Greiðari alþjóðaviðskipti undanfarinna áratuga hafa skilað þjóðum heims miklum ávinningi og eru það ekki síst fátækustu löndin sem hafa notið þess í formi bættra lífskjara. Alþjóðabankinn telur að þeim einstaklingum sem búa við sára fátækt hafi fækkað um meira en helming á síðustu þrjátíu árum þar sem meira en milljarði manna hefur verið lyft úr gildru fátæktar. Þessa þróun má ekki síst rekja til greiðari alþjóðaviðskipta.
Á undangengnum árum hefur heimsbúskapurinn orðið fyrir talsverðum áföllum og í fyrsta skipti í meira en tvo áratugi hefur fjölgað í hópi þeirra sem búa við sára fátækt. Það eru ákveðnar blikur á lofti um samdrátt í heimsviðskiptum og spor kreppuára síðustu aldar hræða. Þá voru fyrstu viðbrögð þjóðríkja einangrunarhyggja og var það ekki fyrr en eftir seinni heimsstyrjöldina, ekki síst með tilkomu Bretton Woods-stofnana og GATT, að viðskipti byrjuðu að glæðast á ný með tilheyrandi hagsæld.
Kenningar Smith og Ricardo
Árið 1776 kom út bók skoska hagfræðingsins Adams Smith, Auðlegð þjóðanna . Í þeirri bók kynnti hann kenningu sína sem kallast algjört forskot (e. absolute advantage) í alþjóðaviðskiptum, sem gengur út á að hver þjóð einblíni á að framleiða eina vöru á skilvirkari hátt en aðrar. Jafnframt taldi Smith að viðskiptum á milli landa ætti ekki að vera stjórnað eða þau takmörkuð með inngripum stjórnvalda. Hann fullyrti að viðskipti ættu að flæða eðlilega í samræmi við markaðsöfl eða „ósýnilegu höndina“. Ekki voru allir hagfræðingar sammála þessari nálgun og héldu sumir hagfræðingar því fram að sum lönd gætu verið betri í að framleiða margar vörur og þannig haft forskot á mörgum sviðum, sem lýsir raunveruleikanum betur. Breski hagfræðingurinn David Ricardo kom fram í kjölfarið með kenninguna um samanburðarforskot (e. comparative atvantage) árið 1817. Hann hélt því fram að jafnvel þótt land A hefði algera yfirburði í framleiðslu ýmissa vara gæti samt verið sérhæfing og viðskipti milli tveggja landa. Staðreyndin er sú að munurinn á þessum tveimur kenningum er lítill. Alþjóðaviðskipti byggjast enn í dag að grunni til á þessum kenningum og hagur þjóða hefur vænkast verulega í kjölfarið.
Áföllin; Trump, C-19 og Pútín
Innrásin í Úkraínu er þriðja áfallið sem heimsviðskiptin verða fyrir á einum áratug. Fyrst gaf Donald Trump Bandaríkjaforseti tóninn 2016-2020, með boðun einangrunarhyggju og viðskiptastríði við nokkur lykilríki. Núverandi stjórnvöld hafa ekki dregið nægjanlega mikið til baka í þessum efnum og er það áhyggjuefni. Næst tók hin illræmda farsótt við, þar sem hagkerfin urðu fyrir miklum áföllum í alþjóðlegum vöruviðskiptum, fjármagns- og fólksflutningum. Nú er hafið skelfilegt stríð í brauðkörfu Evrópu með þeim afleiðingum að setið er um hafnir Svartahafsins og efnahagsþvinganir á Rússland hafa hrundið af stað framboðsáfalli sem allt heimshagkerfið finnur sárlega fyrir. Verðið á hveiti hefur hækkað um 40% og það kann að vera að Evrópubúar upplifi skort á gasi til hitunar næsta vetur. Þá hefur verð á nikkeli rokið upp en það er meðal annars notað í rafgeyma, t.d. fyrir rafmagnsbíla.
Frekari aðför að alþjóðaviðskiptum mun vinna gegn lífskjörum á heimsvísu, því verða þjóðir heims að standa saman gegn því að alvarleg afturför verði í alþjóðaviðskiptum. Það kallar meðal annars á nýtt átak til eflingar heimsviðskiptum þar sem snúið verður af braut viðskiptatakmarkana, sem skotið hafa upp kollinum á síðustu árum, en horft verði til þess hvað betur má fara í viðskiptum landa á milli með skýrari reglum og stuðningi við alþjóðastofnanir á þessu sviði, þar með talið Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO).
