„Ég er fyrst og fremst að bjóða mig fram fyrir eldri borgara“, segir Baldur Þór Baldvinsson sem skipar þriðja sætið á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi í þessum sveitarstjórnarkosningum. Hann segir að eldra fólki fari fjölgandi og menn séu að gera sér betur grein fyrir því. Uppstillinganefnd Framsóknarflokksins hafi boðið sér þriðja sætið og formaður nefndarinnar hafi sagt sér, að flokkurinn hefði ákveðið að eldri borgari yrði ofarlega á listanum. Hann segir að það hafi hins vegar verið algegnt að eldra fólki væri boðið að skipa uppfyllingasæti á listum flokkanna í kosningum. Aðspurður hvort eldra fólk sé ekki tregara að gefa kost á sér, segist hann ekki hafa orðið var við það. „Ég þekki engan sem hefur verið boðið sæti á lista sem eitthvað kveður að. Við höfum verið sniðgengin þó eldra fólki hafi í gegnum árin verið boðið að vera „til skrauts“ á framboðslistum flokkanna.
Er í baráttusætinu
Framsóknarflokkurinn í Kópavogi hefur nú einn bæjarfulltrúa og Baldur segist vera í baráttusætinu. „Við erum með gott lið“, segir hann og getur þess til gamans að fulltrúarnir í sætunum tveimur fyrir ofan hann, séu samanlagt jafngamlir honum, en Baldur verður 77 ára í júní. „Og stúlkan í fjórða sætinu, Kristín Hermannsdóttir, á milli okkar eru 56 ár“, segir hann og hlær. „Ég kem þarna og ætla að vinna fyrir eldri borgara. Þó ég komist ekki í bæjarstórn, fer ég í nefndir og get starfað betur fyrir eldra fólkið en ég geri í dag. Það eru óskaplega mörg mál í sveitarstjórnum sem varða eldri borgara.
Vildi kjörna fulltrúa í öldungaráðið
Baldur sem er formaður Félags eldri borgara í bænum, hefur lítið skipt sér af flokkspólitík og telur að annað gildi þegar menn eru að velja bæjarfulltrúa, en alþingismenn. Þá skipti flokkspólitíkin ekki jafn miklu máli. „Ég hef bara einu sinni á ævinni kosið sama flokkinn til Alþingis og sveitarstjórnar, annars hefur þetta verið sitt á hvað“, segir hann. Hann gekk á sínum tíma í Sjálfstæðislokkinn til að kjósa vin sinn Gunnar Birgisson, en var ekki alveg dús við framgöngu flokksins þegar velja átti fólk í nýtt öldungaráð bæjarins. Hann var þeirrar skoðunar að fulltrúar bæjarfélagsins í öldungaráðinu ættu að vera kjörnir fulltrúar, ekki embættismenn. Það gekk hægt að fá því framgengt. Málið leystist þegar fulltrúar minnihlutans tóku það uppá sína arma og að lokum var öldungaráðið skipað þremur bæjarfulltrúum og þremur fulltrúum frá Félagi eldri borgara. Þá skildu leiðir með Baldri og Sjálfstæðisflokknum.
Aldrei fullgert
Baldur segir gott fyrir eldri borgara að búa í Kópavogi. Þar eru til dæmis þrjár mjög öflugar félagsmiðstöðvar fyrir eldra fólk. „Það er margt mjög gott hér, en það er alveg á hreinu að það er aldrei fullgert. Við erum þannig með lægri afslátt af fasteignagjöldum en nágrannar okkar í Hafnarfirði og þar er í boði frístundastyrkur fyrir eldra fólk, en ekki hér“. Hann telur að reynsla eldri borgara sé ekki mjög mikils metin í samfélaginu. Það verði að breytast og þessi hópur verði að eiga fulltrúa alls staðar, þar sem fjallað sé um hans mál“.
Greinin birtist fyrst á lifdununa.is 25. apríl 2018.