Nú hafa um 90 % þeirra sem sóttu um leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum, fengið niðurstöður birtar inni á vefnum leiðrétting.is. Um 10 % útreikninga eru eftir. Unnið er hröðum höndum við útreikning þeirra sem eftir eru og áætlað er að niðurstöður muni birtast á næstu 2 – 3 vikum.
Leiðréttingin, tvær aðgerðir
Eins og fram hefur komið þá skiptist leiðréttingin í tvær aðgerðir. 80 milljarða króna leiðréttingu sem kemur til framkvæmdar í einu lagi, lánunum verður skipt niður í frumlán og leiðréttingalán. Lántaki greiðir eingöngu af frumláni og leiðréttingarlánið fellur niður á einungis rúmu ári. Það er styttri tími en áður var áætlaður. Ástæða þess að ákveðið var að stytta tímann var að minnka vaxtakostnað til fjármálastofnanna og setja meira til heimilanna. Það er afar jákvætt. Hinn hluti leiðréttingarinnar eru 70 milljarðar sem fara í skattleysi séreignasparnaðs við inngreiðslu á höfuðstól lána.
80 milljarða króna leiðréttingin leiðréttir forsendubrest umfram 5,8 %. Skattfrelsi við innborgum séreignasparnaðar á höfuðstól, það eru 20 milljarðar af þeim 70, færa viðmið leiðréttingarinnar niður í 4 % verðbólgu yfir viðmiðunartímabilið við fullnýtingu leiðréttingar. Framlag ríkisins til leiðréttingarinnar leiðréttir því alla verðbólgu áranna 2008 – 2009 yfir 4 %. Inngreiðslur séreignasparnaðar eru hreint viðbót við það.
Hvaðan koma peningarnir?
Beina leiðréttingin, það eru 80 milljarðarnir koma frá þrotabúum gömlu bankanna. Undanþága slitabúa gömlu bankanna frá skattheimtu var afnumin þannig að hægt væri að sækja peninga beint til kröfuhafanna sem eiga þrotabúin. Um er að ræða nýjan tekjustofn þar sem ríkissjóður hefur eingöngu milligöngu. Ánægjulegt er að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sýni kjark og þor í þessum efnum. Kominn var tími til að þær fjármálastofnanir sem fóru ógætilega í aðdraganda hrunsins, komi á móts við heimili landsins og skila hluta skaðans til baka. Annað er algjörlega óásættanlegt.
Tölulegar upplýsingar um leiðréttinguna
Um 90 þúsund einstaklingar fá skuldaleiðréttingu í gegnum beina niðurfellingu og meðal fjárhæð leiðréttingarinnar er 1,350,000 krónur. Meðaltal hjóna er 1,510,000 og hver einstaklingur fær 1,100,000 krónur að jafnaði.
Vegna aðgerðanna munu vaxtagjöld heimilanna lækka um 22 % fram til ársins 2017 og eiginfjárstaða 54 þúsund heimila, rúmlega 90 þúsund einstaklinga styrkjast. Einstaklingar sem skulda minna en 15 milljónir króna og heimili sem skulda minna en 30 milljónir fá rúmlega 70 % af fjárhæð leiðréttingarinnar. 55 % af fjárhæð leiðréttingarinnar fer til einstaklinga sem eiga minna en 4 milljónir og til heimila sem eiga minna en 13 milljónir í eigið fé. Jafnframt eru einstaklingar með 330 þúsund á mánuði og hjón þar sem hvort fyrir sig hefur 450 þúsund í mánaðarlaun, tíðasta gildið í leiðréttingunni. Meira en helmingur af heildarfjárhæð leiðréttingarinnar rennur til fólks sem er undir meðallaunum. Meðalheildarlaun á mánuði á Íslandi eru 520 þúsund krónur. Mest fá þeir sem eiga minnst.
Elsa Lára Arnardóttir og Páll Jóhann Pálsson
Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. nóvember 2014
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.