Categories
Greinar

Áskorun mætt

Deila grein

11/10/2021

Áskorun mætt

Á tíma­mót­um reik­ar hug­ur­inn til baka. Á síðustu fjór­um árum í mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­inu höf­um við lagt allt kapp á að styrkja mennta­kerfið. Eitt stend­ur upp úr; hvernig okk­ur tókst með öfl­ugri sam­vinnu að snúa vörn í sókn í mennta­mál­um hér á landi.

Við sáum fram á mik­inn nýliðun­ar­vanda í kenn­ara­stétt, að brott­hvarf fram­halds­skóla­nema væri hátt, að sam­keppn­is­hæfni okk­ar færi minnk­andi á alþjóðavísu og að fjölga þyrfti iðnmenntuðum. Við hóf­umst strax handa við að greina þess­ar áskor­an­ir, svo við gæt­um brugðist hratt og ör­ugg­lega við. Hér dugðu eng­in vett­linga­tök, við boðuðum stór­sókn í mennta­mál­um.

Við vit­um að starfs­ánægja kenn­ara og trú þeirra á eig­in getu hef­ur bein áhrif á frammistöðu og hvata nem­enda. Kenn­ar­ar eru hið sanna hreyfiafl fram­fara inn­an skóla­sam­fé­lags­ins. Við þurf­um að treysta kenn­ur­um og leyfa ár­ang­urs­rík­um starfs­hátt­um þeirra að festa sig í sessi.

Til að sporna gegn nýliðun­ar­vand­an­um þurfti að fjölga kenn­ara­nem­um, minnka brott­hvarf úr kenn­ara­stétt, koma á einu leyf­is­bréfi kenn­ara og auka virðingu kenn­ara í sam­fé­lag­inu. Við kynnt­um til sög­unn­ar launað starfs­nám og styrki til kenn­ara­nema. Við stuðluðum að bættri mót­töku og leiðsögn kenn­ara­nema og nýliða, styðjum mark­viss­ar við nýliða í starfi og fjölguðum kenn­ur­um með sér­hæf­ingu í starfstengdri leiðsögn.

Við hóf­um kort­lagn­ingu á brott­hvarfi nem­enda í fram­halds­skól­um til þess að greina mark­viss­ar ástæður og þróun brott­hvarfs nem­enda. Ljóst er að brott­hvarfið hefst ekki í fram­halds­skóla held­ur miklu fyrr, og því þarf mennta­kerfið að halda þétt utan um nem­end­ur frá upp­hafi til enda.

Hindr­un­um var rutt úr vegi í iðnnám­inu í sam­vinnu við Sam­tök iðnaðar­ins og fræðsluaðila. Ra­f­ræn fer­il­bók tek­in upp, vinnustaðanámið tengt skól­un­um og jöfnuðum aðgengi að há­skóla­námi. Kynnt voru áform um að reisa nýj­an Tækni­skóla sem svara þörf­um framtíðar­inn­ar.

Til þess að efla sam­keppn­is­hæfni fór­um við í fjöl­marg­ar aðgerðir. Við lit­um til Svíþjóðar til að efla starfsþróun kenn­ara og skóla­stjórn­enda, hóf­um sam­starf við Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ina og sett­um af stað mennt­a­rann­sókna­sjóð. Stærsta skrefið var þó að marka nýja mennta­stefnu til árs­ins 2030, hvers mark­mið er að tryggja framúrsk­ar­andi mennta­kerfi hér á landi.

Við erum stolt af þeim ár­angri sem náðst hef­ur á und­an­förn­um fjór­um árum, hann hef­ur styrkt grunnstoðir mennta­kerf­is­ins svo um mun­ar, brott­hvarf hef­ur minnkað og braut­skrán­ing­ar­hlut­fall fram­halds­skóla­nem­enda auk­ist um 37%. Um­sókn­um um kenn­ara­nám hef­ur fjölgað um 118% og fjöldi nem­enda í húsa­smíði og í grunn­námi bygg­inga- og mann­virkja­greina hef­ur auk­ist um 56% á síðustu tveim­ur árum.

Ég þakka þeim fjöl­mörgu sem lögðu hönd á plóg til þess að breyta stefnu skút­unn­ar. Við erum á réttri leið!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október 2021.