Categories
Fréttir

Yfirlitsræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknar

Deila grein

24/04/2024

Yfirlitsræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknar

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og fjármála- og efnahagsráðherra flutti kraftmikla ræðu á 37. Flokksþingi Framsóknar, sem fram fór um liðna helgi.

Ræðuna má sjá hér: https://fb.watch/rCEFzr4TeO/

Ræða Sigurðar Inga í heild

Kæra Framsóknarfólk.

Mikið er gaman að sjá ykkur svo mörg á 37. Flokksþingi Framsóknar.

Síðast þegar við hittumst á flokksþingi vorum við nýkomin út úr heimsfaraldrinum og Rússar höfðu þá nýverið ráðist á nágranna sína í Úkraínu. Innrás Rússa í Úkraínu stendur enn og sér ekki fyrir endann á því skelfilega ástandi sem þar ríkir.

Við höfum, Íslendingar, staðið með bandalagsþjóðum okkar í Nató og stjórnvöldum í Úkraínu. Hryllingurinn á Gaza hefur staðið yfir í hálft ár. Ísland var eitt fyrsta ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði Palestínu og eru þær þjóðir sem það hafa gert enn í miklum minnihluta ríkja heims. Síðustu daga hafa síðan ógnvænleg tíðindi borist frá Miðausturlöndum. Íran gerði árás á Ísrael með skotflaugum og drónum og í lok vikunnar gerði Ísrael drónaárás á Íran. Hættan á stigmögnun átaka á þessu svæði er veruleg.

Þessi vaxandi ólga í alþjóðamálum hefur haft mikil áhrif á líf fólks um allan heim. Einnig hér á landi því hækkun á heimsmarkaðsverði á ýmsum aðföngum hefur áhrif á verðbólgu og framkvæmdir hér á landi. Þessi skelfilegi ófriður víða um heim hefur líka þau áhrif að milljónir manna eru á flótta. 

Við höfum ekki farið varhluta af þeirri þróun hér á landi. Á árunum 2017–2021 voru útgjöld til málaflokka sem snerta málefni útlendinga nokkuð stöðug. Árið 2022 nærri tvöfölduðust útgjöldin frá árinu 2021. Hið sama gerðist árið 2023. Útgjöld til þessara málaflokka hafa frá árinu 2017 ríflega þrefaldast að raunvirði.

Ríkisstjórnin hefur sammælst um að ná tökum á þessum málum til að koma í veg fyrir að kerfið springi og til að innviðir landsins ráði betur við að hjálpa við inngildingu fólks af erlendum uppruna. Afgreiðslutími umsókna um alþjóðlega vernd verður styttur um helming, fyrirkomulagi verði breytt þannig að færri sæki um vernd sem ekki uppfylla skilyrði og ráðist verður í átak til að flýta afgreiðslu umsækjenda frá Venesúela sem beðið hafa niðurstöðu Útlendingastofnunar. Þessar aðgerðir koma til að lækka kostnað hins opinbera verulega.

Samhliða fyrrnefndum aðgerðum verður ráðist í aðgerðir til að jafna tækifæri í íslensku samfélagi til að stuðla að því að fleiri fái blómstrað og samfélagið njóti krafta þeirra.

Þessi samstaða ríkisstjórnarinnar í málefnum útlendinga er mikilvæg og hún byggir á mannúð.

Hún byggir á því að við hlúum að því stöðugt fjölbreyttara samfélagi sem við eigum saman.

Hún byggir á því að við lærum af mistökum nágrannaþjóða okkar og leyfum því ekki að gerast að samfélag okkar tvístrist í ólíka hópa og hættuleg skautun vaði uppi í stjórnmálum.

Lífsgæði okkar byggjast á því að samfélagið sé friðsamlegt og sanngjarnt.

Að allir fái tækifæri.

Að enginn sé skilinn eftir.

Að börn þeirra sem flutt hafa hingað til að taka þátt í samfélaginu njóti sömu tækifæra og þeirra sem fæðast hér.

Á síðustu mánuðum höfum við upplifað atburði sem ég held að fæst okkar hafi nokkurn tíma órað fyrir. Heilt byggðarlag var rýmt vegna jarðhræringa og er ekki útséð með hvenær þær taka enda.

Reykjanesið er vaknað með látum.

