Þegar ég gekk inn í mennta- og menningarmálaráðuneytið í desembermánuði 2017 blasti við að öllu óbreyttu yfirvofandi kennaraskortur á Íslandi, en algjört hrun hafði orðið í brautskráningum frá 2008; 80% í leikskólakennaranámi og 67% í grunnskólakennaranámi.
Samfélag án kennara er ekki samkeppnishæft enda er kennarastarfið mikilvægasta starf samfélagsins þar sem það leggur grunninn að öllum öðrum störfum. Kennarar hafa leikið stórt hlutverk í lífi okkar allra þar sem fyrstu tveir áratugir hverjar manneskju fara að talsverðum hluta fram í kennslustofu. Við munum öll eftir kennurum sem höfðu mikil áhrif á okkur sem einstaklinga, námsval og líðan í skóla. Góður kennari skiptir sköpum. Góður kennari mótar framtíðina. Góður kennari dýpkar skilning á málefnum og fær nemandann til að hugsa afstætt í leit að lausnum á viðfangsefnum. Góður kennari opnar augu nemenda fyrir nýjum hlutum, hjálpar þeim áfram á beinu brautinni og stendur við bakið á þeim sem þurfa á því að halda.
Það var því ekkert mikilvægara en að snúa þessari neikvæðu þróun við, takast á við yfirvofandi kennaraskort og sækja fram af fullum krafti fyrir kennarastarfið. Strax í byrjun síðasta kjörtímabils var málið sett í forgang í þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti og voru aðgerðir kynntar á fyrsta ársfjórðungi 2019. Þær fólu í sér:
Launað starfsnám fyrir nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi.
Námsstyrk til nemenda á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi til að auðvelda nemendum að sinna lokaverkefnum sínum samhliða launuðu starfsnámi og skapa hvata til þess að nemendur klári nám sitt á tilsettum tíma.
Styrki til starfandi kennara til náms í starfstengdri leiðsögn til að fjölga kennurum í íslenskum skólum sem hafa þekkingu á móttöku nýliða í kennslu.
Samhliða var kennarafrumvarp lagt fram og samþykkt af Alþingi til að leiða til meiri sveigjanleika og flæðis kennara milli skólastiga til þess að auka starfsmöguleika þeirra.
Ég er stolt og glöð nú fjórum árum síðar að sjá fréttir þess efnis að útskrifuðum kennurum hafi fjölgað um 160% sé miðað við meðaltal áranna 2015-2019 sem var 174. 454 útskrifuðust sem kennarar árið 2022!
Þetta er stórsigur fyrir samfélagið okkar og hefði aldrei tekist nema fyrir frábæra samvinnu menntamálayfirvalda, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Háskólans á Akureyri, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Samtaka iðnaðarins og samtakanna Heimili og skóli.
Þetta sýnir svart á hvítu að aðgerðir dagsins í dag skipta sköpum fyrir framtíðina og það er vel hægt að takast vel á við stórar áskoranir á tiltölulega stuttum tíma þegar allir róa í sömu átt með samvinnuna að leiðarljósi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, varaformaður Framsóknar og fv. menntamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. janúar 2023.