Categories
Greinar

Alþjóðlegir fjármálamarkaðir vestanhafs titra

Deila grein

18/03/2023

Alþjóðlegir fjármálamarkaðir vestanhafs titra

Því hef­ur stund­um verið fleygt að vika sé lang­ur tími í póli­tík, en það á ekki síður við á fjár­mála­markaði. Í byrj­un síðustu viku grunaði fáa að mikl­ar uppá­kom­ur væru í vænd­um í banda­ríska banka­kerf­inu vegna falls Silicon Valley Bank (SV-bank­inn), sem reynd­ust af þeirri stærðargráðu að ljós voru log­andi alla síðustu helgi í banda­ríska seðlabank­an­um og fjár­málaráðuneyt­inu. Banda­ríkja­for­seti birt­ist síðan nokkuð óvænt á mánu­dag­inn á sjón­varps­skján­um til að til­kynna neyðaraðgerðir sem voru af þeirri gerð að þeim svipaði til þeirra aðgerða sem hér var gripið til á ár­inu 2008. Banka­kerfið hér var svipað að stærð og SV-bank­inn, en hér varð kerf­is­áfall. Í Banda­ríkj­un­um var hins veg­ar ein­ung­is um að ræða sextánda stærsta banka Banda­ríkj­anna, en þó var hér á ferðinni þriðja stærsta banka­gjaldþrot banda­rískr­ar sögu og stærsta banka­áfallið frá 2008. Það að for­set­inn var dreg­inn fram til að róa markaði benti til þess að sér­fræðing­ar höfðu veru­leg­ar áhyggj­ur af ástand­inu og lík­legt að hér væri á ferðinni viðleitni til að koma í veg fyr­ir að krísa næði að breiða úr sér.

Hvað gerðist hjá bank­an­um?

Verðbólg­an í Banda­ríkj­un­um hef­ur verið þrálát­ari en pen­inga­yf­ir­völd gerðu ráð fyr­ir og mæld­ist ný­lega 6%. Spenn­an á vinnu­markaði hef­ur verið mik­il og víða skort­ur á vinnu­afli eft­ir Covid-19. Or­sök falls SV-bank­ans má að ein­hverju leyti rekja til mik­illa hækk­ana á stýri­vöxt­um banda­ríska seðlabank­ans. Í byrj­un árs benti margt til þess að tök­um hefði verið náð í glím­unni við verðbólg­una. Töl­ur um verðbólgu í Banda­ríkj­un­um sem birt­ust fyr­ir um mánuði gáfu hins veg­ar til kynna að enn væri verk að vinna og við það breytt­ust vænt­ing­ar sem leiddi til verðfalls á markaði. Eins og venj­an er þegar slíkt ger­ist fóru markaðsaðilar að líta í kring­um sig að leita uppi veik­leika í kerf­inu. Þegar farið var að rýna í hvað lægi að baki því að SV-bank­inn birt­ist með óvænta fjár­mögn­un­arþörf kom í ljós að bank­inn reynd­ist afar ber­skjaldaður fyr­ir vaxta­áhættu. SV-bank­inn var þar með kom­inn í gin ljóns­ins og um miðja síðustu viku fór að breiðast út orðróm­ur á sam­fé­lags­miðlum um lausa­fjár­vand­ræði bank­ans eft­ir bruna­sölu á rík­is­bréf­um. SV-bank­inn hafði vaxið afar hratt á síðustu árum en hann er með höfuðstöðvar í Kís­ildaln­um og voru helstu viðskipta­menn hans sterk­efnaðir ein­stak­ling­ar úr tækni­geir­an­um og marg­ir þeirra með veru­leg­ar inn­stæður. Þegar orðróm­ur fór að breiðast úr á sam­skiptamiðlum um vand­ræði bank­ans varð hann fyr­ir gam­aldags banka­áhlaupi þar sem viðskipta­vin­ir hans tóku út inn­stæður fyr­ir á fimmta tug millj­arða. Áhlaupið var það öfl­ugt að stjórn­völd þurftu að bregðast skjótt við og taka yfir bank­ann.

Viðbrögð stjórn­valda í Banda­ríkj­un­um

Um síðustu helgi var mik­ill handa­gang­ur í öskj­unni inn­an stjórn­ar­ráðs Banda­ríkj­anna. Það var greini­legt að yf­ir­völd voru ekki ró­leg yfir ástand­inu enda þurfti að taka til­lit til margra þátta. Á sama tíma mátu menn það svo að ekki kæmi til greina að bjarga bank­an­um. Það var þó einnig of­ar­lega í huga manna að vand­ræði vegna vaxta­áhættu væri lík­lega víða að finna í banka­kerf­inu og þörf væri á stuðningsaðgerðum til að koma í veg fyr­ir frek­ari áhlaup. Um helg­ina var því ákveðið að Banda­ríkja­for­seti kæmi strax á mánu­dag­inn fram með fjög­urra liða áætl­un. Áætl­un­in fólst í því að ekk­ert þak yrði á tryggðum inn­stæðum. Bönk­un­um tveim­ur yrði ekki bjargað með skatt­fé, en trygg­ing­ar­sjóður inn­stæðna tæki að sér að tryggja all­ar inn­stæður. Stjórn­völd myndu kom­ast til botns í því sem gerðist og menn yrðu látn­ir sæta ábyrgð. Reglu­verki yrði breytt og banda­ríski seðlabank­inn myndi opna fyr­ir greiðari lausa­fjár­fyr­ir­greiðslu til að koma í veg fyr­ir bruna­út­söl­ur. Þessi ráð virðast hafa dugað til að róa markaðinn í bili þótt enn verði vart við titr­ing á mörkuðum og nú er horft til staðbund­inna banka. Með þess­ari aðgerð var lögð þung byrði á inn­stæðutrygg­ing­ar í Banda­ríkj­un­um. Leik­ur­inn að finna veik­asta hlekk­inn hófst hinum meg­in Atlantsála og fannst hann í formi Cred­it Suis­se, sem lengi hafði legið und­ir ámæli. Í Sviss voru sjón­ar­mið um freistni­vanda ekki að trufla menn í björg­un­araðgerðum í vik­unni og horfðu lík­lega til kerf­isáhættu.