Ég hef fylgst með Grindvíkingum með aðdáun, hvernig þeir hafa af virðingarverðri yfirvegun tekist á við atburði sem hafa snúið lífi þeirra á hvolf. Stjórnvöld hafa eftir megni staðið við bak Grindvíkinga á þessum erfiðu tímum. Sérstakur stuðningur hefur verið veittur vegna húsnæðis og afkomu og fyrrum ráðuneyti mitt, innviðaráðuneytið, leiddi vinnu við kaup á húsnæði til leigu fyrir Grindvíkinga í gegnum leigufélagið Bríeti. Þessar vikurnar vinnur félagið Þórkatla að því að kaupa rúmlega 700 húseignir af Grindvíkingum.

Þetta hefur ekki gengið hnökralaust fyrir sig enda verkefnið gríðarlega flókið og umfangsmikið. Mikil vinna stendur yfir til að bæta úr því sem aflaga hefur farið.

Ég ber í brjósti þá von að við sjáum Grindavík byggjast upp að nýju. Ég skil þann sársauka sem Grindvíkingar eru að ganga í gegnum og mun gera mitt til að líf fólks frá Grindavík verði bærilegra.

Grindavík mun rísa.

Ég er stoltur af íslensku samfélagi. Við erum í efstu sætum eftirsóknarverðra alþjóðlegra lista um lífskjör og lífsgæði.

Við erum græn.

Við búum við jöfnuð.

Við erum tæknivædd.

Við erum hamingjusöm.

En auðvitað er ekki allt fullkomið. Auðvitað er verk að vinna til að bæta samfélagið.

Og þess vegna erum við hér á Flokksþingi Framsóknar.

Til að marka stefnu flokksins og áherslumál svo við getum nýtt afl flokksins okkar til framfara, til aukinna lífsgæða á Íslandi.

Stærsta viðfangsefni samfélagsins nú um stundir er að ná tökum á verðbólgunni sem hefur plagað okkur líkt og flest vestræn ríki síðustu misserin. Við erum nefnilega ekki einstök þegar kemur að verðbólgu eins og oft mætti halda af umræðunni.

Það sem gerir okkur þó sérstök þegar kemur að hagkerfinu er þó að hér erum við að berjast við verulegan hagvöxt.

Okkar leið og leið ríkisstjórnarinnar hefur verið sú að stefna á mjúka lendingu.

Við rífum ekki í handbremsur. Við tökum þétt utan um ríkisfjármálin, tökum þétt utan um samfélagið svo ekki verði neinar kollsteypur.

Við stjórnum af skynsemi.

Af ábyrgð.

Við heyrum oft gagnrýnisraddir sem segja ríkisstjórnina verklausa. Að þeir þrír flokkar sem mynduðu árið 2017 ríkisstjórn þvert yfir miðjuna í íslenskum stjórnmálum hafi sammælst um kyrrstöðu.

Þetta er rangt.

Kolrangt.

Árangurinn sem þessi ríkisstjórn hefur náð er verulegur. Fyrst vil ég nefna að á síðan 2017 hafa tvisvar verið gerðir langtímakjarasamningar á vinnumarkaði.

Fyrir örfáum vikum vorum undirritaðir kjarasamningar á almenna markaðnum sem marka tímamót. Breiðfylking verkalýðsfélaga undir forystu Vilhjálms Birgissonar og Sólveigar Önnu Jónsdóttur sýndi mikla framsýni og hugrekki með því að stíga fram með hófsamar kröfur með það að markmiði að ná tökum á verðbólgunni til að skapa forsendur fyrir lækkun vaxta.

Verkalýðsforystan á almenna markaðnum og Samtök atvinnulífsins náðu saman og þar skipti aðkoma ríkis og sveitarfélaga miklu máli.

Aukinn kraftur í uppbyggingu innan almenna íbúðakerfisins að norrænni fyrirmynd, auknar barnabætur, einskiptis vaxtabótaauki, hækkun greiðslna í fæðingarolofi, gjaldfrjálsar skólamáltíðir, allt eru þetta aðgerðir sem skipta heimilin í landinu gríðarlega miklu máli.

Þetta eru aðgerðir sem með lækkandi vaxtastigi munu skila fólki auknum lífsgæðum. Lykilatriði í þessum árangri var að samningsaðilar á almenna vinnumarkaðnum unnu saman. Þau komu sér saman um sameiginlega hagsmuni launafólks og atvinnurekenda.

Afraksturinn er hófsamir kjarasamningar með góðum stuðningi hins opinbera. Svona á samvinna að vera.

