Categories
Greinar

Er fjársvelti háskólanna að þurrka upp viskubrunn landsins?

Deila grein

12/05/2017

Er fjársvelti háskólanna að þurrka upp viskubrunn landsins?

Sandra Rán Ásgrímsdóttir, formaður SUF

Það er óumdeilt að fjárfesting í menntun og rannsóknum skilar sér til baka með beinum áhrifum á framleiðni og hagvöxt þjóða. Umræður hafa verið um að þau störf sem nýfædd börn í dag muni starfa við í framtíðinni sé ekki enn búið að finna upp. Nýsköpun og þekkingarþróun munu verða grunnurinn að farsæld og samkeppnishæfni þjóða á komandi árum. Sterkir háskólar sem stunda öflugar rannsóknir munu því verða kjarninn í því að tryggja samkeppnishæfni Íslands á alþjóðlegum vettvangi.

Staða háskóla og vísindasamfélagsins á Íslandi er hins vegar grafalvarleg þar sem háskólar landsins hafa verið fjársveltir í lengri tíma. Fyrir kosningar ríkti pólitísk samstaða meðal allra stjórnmálaflokka og ungliðahreyfinga þeirra, að opinber fjárframlög á hvern háskólanema skyldu ná meðaltali OECD-ríkjanna á komandi kjörtímabili. Þó gert sé ráð fyrir einhverri hækkun í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þá er hún engan veginn í takt við þá þörf sem hefur skapast meðal háskólanna. Það er velmegun í landinu og bjart fram undan en til að tryggja velferð landsins til framtíðar þarf að fjárfesta í framtíðinni.

Við búum við þá hættu að Ísland dragist aftur úr þegar kemur að menntun, rannsóknum og nýsköpun. Við þurfum að skapa okkur framtíðarsýn um háskólastig landsins, hvert viljum við stefna og hvernig við ætlum að komast þangað? Ungt Framsóknarfólk telur að grunnurinn að því að geta tryggt gæði háskólanáms í landinu sé að fjárframlög nái meðaltali OECD-ríkjanna en það er of seint að ná því árið 2030. Þróunin er að gerast núna og hún gerist mun hraðar en áður – við þurfum að bregðast við áður en það er of seint.

Fækkun háskólanema eða háskólamenntaðra er ekki lausnin, við viljum búa í fjölbreyttu samfélagi þar sem fólk hefur fjölbreytta menntun og fjölbreytt atvinnutækifæri. Því verður ekki neitað að háskólarnir spila stóran þátt í þessu markmiði þar sem þeir bjóða upp á fjölbreyttar námsleiðir. Við viljum ekki sníða alla í sama formið, sterkt iðnnám er gríðarlega mikilvægt en sama gildir um háskólanám og rannsóknir. Hættan er sú að ef við bætum ekki úr og tryggjum gæði háskólanna til framtíðar missum við allt okkar hæfileikaríkasta fólk til landa þar sem gæði náms og rannsókna eru tryggð. Er fjársvelti háskólanna að þurrka upp viskubrunn landsins?

Sandra Rán Ásgrímsdóttir