Áhrif­in á pen­inga­stefn­una og á heimsvísu

Í seðlabönk­um er stund­um sagt að verðstöðug­leiki og fjár­mála­stöðug­leiki vegi salt. Þessi at­b­urðarás SV-bank­ans kann að þýða að það muni hægj­ast á vaxta­hækk­un­ar­ferl­inu, þar sem stjórn­völd vilja full­vissa sig um að það ógni ekki fjár­mála­stöðug­leika í land­inu. Þetta get­ur þýtt að ef ekki losn­ar um spennu á vinnu­markaði, þá verður verðbólga í Banda­ríkj­un­um lang­vinn­ari en ella og óvissa meiri. Áhrif­in á heims­hag­kerfið eru þau sömu enda hef­ur ávöxt­un­ar­krafa rík­is­skulda­bréfa lækkað hratt í kjöl­farið. Það er jafn­framt gjarn­an sagt að seðlabank­ar hækki vexti þar til eitt­hvað gef­ur eft­ir. Það má þegar sjá merki þess bæði á fjár­mála­mörkuðum og í raun­hag­kerf­inu, t.d. tækni­geir­an­um, að vænt­an­lega leyn­ast ein­hver vanda­mál und­ir yf­ir­borðinu.

Á síðasta ald­ar­fjórðungi hafa hag­kerfi heims­ins að mestu búið við lág­vaxtaum­hverfi og greitt aðgengi að láns­fé og því afar illa búin und­ir það aðhald sem seðlabank­ar hafa þurft að beita und­an­farið til að ná tök­um á verðbólg­unni. Auk vaxta­lækk­ana hafa björg­unar­úr­ræðin frá alda­mót­um jafn­framt fal­ist í því að kasta pen­ing­um að vand­an­um með svo­kallaðri magn­bund­inni íhlut­un. Nú eru góð ráð dýr þar sem þessi úrræði eru ekki í boði á verðbólgu­tím­um. Banda­rík­in voru fyrr á ferðinni með vaxta­hækk­an­ir og því lík­legt að eitt­hvað muni jafn­framt gefa eft­ir í öðrum lönd­um, t.d. á evru­svæðinu þar sem vext­ir voru hækkaðir í vik­unni og þar sem er lík­lega að finna staðbundna veik­leika.

Staða mála á Íslandi

Þær aðgerðir sem Banda­ríkja­for­seti kynnti á mánu­dag­inn eru Íslend­ing­um því miður vel kunn­ar. Á ár­inu 2008 leituðu markaðir uppi veik­ustu hlekk­ina og fundu þá í ís­lensku bönk­un­um. Þá voru svipuð sjón­ar­mið uppi varðandi lausn­ir hér á ár­inu 2008. Hér var þak numið af inn­lend­um inn­stæðutrygg­ing­um, skatt­fé var ekki notað til að bjarga bönk­un­um, farið var í rann­sókn á því sem hér gerðist og lög­gjöf um fjár­mála­markaði var breytt til að koma í veg fyr­ir að áfall sem þetta end­ur­tæki sig.

Mun­ur­inn hér var hins veg­ar sá að ís­lensk stjórn­völd horfðu fram á kerf­is­áfall. Vegna þess að byggja þurfti kerfið upp úr öskustónni var mögu­legt að ganga í veru­leg­ar kerf­is­breyt­ing­ar og búum við því við ban­kaum­hverfi sem bygg­ist m.a.á öfl­ugu þjóðhags­varúðar­um­hverfi. Fram­kvæmd pen­inga­stefn­unn­ar hef­ur verið með öðrum hætti hér enda magn­bund­in íhlut­un afar tak­mörkuð.

Í kjöl­far banka­áfalls­ins hér hef­ur verið byggt upp afar öfl­ugt fjár­mála­kerfi, en þó er mik­il­vægt er að bank­arn­ir stígi var­lega til jarðar þar sem bú­ast má við að láns­fé verði af skorn­um skammti á helstu mörkuðum á næstu miss­er­um. Áhrif­in hér heima fyr­ir af þess­ari uppá­komu á banda­ríska markaðnum eru þau að ef það rík­ir áfram mik­il óvissa, þá hækk­ar kostnaður við alla fjár­mögn­un. Að sama skapi þarf að hafa í huga að það ríki sem skil­ar mestu til ís­lenska þjón­ustu­jafnaðar­ins eru Banda­rík­in, þannig að viðskipta­kjör gætu versnað í kjöl­farið. Þá er enn verið að hækka vexti í Evr­ópu og má bú­ast við að ein­hver frek­ari vanda­mál skjóti þar upp koll­in­um. Hins veg­ar er staða ís­lenska hag­kerf­is­ins sterk enda kröft­ug­ur hag­vöxt­ur, lítið at­vinnu­leysi, mikl­ar út­flutn­ings­tekj­ur, lækk­andi skuld­ir rík­is­sjóðs og frum­jöfnuður rík­is­fjár­mála næst von bráðar. Verðbólg­an á Íslandi er þó enn líf­seig­ari og kröft­ugri en æski­legt væri. Þess þá held­ur eru verðbólgu­vænt­ing­ar of háar. Verðbólg­an verður stærsta viðfangs­efni hag­stjórn­ar­inn­ar næstu miss­eri.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. mars 2023.