Og ég fullyrði það að sú samsetning ríkisstjórnar sem Íslendingar hafa notið frá árinu 2017 er lykilatriði í því að langtímasamningar á vinnumarkaði hafi náðst.

Ég er stoltur af vinnu ráðherra okkar í Framsókn.

Varaformaður okkar, Lilja Dögg, hefur náð frábærum árangri sem menningar- og viðskiptaráðherra.

Ég fullyrði að enginn ráðherra menningarmála hefur unnið af jafnmiklum krafti og heilindum fyrir menningu og listir í landinu. Stefnumótun í öllum undirgreinum skapandi greina er lokið eða komin vel á veg. 35% endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar er komin til framkvæmdar og sýnir nýleg úttekt að hver króna skilar 6,8 krónum inn í hagkerfið. Sérstakt menningarframlag streymisveitna mun renna inn í Kvikmyndasjóð. Þjóðarópera, fjölgun listamannalauna, uppbygging sögustaða.

Allt eru  þetta mál sem skipta íslenskt samfélag miklu máli.

Að ég nefni ekki áherslu Lilju Daggar á íslenska tungu sem skiptir öllu máli fyrir menningu okkar og ekki síst samhengi menningar, sögu og samfélags.

Í ferðamálunum hefur hún unnið að stefnu um framtíðarsýn og aðgerðaáætlun í víðtæku samráði við hagaðila og heimafólk.

Ný lög um samvinnufélög eru líka nokkuð sem gleður samvinnuhjarta okkar í Framsókn.

Ásmundur Einar hefur af miklum krafti fylgt eftir vinnu sinni við farsældarlög í þágu barna frá síðasta kjörtímabili.

Íþróttahreyfingin hefur ekki farið varhluta af störfum hans en í undirbúningi er umbylting í afreksstarfi í íþróttum og aðbúnaði afreksfólks þar sem meðal annars er dregið verulega úr ferðakostnaði afreksfólks á landsbyggðinni. Nú stendur yfir uppbygging starfsstöðva íþróttahreyfingarinnar um allt land sem munu efla íþróttastarf og tækifæri allra barna til þátttöku í íþróttum.

Þegar hefur verið skrifað undir vegna viðbygginga við fjóra verknámsskóla í Breiðholti, á Ísafirði, á Sauðárkróki og í Reykjanesbæ og munu fleiri skólar fylgja í kjölfarið.

Ný stofnun, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hefur tekið til starfa sem mun veita kennurum mun meiri stuðning við störf sín auk þess að gegna lykilhlutverki í innleiðingu nýrra laga um inngildandi menntun en það verður lagt fram í haust.

Þá er rétt að fagna því sérstaklega að ný Þjóðarhöll er komin í útboðsferli og er fjármögnuð að fullu.

Willum Þór hefur unnið stórvirki í heilbrigðisráðuneytinu.

Landspítalinn hefur verið styrktur verulega, stjórn hefur verið sett yfir spítalann, innleiðing á þjónustutengdri fjármögnun hefur gengið vel og rekstur spítalans er orðinn jákvæður, sem er mikið afrek.

Lykilatriði í stefnu Framsóknar er að tryggja gott og jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu og hefur stuðningur vegna ferðalaga verið stóraukinn.

Allt umtal um heilbrigðiskerfið er nú gjörbreytt, sú samvinnuhugsun sem fylgir Willum í ráðuneytinu hefur komið á meiri ró og samstöðu innan heilbrigðiskerfisins.

Talandi um samvinnu þá náðist tímamótasamningur við sérgreinalækna sem höfðu verið samningslausir síðan 2019. Nú þegar hafa meira en hundrað þúsund manns nýtt sér þjónustu sérgreinalækna og áætla Sjúktratryggingar Íslands að samningurinn hafi sparað sjúklingum 1,3 milljarða króna frá gildistöku.

Eins og þið vitið urðu breytingar í mínum högum fyrir skemmstu þegar ég færði mig um set úr stóli innviðaráðherra í stól fjármála- og efnahagsráðherra.

Það voru nokkur tíðindi enda hefur ekki Framsóknarmaður setið í stóli fjármálaráðherra í 45 ár, eða frá því Tómas Árnason sat þar í stjórn Ólafs Jóhannessonar.

Fram á síðasta dag í innviðaráðuneytinu var ég að vinna hörðum höndum að því að ýta brýnum málum áfram, samgönguáætlun sem umhverfis- og samgöngunefnd þingsins vinnur að, nýjum húsaleigulögum, stefnumótun á sviði húsnæðis, landsskipulagsstefnu, jarðgangaáætlun og svo mætti áfram telja.

