Categories
Greinar

Aðildarumsókn og samskipti við Evrópusambandið

Deila grein

24/10/2016

Aðildarumsókn og samskipti við Evrópusambandið

sigurduringi_vef_500x500Í samantekt hér í Kjarnanum um helgina eru tínd til nokkur mál er ritstjórn Kjarnans telur vera afleiki ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þar með er reynt að leita skýringar á því af hverju stjórnin nýtur ekki meira fylgis í aðdraganda kosninga þó að á ,,… Íslandi ríkir efnahagsleg velsæld um þessar mundir,“ eins og segir í samantektinni. Óhætt er að segja að fleiri undrist það en ritstjórn Kjarnans.

Eitt atriði er tínt til sem mér finnst að lesendur Kjarnans eigi skilið að fá betri útlistun á. Það lítur að afdrifum ESB umsóknarinnar sem síðasta ríkisstjórn hrinti af stað. Það vekur reyndar eftirtekt að í sambærilegri samantekt ritstjórnar Kjarnans á afleikjum vinstri stjórnarinnar 2009-2013 telst umsóknin ekki til afleikja! Og er þó öllum fullljóst að hún telst nú til mestu svika sem kjósendur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hafa orðið að þola. Það er rakið með skýrum hætti í nýrri bók Jóns Torfasonar, Villikettirnir og vegferð VG: Frá vænt­ingum til vonbrigða. VG lofaði kjósendum sínum að ekki yrði sótt um aðild að ESB og stóð svo að aðildarviðræðum strax eftir kosningar. Skýrari verða svikin varla. Og svo virðist reyndar sem VG sé nú þegar komið í viðræður um myndun nýrrar stjórnar; fróðlegt verður að vita hvort VG gerir grein fyrir stefnu sinni gagnvart ESB fyrir kosningar, eða hvort það verður látið bíða betri tíma. Og svo öllu sé til haga haldið, þá klufu þessi svik fyrir kosningarnar 2009 þjóðina í herðar niður. Á að endurtaka þann leik með „Reykjavíkurstjórninni“ 2016?

Hvað um það – við skulum rifja upp þau skilaboð sem ESB fékk frá ríkisstjórninni sem tók við á vormánuðum 2013:

  • að ríkisstjórnin hyggist ekki endurvekja aðildar­ferlið,
  • að skuldbindingar fyrri ríkisstjórnar í aðildarferli séu ekki lengur gildar í ljósi nýrrar stefnu,
  • að Ísland teljist ekki lengur umsóknarríki, og
  • óskað að ESB geri ráðstafanir sem taki mið af því.

Á sama tíma var áhersla lögð á að styrkja framkvæmd EES samningsins og nánara samstarf við ESB á grunni hans. En af hverju kaus ríkisstjórnin að enda aðildarferlið? Tínum til nokkur atriði:

  • Stefna beggja stjórnarflokka var skýr fyrir kosningar. Hag Íslands yrði best borgið utan ESB og að ekki skyldi haldið áfram í viðræðum án þjóðaratkvæðagreiðslu.
  • Niðurstaða stjórnarsáttmála er alveg skýr. Viðræður í hlé og ekki framhaldið án þjóðaratkvæðis. Jafnframt að úttekt yrði gerð á viðræðum og stöðunni innan ESB og þróun þess.
  • Framsóknarmenn hafa fylgt þessari stefnu í einu og öllu og staðið við það sem lofað var í kosningabaráttunni.
  • Það var ekkert sagt um það í okkar kosningabaráttu að það ætti að kjósa á kjörtímabilinu.

Mikilvægt er að hafa í huga að á fundum forsætisráðherra með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og forseta leiðtogaráðsins í júlí 2013 var þessi nýja stefna útskýrð. Á þeim fundum kom skýrt fram að þessir tveir leiðtogar stofnana ESB myndu fagna skýrri stefnu varðandi aðildarferlið enda mátti öllum vera ljóst að það var komið í ógöngur og óásættanlegt að hafa málið í þeim farvegi sem það var þegar ríkisstjórnin tók við.

Fjögurra ára árangurslaust ferli

Það birtist skýrt í úttekt Hagfræðistofnunar HÍ sem var kynnt 2014. Ekki verður annað séð af skýrslunni en að hún styðji við það að umsóknarferlið passi okkur ekki. Skýrslan staðfestir að ríki hafi notað ferlið til að beita okkur þvingunum í óskyldum málum. Engar lausnir voru á borðinu eftir fjögurra ára ferli í okkar helstu hagsmunamálum. Úttekt aðila vinnumarkaðarins sem unnin var af Alþjóðamálastofnun HÍ sagði í raun sömu sögu þó að nálgunin hafi verið önnur.

Það var því eðlilegt og sanngjarnt gagnvart ESB, aðildarríkjum þess og íslensku þjóðinni að skýrleiki ríkti í þessu máli á vakt þessarar ríkisstjórnar. Engin ástæða var til að halda lífi í ferli um aðild að sam­bandi sem engin vissa er fyrir hvernig muni þróast. Þessu til viðbótar blasir við að sjaldan hefur verið meiri óvissa um hverslags samband ESB verður innan fárra missera.

Stefna Framsóknarflokksins er skýr í þessum málaflokki. Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins og hafnar því aðild að sambandinu. Framsóknarflokkurinn fagnar því að ríkisstjórn undir forystu Framsóknarflokksins afturkallaði aðildarumsóknina að ESB. Flestum, þó ekki öllum, var ljóst að forsendur þeirrar umsóknar voru brostnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist á kjarninn.is 24. október 2016.