Categories
Greinar

Ágætu sveitungar!

Deila grein

17/05/2018

Ágætu sveitungar!

Nú líður að kosningum og þá er farið yfir öll mál sveitarfélagsins því nýtt fólk mun koma í sveitastjórn. Það er gaman að hitta fólk, fara yfir áherslur á málum, finna mismunandi skoðanir fólks og einnig hversu stutt er á milli  afstöðu fólks þegar öll rök eru lögð á borðið.

Hér ætla ég aðeins að koma inn á íþrótta- og æskulýðsmálin. Í dag er fjárhagsstaða sveitarfélagsins nokkuð góð og hægt að fara í framkvæmdir.  Því ætlum við að hefja undirbúning að gervigrasvelli og til að ljúka við hann þarf að vinna þetta á tiltölulega stuttum tíma, eðli málsins samkvæmt. Áætlað er að ljúka framkvæmdum við hann næsta sumar.

Í Dalvíkurbyggð er mjög fjölbreytt svið íþrótta- og útivistarafþreyingar: fótbolti, skíði, golf og hestaíþróttir, sem hafa  þó nokkra veltu fjárhagslega og mörg smærri, svo sem blak, sund, fimleikar, starfsemi ungmennafélagana á Árskógsströnd og Svarfaðardal, ferðafélög og Björgunarsveitina.  Nokkrar greinar eru til viðbótar minna stundaðar núna og alltaf einhverjar nýjar í farvatninu. Blakarar eru að koma upp strandblaksvelli við Íþróttamiðstöðina og svo er komin fjölnota hjólabraut við skólann. Síðan er hugmynd að koma upp mótorkrossbraut. Einnig hefur átakið Heilsueflandi Dalvíkurbyggð stuðlað að hreyfingu meðal almennings án endurgjalds.  Af þessari upptalningu sést að margir njóta stuðnings frá Dalvíkurbyggð.

Ég hef verið þrjú kjörtímabil í Íþrótta- og æskulýðsráði og hefur verið gaman að fylgjast með hve margir eru að leggja mikið á sig í sjálfboðavinnu fyrir félögin. Þegar styrkbeiðnir koma á borð okkar, þar sem mikil sjáfboðavinna fylgir, er miklu jákvæðara að samþykkja þær en hinar þar sem allt á að þiggja en lítið að láta á móti.

Við getum verið stolt af öflugu starfi og viljum vera það áfram.  Gaman væri að íbúarnir tækju meiri þátt í fleiru eins og þeir gera í kosningu á íþróttamanni Dalvíkurbyggðar ár hvert.

Þegar allt kemur til alls viljum við sanngjarna skiptingu gæða milli allra og að nýting á fjármagni sé sem best.  Stórar og miklar yfirlýsingar og loforð duga skammt ef illa árar.  Ég ólst upp við notkun á einfaldri setningu: „Eyddu minna en þú aflar“.  Þetta hef ég til hliðsjónar í mínu starfi og einnig í okkar sveitarfélagi.

Jón Ingi Sveinsson

Höfundur situr í 2. sæti B-lista í Dalvíkurbyggð.