausar aðstæður í efnahagslífinu.

Aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru

Í lögunum eru breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld vegna þeirrar miklu óvissu sem ríkir nú í atvinnulífi og efnahag landsins eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar (SARSCoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. Að auki eru breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að því er varðar tímabundna heimild til úttektar á séreignarsparnaði. Þá er í lögum um ríkisábyrgðir og Seðlabanka Íslands verði breytt vegna ábyrgðar til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja.
Við afgreiðslu málsins á Alþingi í gær gerði Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, grein fyrir sinni afstöðu og þakkaði fyrir samstöðu í nefndinni um málið.
„Ég vil ítreka það hér að þetta eru ekki loka aðgerðir. Það kemur mjög skýrt fram í nefndaráliti og ég umber og virði allar þær hugmyndir sem hafa komið fram um það að það kunni að vera sú staða uppi að það þurfi að ganga lengra. Það eru mjög mikilvægar aðgerðir sem ég met hér, þar sem meginmarkmiðin eru að verja störfin, verja fyrirtækin, verja efnahag heimilanna, þetta er allt samofið í þessari efnahagshringrás þar sem við höfum tvær megin stoðir, fyrirtæki og heimili. Og allar þessar aðgerðir hér miða í þá átt og er það mikilvægt. En við eigum um leið að vakta það hvern dag í þessari miklu óvissu hvað þurfi að gera meira og hvar þurfi að ganga lengra. Hafandi sagt það hér þá á þetta mál samsvörun við þau mál sem við munum ræða hér á eftir og ég hafa framsögu um, sem er fjáraukalagafrumvarp og eru útgjaldaheimildir til að fara hér í fjárfestingaátak ásamt þingsályktunartillögu um það mál,“ sagði Willum Þór.

Fjáraukalög 2020 og sérstakt tímabundið fjárfestingarátak

Gera má ráð fyrir að þessi fjáraukalög verði það fyrra af tveimur til fjáraukalaga fyrir árið 2020. Að öðru óbreyttu má ætla að hið síðara verði lagt fram á haustmánuðum. Í því frumvarpi er reiknað með að afla þurfi frekari fjárheimilda, m.a. til að mæta auknum útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs á yfirstandandi ári og öðrum kostnaði af völdum heimsfaraldurs kórónaveiru sem ekki rúmast innan fjárheimilda almenns varasjóðs fjárlaga, þegar kostnaðaráhrifin liggja betur fyrir.
Willum Þór Þórsson, alþingismaður og formaður fjárlaganefndar, hafði framsögu fyrir nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar, sagði að meginefni fjáraukalaga fyrir árið 2020 megi skipta í þrjá meginliði, gjaldaheimildir, hækkun lánsfjárheimildar og ýmsar heimildir til handa fjármála- og efnahagsráðherra til breytinga á 6. gr. fjárlaga.

„Niðursveiflan kemur harkalega niður á atvinnulífinu og mikil óvissa er enn um efnahagsleg áhrif á fjölmargar atvinnugreinar og heimili landsins. Allar aðgerðir sem þessar miða hingað til að því, um leið og heilbrigðisþátturinn er í forgangi, að verja fyrirtæki, efnahag heimila og störf landsmanna. Mikið álag er á heilbrigðiskerfinu. Bæði er beinn kostnaður vegna veirufaraldursins en einnig er um að ræða röskun á hefðbundinni starfsemi heilbrigðiskerfisins sem nokkurn tíma getur tekið að vinna upp að nýju að faraldrinum loknum. Það er mikilvægt að halda utan um þann kostnað sem af þessu hlýst svo hægt sé að mæta honum með markvissum hætti með fjáraukalögum.
Meiri hlutinn vekur sérstaklega athygli á stöðu heilbrigðisstarfsmanna en gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana. Eitt af úrræðunum er myndun bakvarðasveita heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar. Það er athyglisvert hvað fólk er tilbúið að leggja á sig við slíkar kringumstæður og heilbrigðisstarfsfólk víða að úr samfélaginu hefur þegar skráð sig. Fjölmargir vilja þannig taka þátt í að leysa þennan tímabundna vanda, stéttirnar í framlínunni, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og læknar, á þessum hættutímum. Meiri hlutinn leggur áherslu á og telur mikilvægt að viðurkenna og þakka störf þeirra. Mikilvægi þessara starfsstétta er óumdeilt.“
„Við svona aðstæður einangrast margir hópar og þessi vandræði skella kannski þyngra á þeim. Við horfum til geðheilbrigðismála og fjölda frjálsra félagasamtaka. Við áttum gott samtal við Geðhjálp sem vinnur mjög gott starf til að mæta þörfum þessara hópa við erfiðar aðstæður. Nefndin ákvað að leggja til 40 milljónir til þeirra verkefna. Ráðherrann og félagsmálaráðuneytið hefur mesta yfirsýn yfir það hvar þörfin er brýnust og hvar hann getur mætt þeim fjölmörgu störfum sem birtast dag frá degi.
Breytingar meiri hluta við fjárfestingarátakið felast m.a. í því að auka enn frekar framlög til rannsókna og nýsköpunar og skapandi greina, um 1.250 millj. kr. Einnig er 510 millj. kr. aukning í viðhald og endurbætur. Þá eru 480 millj. kr. í nýbyggingar, 300 millj. kr. í önnur innviðaverkefni, 296 millj. kr. til viðhalds og endurbóta á flugvöllum og loks 100 millj. kr. í verkefni í orkuskiptum og grænum lausnum, samtals 2.936 millj. kr.“

„Meiri hlutinn áréttar að þessum málum, fjárauka- og fjárfestingarátaki og aðgerðum sem boðaðar eru í þessari atrennu, lýkur ekki á þessari stundu. Hér erum við þó að taka skref í rétta átt til að mæta ríkjandi ástandi. Við þurfum á því að halda að takast saman á við þetta ástand, verja efnahag heimila, störfin í landinu, efnahag fyrirtækjanna og fólkið sameiginlega í föstum, öruggum skrefum og greiða jafnóðum úr óvissunni, bæði er varðar heilbrigðisþáttinn sem er í forgrunni og svo hinar efnahagslegu áskoranir sem fylgja. Ég hvet okkur öll til að huga að öllum þeim aðgerðum sem duga til að bæta úr,“ sagði Willum Þór.

