Categories
Greinar

Afnám hafta er hafið

Deila grein

09/06/2015

Afnám hafta er hafið

GBSFyrir síðustu kosningar voru tvö af helstu kosningamálum Framsóknarflokksins að leiðrétta fasteignaskuldir heimilanna og aflétta höftum þannig að svigrúm skapaðist til að verja og bæta efnahagslega stöðu landsmanna.

Sigmundur Davíð hefur ætíð haldið því fram að svigrúmið væri til staðar en að leita þyrfti allra leiða til að hámarka það og ekki gefa neina afslætti. Nú er þetta orðið staðreynd. Ekki er um að ræða 300 milljarða, heldur hátt í 1.000 milljarða króna sem þetta svigrúm mun reynast.

Vandinn í sinni einföldustu mynd er að í slitabúum föllnu fjármálafyrirtækjanna eru gríðarlegar eignir. Þessar eignir vilja eigendur þeirra flytja úr landi í formi gjaldeyris. Á Íslandi er ekki til nægur gjaldeyrir til að þessir 1.200 milljarðar (erlenda snjóhengjan) geti farið úr landi.

Áætlun stjórnvalda tryggir að almenningur á Íslandi og íslensk fyrirtæki munu ekki bera auknar byrðar enda er nóg komið. Aðgerðirnar miða að því að koma í veg fyrir hrun íslensku krónunnar og þar með aðra kollsteypu með auknum byrðum á samfélagið. Áætlunin felur því í sér heildstæðar aðgerðir til að taka á vandanum í áföngum, án þess að jafnvægi í hagkerfinu verði raskað og án þess að ríkissjóður eða almenningur taki á sig auknar fjárhagslegar byrðar.

Verið er að leysa risavaxinn vanda sem skapaðist með einu stærsta gjaldþroti heimssögunnar þegar bankarnir þrír féllu. Það að leysa slíkt er almennt erfitt, hvað þá innan eins minnsta hagkerfis Evrópu. Skuldir fjármálakerfisins eru rót vandans og kölluðu á höftin.

Til að klára þetta mál þurfti kjark, gott fólk og trú á að verkefnið tækist. Það þurfti að horfa út fyrir boxið og á endanum varð til leið sem ekki hefur áður verið farin. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafði trú á verkefninu, skildi mikilvægi þess fyrir íslenskt samfélag og nú sjáum við fyrstu skrefin að nýjum tímum tekin.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 9. júní 2015.