Ölfusárbrú hefur nú þegar verið boðin út.

Áfram er unnið að undirbúningi Sundabrautar og eins og einhverjir hafa eflaust séð í fjölmiðlum síðustu daga þá eru rannsóknir á jarðvegi í fullum gangi. Vinnan við udnirbúning Sundabrautar hefur staðið lengi yfir. Umhverfismati lýkur nú í lok sumars og verður Sundabraut boðin út árið 2026.

Nýtt hlutverk er ekki síður mikilvægra en það eldra og hlakka ég til að vinna þjóðinni gagn úr þeim stóli.

Þingflokkurinn okkar hefur staðið sig gríðarlega vel í störfum sínum undir stjórn Ingibjargar Isaksen. Það hefur reynt verulega á fólkið okkar á þingi, ekki síst vegna þess hvað flokkarnir sem standa að ríkisstjórninni eru ólíkir. Þingmennirnir okkar hafa sýnt það og sannað að samvinna og vinnusemi getur skilað miklum árangri.

Í umræðu um stjórnmál á Íslandi hættir okkur oft til að horfa einungis til landsmálanna. Þó eru sveitarstjórnarmálin miklu nær fólki í sínu daglega lífi.

Við eigum gríðaröflugt sveitarstjórnarfólk um allt land og í nokkrum sveitarfélögum erum við með hreinan meirihluta.

Það sem er þó algjörlega nýtt fyrir Framsókn, flokkinn okkar sem var stofnaður árið 1916, er að við eigum borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, sem tók við lyklavöldum að Reykjavík í janúar og hefur farið afar vel af stað í starfi.

Kæru félagar.

Í upptalningu minni hér að framan um árangur og áherslur í ríkisstjórn má heyra að málefni byggðanna eru okkur í Framsókn ávallt hugleikin.

Þau tímamót urðu nú fyrir skemmstu að ný búvörulög voru samþykkt á Alþingi Íslendinga. Í þeim felst að afurðastöðvar bænda geta nú unnið saman og sameinast með það að markmiði að auka hagræðingu, bændum og neytendum til hagsbóta. Er þetta í samræmi við löggjöf nágrannalandanna og margra landa í Evrópu.

Og eins og svo oft þegar stigin eru skref til að bæta stöðu bænda þá verður uppi fótur og fit í heildsalaklúbbnum og dramatískar yfirlýsingar falla um árás á neytendur og jafnvel grunnstoðir samfélagsins.

Landbúnaður er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein fyrir Íslenskt samfélag. Saga okkar, menning, heilbrigði og byggðafesta er nátengd landbúnaði.

Við getum ekki og megum ekki vera svo hrædd að við leyfum ekki bændum að búa við svipaðar samkeppnisaðstæður og bændur í nágrannalöndunum.

Hverra hagsmuna værum við að gæta með því?

Já, maður spyr sig, hverra hagsmuna?

Því ekki eru það hagsmunir neytenda að bændur flosni upp og við þurfum að reiða okkur algjörlega á innflutning.

Annar er sá málaflokkur sem aldrei ríkir lognmolla um eru orkumálin.

Í umræðu um orkumál er ekki aðeins rifist um hvort rétt sé að virkja meira eða minna heldur er rifist um hvort hér sé orkuskortur eða orkugnótt.

Eitthvað sem maður hefði haldið að skynsamt fólk gæti orðið sammála um hvort væri.

 Það er auðvitað þannig að við verðum að leggja okkur öll fram um að nýta þá orku sem framleidd er í dag á sem bestan og skynsamastan hátt.

Það getur ekki verið markmið í sjálfu sér að virkja meira því virkjunum fylgir það að við gefum eftir ein gæði fyrir önnur.

Það er þó dagljóst að skortur á orku kallar fram hærra verð. Það að fyrirtæki sjái sig knúin til að nýta dísilvélar til að framleiða raforku fyrir bræðslur og aðra framleiðslu getur ekki verið ásættanlegt ástand.

Eins og í flestu liggur lausnin á miðjunni.

Leyfum jöðrunum að öskra sig hása og finnum skynsamlegar lausnir til þess að hér geti orkuskiptin gengið hratt og örugglega fyrir sig og til þess að við getum byggt hér upp öfluga atvinnuvegi og skapað verðmæt störf fyrir framtíðina.

