Categories
Greinar

Áskoranir í utanríkismálum Íslands

Deila grein

15/05/2017

Áskoranir í utanríkismálum Íslands

Utanríkisráðherra kynnti greinargóða skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál á Alþingi nú á dögunum. Mesta athygli vakti í umræðunum voru orðaskipti sem áttu sér stað á milli utanríkisráðherra og formanns utanríkismálanefndar um ólíka nálgun og sýn þeirra á stöðu mála í Evrópu og framtíð Íslands þar. Utanríkisráðherrann og flokkur hans virðast vera ráðandi í þeirri för. Hins vegar er afar mikilvægt að ríkisstjórn hverrar þjóðar sé samstillt í verkum sínum og komi sameiginlegri stefnu þjóðarinnar á framfæri. Á þessu hefur verið misbrestur hjá núverandi ríkisstjórn.

Tryggja þarf áframhaldandi festu og stöðugleika í samskiptum við Bretland
Hinn 29. mars sl. var 50. grein Lissabonsáttmálans virkjuð og því er útganga Bretlands úr Evrópusambandinu formlega hafin. Bretar hafa tvö ár til að ljúka við útgöngusamninginn og ferlinu mun ljúka með formlegri úrsögn Bretlands úr Evrópusambandsins. Þegar útgöngusamningurinn tekur gildi verður Bretland ekki lengur aðili að samningum Evrópusambandsins við önnur ríki, eins og t.d. EES-samningnum. Samskipti við Bretland grundvallast að miklu leyti á EES-samningnum. Löndin vinna náið saman á mörgum mikilvægum sviðum, t.d. á sviði löggæslu-, samgöngu-, öryggis- og varnarmála. Stjórnvöld þurfa að vinna markvisst að því að tryggja að góðir samningar náist fyrir Íslands hönd á öllum sviðum. Náið samstarf við EFTA-ríkin skiptir sköpum um framhaldið. Framtíðarsamskipti Íslands og Bretlands eru stærsta hagsmunamálið sem íslensk utanríkismálastefna stendur frammi fyrir. Ekki er ljóst á þessum tímapunkti hver niðurstaðan verður en í því felast tækifæri og áskoranir.

Hagsmunir Íslands á norðurslóðum
Málefni norðurslóða fá sífellt meira vægi í utanríkismálum. Stefna Íslands í málefnum norðurslóða á sér stoð í ályktun Alþingis sem samþykkt var samhljóða 28. mars 2011. Síðastliðið haust var gert hagsmunamat fyrir ráðherranefnd um norðurslóðir til að kortleggja helstu hagsmuni Íslands í margslungnu umhverfi norðurslóða. Ísland hefur mikilvæga sérstöðu sem norðurskautsríki, þar sem stór hluti landhelgi okkar er innan norðurslóða. Hagmunir Íslands felast í að nýta tækifærin með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Auknum siglingum og annarri starfsemi fylgja tækifæri en líka áskoranir gagnvart umhverfi, lífríki og lífsháttum. Viðkvæmt vistkerfi norðurslóða á að fá að njóta vafans. Mikilvægt skref í þá veru var stigið í aðdraganda Parísarsamningsins um loftslagsmál. Ísland mun gegna formennsku í Norðurskautsráðinu 2019-2021 og gefst okkur þá tækifæri til að móta áherslur í starfi ráðsins.

Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland
Ályktun Alþingis frá 13. apríl 2016 um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland var samþykkt mótatkvæðalaust og markar hún heildstæða stefnu í þessum málaflokki. Eitt af lykilmarkmiðum þjóðaröryggistefnunnar er að tryggja að á Íslandi séu trúverðugar og sýnilegar varnir sem byggja á alþjóðasamstarfi. Þátttaka Íslands í starfi Atlantshafsbandalagsins og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru meginstoðir í stefnu Íslands um öryggi og varnarmál landsins, ásamt virku samstarfi við grannríki á sviði öryggismála. Tryggja þarf að til staðar sé fullnægjandi viðbúnaðargeta og öryggi til þess að taka á móti liðsauka á hættu- eða ófriðartímum. Í samstarfinu felst m.a. loftrýmisgæsla og varnaræfingar. Ennfremur ábyrgjast íslensk stjórnvöld rekstur íslenska loftvarnarkerfisins og annarra mannvirkja Atlantshafsbandalagsins á Íslandi. Ljósleiðarakerfi Atlantshafsbandalagsins, sem er hringtengt umhverfis landið, er einnig grunnstoð í öryggisfjarskiptum landsins. Allir þessir þættir skipta okkur máli er varðar öryggi landsins og brýnt að stefnumótun taki áfram mið af þingsályktunartillögunni sem samþykkt var mótatkvæðalaust á vordögum síðasta þings eftir mikla vinnu þingsins í gegnum árin.

Mannréttindi og þróunarsamvinna
Skýr og réttlát alþjóðleg viðmið um mannréttindi er lykillinn að öryggi og hagsæld. Á Íslandi eru mannréttindi á borð við trú-, kyn- og tjáningarfrelsi bundin í stjórnarskrá en það er langt frá því að vera sá veruleiki sem margar þjóðir búa við. Við getum ekki lokað augunum fyrir því að víðsvegar um heim eru daglega framin gróf mannréttindabrot. Aldrei er hægt að réttlæta að almennir borgarar séu gerðir að skotmarki. Ábyrgð stjórnvalda og alþjóðasamfélagsins í því sambandi er mikil. Vernd, mannréttindi og efling þeirra er nauðsynlegt að flétta inn í utanríkisstefnu Íslands. Íslensk stjórnvöld styðja markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT) til þróunarsamvinnu. Framlag til þróunarsamvinnu nam hæst 0,36% af VÞT árið 2008 en var skorið niður í 0,20% árið 2011. Fram kemur í skýrslu utanríkisráðherra að framlög til þróunarsamvinnu sem hlutfall af VÞT árið 2016 var 0,29%. Sökum þess að hagsæld hefur verið að aukast á síðustu árum eru það vonbrigði að framlög til þróunarmála standa í stað í fimm ára ríkisfjármálaáætlun. Við getum gert betur og okkur ber að gera betur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. maí 2017.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir