Categories
Greinar

Byggðum blæðir

Deila grein

08/02/2018

Byggðum blæðir

Skiptir ekki máli þótt að einn og einn kall fari

Í frumbernsku vegagerðar hér á landi var mikil áhersla lögð á að ná vegasambandi á milli byggðalaga og ákafinn mikill á að hraða þeim framkvæmdum. Þá eins og nú greindi mönnum á um vegstæði. Í einu byggðalagi var ákafur og duglegur maður sem vildi fara skemmstu leið um klettótta hlíð að næsta áfangastað. Honum var bent á að þetta væri hættuleg framkvæmd og þeir sem ynnu að framkvæmdinni yrðu lagðir í stórhættu, auk þess sem vegfarendur yrðu í hættu á ferðalögum sínum. „ Það er í lagi að það fari einn og einn kall ef við fáum veginn,“ var svarið.

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hlustaði á orð Loga Einarssonar formanns Samfylkingar í ræðustól Alþingis um daginn, þegar hann ræddi um veiðigjöldin. Hann talaði fyrir því að hækka auðgjaldið og því þyrfti að hraða til að ná inn auknum tekjum í þjóðarbúið. Rökin hans fólu m.a. í sér þessa fullyrðingu: „Er ekki allt í lagi þó að eitthvað af útgerðarfyrirtækjunum fari á hausinn og við leitum í hagkvæmasta reksturinn þannig að þjóðin fái á endanum afgjaldið? Aðalatriðið er að byggðunum blæði ekki.“

Byggðum blæðir

Það er staðreynd að byggðum er farið að blæða nú þegar. Veiðigjöldin margfölduðust á sl. ári og eru þegar til útgerðarfyrirtæki sem hafa gefist upp og nokkur eru að hugsa sér til hreyfings.  Sú reikniregla sem viðgengst kemur illa niður á því árferði sem núna er hjá bolfiskfyrirtækjum. Reiknireglan miðast við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja fyrir tveimur árum og veiðigjöld þessa fiskveiðiárs er því tengd afkomu greinarinnar árið 2015 sem var verulega betri en afkoma sl. árs. Því veldur styrking krónunnar og lækkun á hráefnisverði.

Lítil og meðalstór fyrirtæki eiga mörg hver í verulegum erfileikum og ekki er útséð hve mörgum tekst að klára árið. Þarna erum við ekki einungis að tala um að einstökum byggðalögum blæði, heldur fjórðungum. Lítum til Vestfjarða. Þar eru einungis lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki. Ennþá er það svo að sjávarútvegurinn er aðalatvinnuvegur fjórðungsins. Það er því mikið í húfi. Okkur tekst ekki á skömmum tíma að byggja upp eða styrkja aðrar atvinnugreinar til að mæta þeim skelli sem gæti orðið ef þessi stoð væri skorin niður. Samþjöppun fyrirtækja? Viljum við að eitt stórt fyrirtæki sem hefur enga tengingu við samfélagið reki allan sjávarútveg?

Hraða aðgerðum

Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa ekki mótmælt því að greiða gjald af auðlindinni, enda hreyfðu þau ekki mótmælum þegar vel gekk. En gjaldið þarf að vera sanngjarnt og taka mið af afkomu nær í tíma og af fleiri þáttum í rekstri, eins tíðkaðist með afslætti vegna vaxta og framkvæmda. Þjóðin græðir ekki á afgjöldum af auðlindinni ef að það kostar okkur rótgróin fyrirtæki.

Við verðum að hraða aðgerðum. Litróf sjávarútvegsfyrirtækja í landinu má ekki verða einsleitt. Það er öllum byggðarlögum hollt að rekin séu sterk og fjölbreytt fyrirtæki sem fylgja hjarta samfélagsins.

Halla Signý Kristjánsdóttir

þingmaður Framsóknarflokksins í NV kjördæmis.