Categories
Greinar

Af hverju FramSókn?

Deila grein

26/04/2013

Af hverju FramSókn?

Sigurður Ingi JóhannssonÁ laugardag 27. apríl, göngum við til kosninga til Alþingis. Kosningar eru alltaf mikilvægar – en aldrei sem nú.

Heimili landsins eru grunnstoðir samfélagsins. Framsókn mun berjast fyrir framtíð þeirra. Að nýta ekki ofurhagnað vogunarsjóða og annarra kröfuhafa bankanna væri glapræði. Við Framsóknarmenn ætlum að setja á oddinn leiðréttingu stökkbreyttra verðtryggðra lána heimilanna og afnám verðtryggingar.  Samhliða þeirri aðgerð er lausn „snjóhengjunnar“ svokölluðu, sem er forsenda fyrir afnámi gjaldeyrishafta.

Við munum beita okkur fyrir uppbyggingu alls atvinnulífsins – við þurfum aukna fjárfestingu og hagvöxt. Við viljum úthýsa atvinnuleysi úr samfélaginu.  Tækifærin í suðurkjördæmi og öllu Íslandi eru gríðarleg hvort sem er í hefðbundnum atvinnugreinum til sjávar og sveita, ferðaþjónustu eða orkugeiranum.  Þá er þekkingariðnaðurinn með mannshugann óþrjótandi auðlind. Þá auðlind viljum við virkja til að fá fram fjölbreytt atvinnulíf og betri lífskjör. Hér á Suðurnesjum er eimreið ferðaþjónustannar á Íslandi – flugstöð Leifs Eiríkssonar – hún mun eflast og þjónusta í kringum hana mun koma Suðurnesjum vel. Álverið í Helguvík þarf að rísa og munum við Framsóknarmenn gera það sem við getum til að það verkefni gangi eftir. Fjölbreytt atvinnulíf vex í kringum stórverkefni og stórfyrirtæki – það mun gerast á Suðurnesjum líka.

Með því að setja X við B sýnir þú stuðning í verki til að koma stefnu okkar Framsóknarmanna í framkvæmd. Þannig getum við skapað saman aðstæður til sóknar í atvinnumálum, byggt upp heilbrigðiskerfið og löggæsluna og leiðrétt kjör aldraðra og öryrkja.

Og – með leiðréttingu skulda og afnámi verðtryggingar, lyftum við saman okinu af heimilunum. Sækjum fram saman – XB.

Með sumarkveðju,
Sigurður Ingi Jóhannsson