Categories
Greinar

110% leið hálaunafólksins

Deila grein

13/05/2014

110% leið hálaunafólksins

thorsteinn-saemundssonelsa
Ásmundur Einar DaðasonÍ umræðum um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar hefur kennt ýmissa grasa. Stjórnarandstaðan hefur ýmist haldið því fram að of lítið eða of mikið sé gert og að frumvörpin hefðu átt að koma fyrr eða alls ekki. Þá hefur því verið haldið fram að frumvörpin nýtist fyrst og fremst hinum tekjuhærri og séu því ósanngjörn. Samkvæmt opinberum gögnum má hins vegar komast að því hver áhrif hinna takmörkuðu aðgerða fyrri ríkisstjórnar voru á einstaka tekjuhópa.

Samtals voru um 45 milljarðar króna af verðtryggðum húsnæðisskuldum færðir niður vegna aðgerða fyrri ríkisstjórnar. Megnið af því fjármagni kom til vegna flaggskipsins, 110% leiðarinnar, en eins og kunnugt er fól sú leið í sér að bankar viðurkenndu að lán sem ekki væri hægt að standa skil á væru töpuð. Aðgerðir fyrri ríkisstjórnar nýttust aðeins um 10% heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir. Um 1% heimilanna fékk um helming niðurfærslunnar, eða rúmlega 20 milljarða króna. Þetta 1% heimilanna, eða 775 heimili, fékk yfir 15 milljóna króna niðurfærslu og var meðaltal niðurfærslunnar um 26 milljónir króna. Meðaltekjur þessara heimila á mánuði á árinu 2009 voru um 750 þúsund en um tugur þessara heimila var með meðaltekjur yfir tvær milljónir króna á mánuði. Til að fullkomna hið félagslega réttlæti norrænu velferðarstjórnarinnar þá fengu um 95% þessara 775 heimila sérstakar vaxtabætur frá ríkinu vegna húsnæðisskulda að fjárhæð tæplega 300 milljónir króna.

Handhöfum hins stóra sannleika um félagslegt réttlæti á Alþingi hefur verið tíðrætt um tekjuáhrif leiðréttingarfrumvarpa ríkisstjórnarinnar. Dreifing niðurfærslunnar eftir tekjuhópum í aðgerðum fyrri ríkisstjórnar var svo sannarlega hinum tekjuhærri í hag í samanburði við fyrirliggjandi frumvarp ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu húsnæðislána. Í 110% leiðinni fóru 30% heildarfjárhæðarinnar til heimila með yfir 10 milljón króna tekjur en 25% í Leiðréttingunni, sem þó nær til mun fleiri heimila.

Síðasta ríkisstjórn stakk örlítilli dúsu upp í landann með sérstökum vaxtabótum sem námu samtals rúmlega 10 milljörðum króna á tveimur árum. Áhrif þeirrar aðgerðar á tekjuhópa er að mestu leyti svipuð og áætluð áhrif Leiðréttingarinnar á tekjuhópa. Þó er athyglisvert að heimili með tekjur undir 4 milljónum króna fengu um 21% af sérstökum vaxtabótum en áætlað er að sami tekjuhópur fái um 24% af Leiðréttingunni.

Frumvörp ríkisstjórnarinnar gefa um 100 þúsund heimilum tækifæri til að lækka húsnæðisskuldir sínar eða spara til kaupa á húsnæði. Lækkun skulda getur orðið allt að 20% ef úrræðin eru nýtt að fullu. Leiðréttingin er sanngjörn og hefur jákvæð efnahagsleg áhrif. Skuldir fyrirtækja hafa verið færðar að því sem greiðslugeta þeirra segir til um og gengistryggð lán hafa verið endurreiknuð vegna dóma Hæstaréttar. Þá hafa fjármagnseigendur verið í sterkri stöðu þar sem skuldarar bera verðbólguáhættuna vegna verðtryggingar. Þeir sitja eftir sem skulduðu verðtryggð lán á meðan holskeflan reið yfir. Það er hvorki réttlátt né sanngjarnt.

Ríkisstjórnin setur fólkið í forgang með því að leiðrétta forsendubrestinn með jákvæðum hvötum og gefur öllum tækifæri á að horfa til framtíðar. Hátekjuheimili með tugmilljóna króna niðurfærslu fá að sjálfsögðu ekki leiðréttingu samkvæmt leið ríkisstjórnarinnar. En norræna velferðarstjórnin taldi ástæðu til að að veita þeim heimilum sérstakar vaxtabætur til viðbótar við niðurfærsluna.

Ásmundur Einar Daðason, Elsa Lára Arnardóttir og Þorsteinn Sæmundsson

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.