Categories
Greinar

Allt land er auðlind og þarf að vera í eigu landsmanna

Deila grein

19/11/2018

Allt land er auðlind og þarf að vera í eigu landsmanna

Allt land er auðlind, landið sjálft, jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst. Sumt land nýtist til matvælaframleiðslu, annað til útivistar og auk þess geta fylgt landi önnur gæði sem enn auka verðmæti þess t.d. veiði og vatnsréttindi.

Meðferð og notkun alls landsins skiptir alla landsmenn máli bæði nú og til framtíðar. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands, því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og hverri annarri fastegin.

Eignarhald, ráðstöfunarréttur og ábyrgð á landi þarf að vera í höndum landsmanna. Stjórnvöld og almenningur geta haft áhrif á landnýtingu í gegnum skipulagsáætlanir þar sem sveitarfélög geta sett landnýtingu mismunandi skorður eftir náttúrufari, eðli ræktunar og manngerðs umhverfis.

Stjórnvöld geta beitt ýmsum tækjum til að hafa áhrif á ráðstöfun lands.  Án tafar þarf ríkisvaldið að setja skilyrði um að sá sem vill eignast land eða jörð hafi búsetu á Íslandi eða hafi áður haft hér fasta búsetu í a.m.k. 5 ár.  Þessa reglu þarf að aðlaga EES samningnum á málefnalegan hátt og það er einfalt að gera.

Einnig þarf að fylgja eftir áliti starfshóps um endurskoðun eignarhalds á bújörðum frá því í september 2018,  um aðrar mögulegar breytingar á jarðalögum og ábúðarlögum til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins.  Þessum tillögum voru gerð ítarleg skil í Bændablaðinu þann 1. nóvember s.l. og þegar hefur verið boðað að forsætisráðuneytið mun leiða áframhaldandi vinnu með tillögurnar.

Sveitarfélög geta notað skipulagsáætlanir betur en nú er gert  til að setja kvaðir um landnýtingu.  Sveitarfélög geta skilgreint landbúnaðarland sem halda skal í ræktanlegu ástandi í skipulagi.   Einnig væri athugandi að skilgreina í skipulagi,  jarðir þar sem heilsársbúseta er æskileg og geta þar komið inn fleiri sjónarmið en nýting til landbúnaðar,  s.s. öryggissjónarmið, eftirlit lands og náttúruvernd.  Í Landsskipulagsstefnu er nú þegar gert ráð fyrir að sett verði  fram leiðarljós um landnotkun í dreifbýli til leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga.

Þá geta stjórnvöld beitt skattlagningu til að hafa áhrif á nýtingu fasteigna eins og jarða og húsa sem á þeim standa. Þannig mætti beita fasteignaskatti sem hvata til nýtingar eigna í strjálbýli með því að leggja hærri skatt á eignir sem ekki eru í notkun.

Bætt skráning landeigna er forsenda þess að hægt verði að beita stjórntækjum markvisst við ráðstöfun lands. Til þess þarf að byggja upp miðlæga landeignaskrár sem inniheldur hnitsetta afmörkun allra landeigna; þjóðlenda, jarða og lóða.

Tæknin fyrir Landeignaskrá er til staðar,  aðeins þarf að setja reglur um skráningu og ganga skipulega til verks.  Landeignaskrá Íslands yrði gunnur að skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu á auðlindum jarðar með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 2018.