Staða Íslands í alþjóðaviðskiptum
Ekkert er sjálfgefið í þessum efnum. Viðskiptaumhverfi Íslands er með besta móti. Hagsmunir okkar eru tryggðir í gegnum EFTA, með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, í gegnum tvíhliða viðskiptasamninga og innan fjölþjóðlegra stofnana eins og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD). Við erum þjóð sem þrífst á alþjóðaviðskiptum!
Í sögulegu ljósi hefur hagur íslensku þjóðarinnar vænkast með auknum viðskiptum enda er talið að smærri ríki njóti einkum góðs af frjálsum viðskiptum. Oft er talið að fyrra tímabil hnattvæðingar hafi átt sér stað í framhaldi af tækniframförum upp úr miðri 19. öld og staðið fram að fyrra stríði. Seinna tímabilið hófst síðan eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk. Lífskjör okkar eru góð vegna þess að aðgengi að helstu mörkuðum, hvort heldur með sjávarfang, orku, ferðaþjónustu eða hugverk, er gott. Um leið og einhverjar blikur eru á lofti um slíkt aðgengi, þá rýrna lífskjör hratt á Íslandi og því þurfa stjórnvöld stöðugt að vera á tánum og endurmeta stöðuna.
Góður árangur Íslands utan ESB
Á hverjum degi á Ísland í frábæru alþjóðlegu samstarfi á fjölmörgum sviðum sem við getum verið stolt af. Þar er mjög gott samstarf við Evrópu engin undantekning. Ísland er í raun í öfundsverðri stöðu að vera þátttakandi í góðu samstarfi við Evrópusambandið og önnur ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins á grundvelli EES-samningsins – og á sama tíma geta gert tvíhliða fríverslunarsamninga við önnur ríki í heiminum. Verslunarfrelsi Íslands er gott og á undanförnum árum hefur viðskiptastefna Íslands, til dæmis hvað varðar álagningu tolla og vörugjalda, þróast mjög í frjálsræðisátt. Þannig voru almennir tollar felldir niður af fatnaði og skóm í ársbyrjun 2016 og af hvers kyns annarri iðnaðarvöru í ársbyrjun 2017 svo dæmi séu tekin. Í samanburði á tollaumhverfi Íslands, ESB og hinna EFTA-ríkjanna kom fram að hlutfall tollskrárnúmera sem bera ekki toll nam tæpum 90% hér á landi en var um 27% í ESB. Þá var meðaltollur einnig lægri hér, 4,6% miðað við 6,3% innan ESB.
Snýst á endanum um lífskjör
Það er ljóst að velmegun á Íslandi er með því mesta sem gengur og gerist í veröldinni allri – og þar skipum við okkur í deild með löndum eins og Noregi og Sviss sem einnig standa utan ESB. Það er stefna okkar í Framsókn sem og stefna ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB. Nýverið var þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður að Evrópusambandinu lögð fram af þingflokki Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar. Röksemdin fyrir tímasetningu þjóðaratkvæðagreiðslu um svona veigamikið atriði er víkur að skerðingu fullveldisins liggur ekki fyrir. En leiða má að því líkur að tímabundinn aukinn stuðningur við aðild að ESB í skoðanakönnunum spili þar inn í. Stuðningur sem sumir telja tilkominn vegna óvissunnar sem innrás Rússa í Úkraínu hefur valdið. Síðast þegar stuðningur við aðild að ESB jókst talsvert var í kjölfar fjármálaáfallsins 2008. Framlagning fyrrnefndrar þingsályktunartillögu er ekki síður athyglisverð í ljósi þess að aðeins 6 mánuðir eru liðnir frá þingkosningum í landinu þar sem kjósendur sögðu skoðun sína á lýðræðislegan hátt. Óhætt er að segja að þeir flokkar sem vilja ganga í Evrópusambandið, Samfylkingin og Viðreisn, hafi ekki riðið feitum hesti frá þeim kosningum með aðildarmálin að vopni. Þannig var Viðreisn gerð afturreka í kosningabaráttunni með efnahagshugmyndir sínar um að varða leiðina í átt að upptöku evru. Mig rekur einnig ekki minni til þess að Viðreisn hafi gert aðildarviðræður að Evrópusambandinu að skilyrði þegar hún hafði tækifæri til þess í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Bjartri framtíð. Það segir vissulega ákveðna sögu. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta um góð lífskjör. Líkt og hefur verið rakið hér að ofan hefur Ísland komið sér í sterka stöðu á sviði alþjóðaviðskipta og lífskjara í fremstu röð. Stefna okkar hingað til hefur virkað vel í þeim efnum, og á þeirri braut eigum við að halda ótrauð áfram.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. apríl 2022.