Eins og komið hefur fram síðustu daga var skipaður átakshópur um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði, en tillögur hópsins voru kynntar í vikunni. Vinna hópsins gekk vel og ég hef sagt að hún sé mikilvægur liður í samtali ríkisstjórnarinnar, sveitarfélaga og heildasamtaka á vinnumarkað fyrir yfirstandandi kjaraviðræður. Átakshópurinn skilaði af sér 40 tillögum sem allar eru til þess fallnar að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Allir hagsmunaaðilar eru sammála um að tryggja þurfi aukið framboð íbúða á hagkvæman og skjótvirkan hátt og bæta stöðu þeirra sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði, ekki síst stöðu leigjenda. Tillögurnar varða allt frá almennu íbúðakerfi, húsnæðisfélögum og leiguvernd, til skipulags- og byggingarmála, samgönguinnviða og ríkislóða, auk upplýsingamála og eftirlitsmála ýmiss konar.
Niðurstaða hópsins er að töluverður skortur er á húsnæði hér landi, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli, en sem stendur vantar á bilinu 5.000-8.000 íbúðir á landinu öllu. Um 10.000 nýjar íbúðir eru á leið á markaðinn á næstu þremur árum en vegna fyrirsjáanlegrar fólksfjölgunar mun okkur vanta í kringum 2.000 íbúðir í upphafi árs 2022. Jafnvel mun vanta enn fleiri íbúðir ef aðflutt vinnuafl sem hingað hefur komið ákveður að festa rætur hér. Stjórnvöld þurfa því að bregðast við með sérstökum aðgerðum sem auka framboð húsnæðis og lækka húsnæðiskostnað almennings.
Húsnæðismálin eru dreifð innan stjórnkerfisins og lutu nokkrar tillögur hópsins að því að einfalda stjórnsýsluna. Þessi staða hefur leitt til minni samhæfingar, óþarfa flöskuhálsa og ógagnsæis á húsnæðismarkaði. Meðal annars til að bregðast við þessu lagði ég fram frumvarp sem varð að lögum á síðasta ári þar sem ég fól Íbúðalánasjóði aukið hlutverk að safna upplýsingum um húsnæðismál og vera stjórnvöldum innan handar þegar kemur að stefnumótandi ákvörðunum varðandi húsnæðismarkaðinn. Um síðust áramót færðist Mannvirkjastofnun undir félagsmálaráðuneytið. Aukið samstarf Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar mun gera stjórnvöld betur í stakk búin að samhæfa greiningar á framboði og eftirspurn á húsnæðismarkaði og eftirliti með byggingarmarkaðinum. Þessar breytingar munu nýtast mjög vel við að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem átakshópurinn lagði til á húsnæðis- og vinnumarkaði.
Verkefnið fram undan er stórt en í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðar og aðra hagsmunaaðila er ég sannfærður um að við getum náð tilætluðum árangri. Húsnæðistillögurnar sem kynntar voru eftir samráð stjórnvalda og aðila vinnumarkaður eru góðar. Þær sýna okkur að samtal og samvinna getur skilað árangri. Stjórnvöld eru tilbúinn til samtals um frekari útfærslur þessara tillagna og um önnur mikilvæg mál sem tengjast kjaramálum. En forsenda slíks er auðvitað alltaf sú að aðilar vinnumarkaðar nái saman um skynsamlegar lausnir sín á milli. Ég er sannfærður um að ef allir leggjast á eitt er mögulegt að ná hagstæðri niðurstöðu þessara mála.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. janúar 2019.