Á tímamótum reikar hugurinn til baka. Á síðustu fjórum árum í mennta- og menningarmálaráðuneytinu höfum við lagt allt kapp á að styrkja menntakerfið. Eitt stendur upp úr; hvernig okkur tókst með öflugri samvinnu að snúa vörn í sókn í menntamálum hér á landi.
Við sáum fram á mikinn nýliðunarvanda í kennarastétt, að brotthvarf framhaldsskólanema væri hátt, að samkeppnishæfni okkar færi minnkandi á alþjóðavísu og að fjölga þyrfti iðnmenntuðum. Við hófumst strax handa við að greina þessar áskoranir, svo við gætum brugðist hratt og örugglega við. Hér dugðu engin vettlingatök, við boðuðum stórsókn í menntamálum.
Við vitum að starfsánægja kennara og trú þeirra á eigin getu hefur bein áhrif á frammistöðu og hvata nemenda. Kennarar eru hið sanna hreyfiafl framfara innan skólasamfélagsins. Við þurfum að treysta kennurum og leyfa árangursríkum starfsháttum þeirra að festa sig í sessi.
Til að sporna gegn nýliðunarvandanum þurfti að fjölga kennaranemum, minnka brotthvarf úr kennarastétt, koma á einu leyfisbréfi kennara og auka virðingu kennara í samfélaginu. Við kynntum til sögunnar launað starfsnám og styrki til kennaranema. Við stuðluðum að bættri móttöku og leiðsögn kennaranema og nýliða, styðjum markvissar við nýliða í starfi og fjölguðum kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn.
Við hófum kortlagningu á brotthvarfi nemenda í framhaldsskólum til þess að greina markvissar ástæður og þróun brotthvarfs nemenda. Ljóst er að brotthvarfið hefst ekki í framhaldsskóla heldur miklu fyrr, og því þarf menntakerfið að halda þétt utan um nemendur frá upphafi til enda.
Hindrunum var rutt úr vegi í iðnnáminu í samvinnu við Samtök iðnaðarins og fræðsluaðila. Rafræn ferilbók tekin upp, vinnustaðanámið tengt skólunum og jöfnuðum aðgengi að háskólanámi. Kynnt voru áform um að reisa nýjan Tækniskóla sem svara þörfum framtíðarinnar.
Til þess að efla samkeppnishæfni fórum við í fjölmargar aðgerðir. Við litum til Svíþjóðar til að efla starfsþróun kennara og skólastjórnenda, hófum samstarf við Efnahags- og framfarastofnunina og settum af stað menntarannsóknasjóð. Stærsta skrefið var þó að marka nýja menntastefnu til ársins 2030, hvers markmið er að tryggja framúrskarandi menntakerfi hér á landi.
Við erum stolt af þeim árangri sem náðst hefur á undanförnum fjórum árum, hann hefur styrkt grunnstoðir menntakerfisins svo um munar, brotthvarf hefur minnkað og brautskráningarhlutfall framhaldsskólanemenda aukist um 37%. Umsóknum um kennaranám hefur fjölgað um 118% og fjöldi nemenda í húsasmíði og í grunnnámi bygginga- og mannvirkjagreina hefur aukist um 56% á síðustu tveimur árum.
Ég þakka þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg til þess að breyta stefnu skútunnar. Við erum á réttri leið!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október 2021.