Þingsályktun um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak

Alþingi hefur samþykkt framkvæmd eftirfarandi ráðstafana á grundvelli heimilda í fjáraukalögum fyrir árið 2020 um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru:
 1.      Að 15.000 m.kr. fjárheimild til átaksins verði skipt á verkefnaflokka í samræmi við áætlun í töflu 1.
     2.      Að fjárveitingum til átaksins verði skipt á einstök fjárfestingarverkefni í samræmi við áætlun í töflu 2.
     3.      Að framlög verði færð til annarra verkefna innan sama verkefnaflokks, takist ekki að hefja öll skilgreind verkefni fyrir 1. september 2020.
     4.      Að framlög verði færð til annarra verkefnaflokka, verði ljóst að ekki takist að nýta öll framlög innan einstaks verkefnaflokks fyrir 1. apríl 2021.
***
Tafla 1 – Sundurliðun fjárheimilda eftir verkefnaflokkum.

Tegund verkefna Framlög (m.kr.) Vægi (%)
Viðhald og end­ur­bæt­ur fast­eigna 2.008 13
Ný­bygg­ing­ar og meiri hátt­ar end­ur­bæt­ur 700 5
Sam­göngu­mann­virki 6.210 41
Orku­skipti, græn­ar lausn­ir og um­hverf­is­mál 1.365 9
Önnur innviðaverk­efni 1.617 11
Rannsókn­ir, nýsköp­un og skap­andi grein­ar 1.750 12
Stafrænt Ísland og upp­lýs­ingatækni­verk­efni 1.350 9
Samtals 15.000 100

 
Tafla 2 – Sundurliðun fjárveitinga eftir fjárfestingarverkefnum.

Viðhald og endurbætur fasteigna Fjárhæð 2020 m.kr.
Heil­brigðis­stofn­an­ir 400
Lög­reglu- og sýslu­mann­sembætti 210
Fram­halds­skól­ar 411
Ýmsar fast­eign­ir rík­is­ins 730
Harpa, tón­list­ar- og ráðstefnu­hús 195
Fast­eign­ir Alþing­is 62
Samtals 2.008
Nýbyggingar og meiri háttar endurbætur Fjárhæð 2020 m.kr.
Heil­brigðis­stofn­un Norður­lands á Húsa­vík 200
Land­helg­is­gæsl­an – flugskýli 100
End­ur­hæf­ing­ar­deild Land­spítal­ans við Grensás 200
Áfanga­heim­ili fyr­ir þolend­ur heim­il­isof­beld­is 100
Öryggis­vist­un 100
Samtals 700
Samgöngumannvirki Fjárhæð 2020 m.kr.
Flug­hlað á Ak­ur­eyri og ak­braut á Eg­ilsstaðaflug­velli 350
Flugstöð á Ak­ur­eyri 200
Hafn­ar­fram­kvæmd­ir 750
Breikk­un brúa 700
Hring­torg 200
Vega­fram­kvæmd­ir og hönn­un 1.860
Óveður­stengd verk­efni 150
Fram­kvæmd­ir við tengi­vegi 1.000
Viðhald vega 1.000
Samtals 6.210
Orkuskipti, grænar lausnir og umhverfismál Fjárhæð 2020 m.kr.
Orku­skipti í sam­göng­um og átak í bind­ingu kol­efn­is 500
Upp­bygg­ing göng­ustíga inn­an friðlanda 315
Aðstaða á veg­um þjóðgarða 300
Jökulsár­lón 50
Fráveit­umál – upp­bygg­ing hjá sveitarfélög­um 200
Samtals 1.365
Önnur innviðaverkefni Fjárhæð 2020 m.kr.
Auk­in fram­lög til Fram­kvæmda­sjóðs ferðamannastaða 200
Of­an­flóðavarn­ir 350
Varn­ir gegn land­broti 75
Ísland ljó­stengt 400
Fjár­fest­ing vegna stjórn­un­ar og sam­hæf­ing­ar innviða 592
Samtals 1.617
Rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar Fjárhæð 2020 m.kr.
Fram­lög í Rannsókna­sjóð og Innviðasjóð 400
Auk­in fram­lög í Tækniþróun­ar­sjóð 400
Fram­lög í land­búnaði og sjávarút­vegi. 200
Fram­lag til menn­ing­ar, íþrótta og lista. 750
Samtals 1.750
Stafrænt Ísland og upplýsingatækniverkefni Fjárhæð 2020 m.kr.
End­urnýj­un upp­lýs­ingatækni­kerfa og efl­ing tækni­innviða 500
Nýsköp­un í heil­brigðisþjón­ustu 150
Stafrænt Ísland 500
Þróun gagna­grunna á veg­um hins op­in­bera 135
Þing­mannagátt 65
Samtals 1.350