Við eigum ekki að skammast okkar fyrir að framleiða græna orku.

Við eigum að vera stolt.

Þessi umgjörð sem hefur skapast um orkuframleiðslu á Íslandi með Landsvirkjun sem krúnudjásnið er öfundarefni annarra þjóða.

Landsvirkjun nálgast nú eitt þúsund milljarða virði og því virði hefur hún náð án þess að ríkið hafi greitt krónu inn í eigið fé fyrirtækisins. Skuldir Landsvirkjunar í dag eru hverfandi og geta hennar til að greiða í arð til ríkisins eru allt að þrjátíu milljarðar á ári.

Og allt þetta hefur orðið til á sama tíma og heimilin og fyrirtækin greiða hvað lægsta verð í Evropu fyrir orkuna.

Landsvirkjun hefur verið lykilfyrirtæki þegar kemur að því að byggja upp það lífsgæðasamfélag sem við búum í.

Landsvirkjun eigum við saman, þjóðin, og njótum ávaxtanna af henni saman.

Þannig á það líka að vera.

Við höfum undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum sem geta orðið verulega íþyngjandi ef við ætlum einungis að mæta þeim með samdrætti. Hagsmunir íslensks samfélags felast augljóslega í því að flytja sem minnst inn af jarðefnaeldsneyti og nýta sem best okkar hreinu innlendu orku.

Þess vegna verður kerfið, sérstaklega leyfisveitingakerfið, að vera skilvirkt og skiljanlegt og ekki beinlínis tefja og vinna gegn heilbrigðri uppbyggingu.

Kæra Framsóknarfólk.

Það er ekki hægt að halda öðru fram en að síðasta ár hafi einkennst af átökum í íslenskum stjórnmálum. Eins og svo oft þá eru þessi átök minni inni í eiginlegu samstarfi flokkanna sem mynda ríkisstjórnina en þeim mun meiri í fjölmiðlum.

Við í Framsókn höfum haft þá stefnu í samstarfinu í ríkisstjórn og á Alþingi að einbeita okkur að þeim verkefnum sem viið vorum kosin til að sinna frekar en að hrópa á torgum allt það sem við erum ósammála hinum flokkunum um.

Við tókum að okkur verkefni og það ætlum við að klára.

Framsókn stendur í miðju stjórnmálanna,

kletturinn í hafinu,

sem haggast ekki mikið þótt brjóti á.

Veður stjórnmálanna er ekki ólíkt íslenskri veðráttu með það að það skiptast á skin og skúrir. Það er mikilvægt í suddatíð að muna eftir sólskinsdögum og halda reisn, setja undir sig hausinn og vinna.

Við munum uppskera þegar að kosningum kemur.

Verk okkar og stefna eru unnin fyrir þjóðina og þjóðin þekkir okkur þótt hún gleymi okkur stundum í kringum skoðanakannanir þar sem fer með himinskautum flokkur sem tekur hringrásarhagkerfið svo alvarlega að hann hefur tekið stefnumál okkar í Framsókn og æltar að gera sínum.

Svo langt gekk Samfylkingin reyndar í kosningabæklingi sínum um heilbrigðiskerfið að þau lýstu í sumum tilfellum aðgerðum sem við höfum nú þegar komið í framkvæmd.

Það er alveg ný staða í stjórnmálum þegar flokkar eru farnir að lofa að gera það sem aðrir hafa þegar gert.

En er ekki oft sagt að eftirherman sé æðsta stig aðdáunar.

Kæru vinir.

Ég stend hér í dag fullur stolts af flokknum mínum.

Ég er stoltur af árangri okkar.

Ég er stoltur af stöðu okkar í íslenskum stjórnmálum og þá er ég ekki síst stoltur af því hvernig við sem flokkur förum með völdin.

Sú hugsjón sem sameinar okkur er samvinnan. Hún er einstakt veganesti þegar kemur að því að vinna að framförum og úrbótum.

Samvinna felur í sér að við hlustum.

Hún felur í sér að við stillum okkur ekki upp sem andstæðingum heldur finnum við þá fleti, þau mál sem sameina, og þaðan vinnum við að árangri fyrir þjóðina.

Ég vona að þið njótið þess um helgina að láta raddir ykkar og skoðanir hljóma. Flokksþing Framsóknar er einstök samkoma, sannkölluð hátíð, þar sem stefnan til framtíðar er mörkuð.

Njótið vel.