Categories
Greinar

Ættleiðingar og mannréttindi

Deila grein

07/04/2014

Ættleiðingar og mannréttindi

johannaÁ Íslandi gilda lög um að samkynhneigðir mega ættleiða. Staðan er sú að ekkert erlent land sem við erum í samskiptum við leyfir ættleiðingar milli landa til samkynhneigðra. Í þessu máli skarast reglur upprunaríkis og móttökuríkis svipað og gerist með lög um ættleiðingar einhleypra einstaklinga og fatlaðra. Þetta er ástæða þess að samkynhneigð pör geta aðeins ættleitt innanlands.

Misskilningurinn er sá að margir lesa út úr þessum tilmælum að það sé verið að banna samkynhneigðum hérlendis að ættleiða. En sú er ekki raunin og í rauninni er Ísland alveg undir það búið, ef önnur lönd fara að leyfa ættleiðingar milli landa til para af sama kyni, að taka þá þátt í því.

Þegar við skoðum hvaða lönd það eru helst sem Íslendingar eru að ættleiða frá, þá sjáum við að það eru lönd sem eru frekar aftarlega í röðinni þegar kemur að mannréttindum og réttindum samkynhneigðra sér í lagi, það eru Indland, Kína, Kólumbía, Tékkland og Tógó.

Ísland hefur í lengri tíma unnið að því að bæta stöðu sína hvað varðar ættleiðingar sem og uppfæra lög og reglur er að því snúa. Samkvæmt Haag-samningnum, sem Ísland er aðili að, skal tryggja við ættleiðingar á börnum milli landa að hagsmunir þeirra séu hafðir að leiðarljósi og þær ættleiðingar fari fram í samvinnu stjórnvalda í bæði uppruna- og móttökuríki, einnig setja reglur um hæfi væntanlegra kjörforeldra. Stjórnvöld geta þá sett reglur um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að ættleiða milli landa.

Innanríkisráðuneytið og baráttan

Í svari innanríkisráðuneytis við fyrirspurn minni kemur fram að: »Ráðuneytinu er kunnugt um að ekkert par af sama kyni, búsett á Íslandi, hafi ættleitt barn (saman) erlendis frá síðan lög um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun), nr. 65/2006, tóku gildi. Staðan á Íslandi hvað þetta varðar er sambærileg og þegar kemur að öðrum norrænum ríkjum, en samstarfsríki þeirra eru þó mun fleiri en samstarfsríki Íslands.«

Hér á landi fara löggilt ættleiðingarfélög með milligöngu fyrir millilandaættleiðingum. Þau hafa séð um að afla nýrra sambanda við ríki sem núna er og verður hægt að ættleiða frá. Innanríkisráðuneytið leggur til alla þá hjálp sem það getur í þessum málum.

Í dag er virkur samstarfshópur Íslenskrar ættleiðingar og Samtakanna ’78 sem hefur unnið að því að kanna möguleika á ættleiðingum til samkynhneigðra. Og á meðan önnur lönd vinna sig í áttina að því að leyfa ættleiðingar milli landa til samkynhneigðra þá ættum við að vinna áfram það góða starf sem við getum hérlendis til að vera undir það búin þegar stundin kemur.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. apríl 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.