Categories
Greinar

Allir landshlutar sækja fram

Deila grein

18/01/2022

Allir landshlutar sækja fram

Rétt fyrir áramótin voru fyrstu fjárlög nýrrar ríkisstjórnar samþykkt á Alþingi. Þar má finna mörg jákvæð mál sem gefa tilefni til bjartsýni inn í nýja árið. Meðal þeirra mála má sérstaklega nefna að samþykkt var 100 milljóna króna styrking á verkefninu um sóknaráætlanir landshluta.

Mikilvægi sóknaráætlana landshluta er óumdeilt, og umrædd styrking samræmist efni nýs stjórnarsáttmála. Þar kemur fram að unnið verði áfram að eflingu sóknaráætlana allra landshluta.

Uppbygging heima fyrir

Sóknaráætlanir og uppbyggingarsjóðir gegna lykilhlutverki í eflingu nýsköpunar og menningarstarfs á landsbyggðinni. Þessar sóknaráætlanir hafa nú þegar sannað sig. Þær hafa stuðlað að því að fjármunir nýtast hratt og á áhrifaríkan hátt í öflugri byggðaþróun. Í hverjum samráðsvettvangi fyrir sig eru fengnir fulltrúar frá því svæði sem hver áætlun varðar. Þar fá heimamenn að viðra sínar áherslur og uppbygging fer fram í takt við þær. Það er mikilvægt, enda vita fáir betur en heimamenn hvað vænlegast er til árangurs á sínu svæði.

Mikilvæg verkefni

Hér fyrir okkur, heimamenn í Norðausturkjördæmi, standa mikilvæg verkefni. Tækifærin til frekari uppbyggingar bæði hvað varðar menningu og atvinnu eru heldur betur til staðar. Með auknum fjárstuðningi til sóknaráætlana landshluta stuðlum við að frekari framsókn á Austurlandi og Norðurlandi eystra, þar sem fjármagnið er nýtt í takt við áherslur heimamanna.

Frekari efling og uppbygging flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum, þróun þekkingarsamfélagsins á Austurlandi og NÍN (Nýsköpun í norðri) verkefnið eru dæmi um áhersluverkefni sóknaráætlana landshluta. Þessi verkefni, ásamt fleirum, stuðla að fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifærum í Norðausturkjördæmi, og gerir svæðin meira aðlaðandi fyrir íbúa kjördæmisins sem og einstaklinga sem hafa hug á því að flytja hingað.

Framsækni um allt land

Það er ánægjulegt að hafa fengið að kjósa með auknum fjárstuðningi til sóknaráætlana landshluta. Þessar áætlanir boða frekari sókn um allt land. Slíkar aðgerðir ríma vel við áherslur Framsóknar um öfluga byggðastefnu og velsæld um alla landshluta. Mikilvægt er að á kjörtímabilinu verði enn aukið samstarf milli landshlutasamtaka og allra ráðuneyta til þess að tryggja að stærri aðgerðir sóknaráætlana nái fram að ganga. Þannig tryggjum við aukin gæði um allt Ísland.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 17. janúar 2022.