Categories
Greinar

Framfaramál fyrir íslenskt vísindasamfélag

Deila grein

28/01/2019

Framfaramál fyrir íslenskt vísindasamfélag

Við vilj­um stuðla að því að ís­lensk­ir vís­inda- og fræðimenn hafi greiðan aðgang að nú­tíma­leg­um rann­sókn­ar­innviðum sem stand­ast alþjóðleg­an sam­an­b­urð. Í vik­unni mælti ég fyr­ir frum­varpi um breyt­ing­ar á lög­um um op­in­ber­an stuðning við vís­inda­rann­sókn­ir. Inn­tak þess snýr að tveim­ur mik­il­væg­um sjóðum á sviði rann­sókna og ný­sköp­un­ar. Ann­ars veg­ar er um að ræða Innviðasjóð sem veit­ir styrki til kaupa á rann­sókn­ar­innviðum eins og tækj­um, gagna­grunn­um og hug­búnaði. Hins veg­ar teng­ist frum­varpið Rann­sókna­sjóði sem styrk­ir vís­inda­rann­sókn­ir og rann­sókna­tengt fram­halds­nám.

Mark­viss­ari upp­bygg­ing rann­sókn­ar­innviða

Með samþykkt frum­varps­ins verður sú breyt­ing gerð að sér­stök stjórn verður sett yfir Innviðasjóð sem mun skerpa á stefnu­mót­andi hlut­verki hans og mál­efn­um rann­sókn­ar­innviða. Góðir rann­sókn­ar­innviðir stuðla að aukn­um gæðum í rann­sókn­a­starfi, sam­starfi um rann­sókn­ir og hag­nýt­ingu þekk­ing­ar í þágu lands og þjóðar. Á ár­inu 2018 bár­ust 67 um­sókn­ir að upp­hæð 679 millj­ón­ir kr. til Innviðasjóðs og voru 27 þeirr­ar styrkt­ar, að upp­hæð alls 296 millj­ón­ir kr. eða 43,6% umbeðinn­ar upp­hæðar. Ný­lega voru skil­greind­ar í opnu sam­ráði þær sam­fé­lags­legu áskor­an­ir sem brýn­ast er talið að ís­lenskt vís­inda­sam­fé­lag tak­ist á við. Innviðasjóður mun meðal ann­ars gegna mik­il­vægu hlut­verki í því að mæta þeim áskor­un­um.

Aukn­ir mögu­leik­ar í alþjóðlegu sam­starfi

Önnur breyt­ing sem gerð yrði með samþykkt frum­varps­ins er að veita stjórn Rann­sókna­sjóðs heim­ild til þess að taka þátt í sam­fjár­mögn­un alþjóðlegra rann­sókna­áætl­ana í sam­starfi við er­lenda rann­sókna­sjóði. Slík sam­fjár­mögn­un fel­ur í sér að rann­sókna­sjóðir frá mis­mun­andi lönd­um koma sér sam­an um áætlan­ir með áherslu á sér­stök svið ásamt því að skipa sam­eig­in­lega fagráð til að meta um­sókn­ir. Þetta er já­kvæð breyt­ing enda er Rann­sókna­sjóður afar þýðinga­mik­ill fyr­ir rann­sókna- og vís­indastarf í land­inu. Fyrr í mánuðinum út­hlutaði sjóður­inn 850 millj­ón­um kr. til 61 rann­sókn­ar­verk­efn­is.

Árang­ur­inn tal­ar sínu máli

Boðaðar breyt­ing­ar í frum­varp­inu eru til þess falln­ar að bæta enn frek­ar stoðkerfi rann­sókna og vís­inda á Íslandi og auka mögu­leika ís­lenskra vís­inda­manna á að taka þátt í alþjóðlegu rann­sókna­sam­starfi. Það er ánægju­legt að geta þess að ís­lensk­ir vís­inda­menn eru eft­ir­sótt­ir í alþjóðlegu sam­starfi og hafa staðið sig ein­stak­lega vel. Skýrt dæmi um það er ár­ang­ur ís­lenskra aðila í Sjón­deild­ar­hring 2020 (e. Horizon 2020), átt­undu ramm­a­áætl­un Evr­ópu­sam­bands­ins um rann­sókn­ir og ný­sköp­un. Í gegn­um þá áætl­un hafa um 8 millj­arðar kr. runnið til ís­lenskra aðila frá ár­inu 2014 og er ár­ang­urs­hlut­fallið rúm­lega 18% sem telst mjög gott. Annað dæmi er út­hlut­an­ir Evr­ópska rann­sókn­ar­ráðsins sem styður við brautryðjandi rann­sókn­ir fær­ustu vís­inda­manna heims, en fjór­ir ís­lensk­ir vís­inda­menn hafa fengið styrk frá ráðinu á síðustu árum.

Ísland, norður­slóðir og vís­indi

Ann­ar vett­vang­ur þar sem Ísland hef­ur látið að sér kveða í alþjóðlegu vís­inda­sam­starfi er á norður­slóðum þar sem rann­sókn­ir á líf­ríki, um­hverfi og sam­fé­lög­um norður­slóða eru í brenni­depli. Vís­inda­rann­sókn­ir og vökt­un breyt­inga á svæðinu veita veiga­mikla und­ir­stöðu fyr­ir stefnu­mót­un stjórn­valda en alþjóðlegt vís­inda­sam­starf er for­senda þess að unnt verði að skilja og bregðast við af­leiðing­um hlýn­un­ar á um­hverfi og sam­fé­lög norður­slóða. Íslensk­ir vís­inda­menn og stofn­an­ir búa yfir dýr­mætri reynslu og þekk­ingu á fjöl­mörg­um sviðum slíkra rann­sókna, má þar sem dæmi nefna rann­sókn­ir á sam­fé­lags­leg­um áhrif­um lofts­lags­breyt­inga, jökl­um, breyt­ing­um á vist­kerfi sjáv­ar og kort­lagn­ingu hafs­botns­ins. Ljóst er að mikl­ir hags­mun­ir eru fólgn­ir í því fyr­ir Ísland að taka þátt í alþjóðlegu vís­inda­samtarfi tengdu norður­slóðum. Hring­borð norður­slóða (e. Arctic Circle) gegn­ir þar lyk­il­hlut­verki sem þunga­miðja sam­vinnu og þekk­ing­armiðlun­ar fyr­ir þjóðir heims sem láta sig mál­efni svæðis­ins varða. Þá mun Ísland í sam­starfi við Jap­an standa að ráðherra­fundi um vís­indi norður­slóða árið 2020 (e. Arctic Science Mini­ster­ial 3). Fund­ur­inn verður hald­inn í Jap­an. Ákvörðun þessi var tek­in á hliðstæðum ráðherra­fundi um vís­indi norður­slóða í Berlín 2018. Sá fund­ur var skipu­lagður í sam­starfi Þýska­lands, Finn­lands og fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins og sóttu hann leiðtog­ar 25 ríkja auk full­trúa Evr­ópu­sam­bands­ins og sex sam­taka frum­byggja.

Áfram veg­inn

Rann­sókn­ir, vís­indi og hag­nýt­ing hug­vits er for­senda fjöl­breytts at­vinnu­lífs, vel­ferðar og styrkr­ar sam­keppn­is­stöðu þjóða. Ég lít björt­um aug­um til framtíðar vit­andi af þeim öfl­uga mannauði í vís­inda- og rann­sókn­a­starfi sem við eig­um. Ég er sann­færð um að ís­lenskt vís­inda­sam­fé­lag muni halda áfram að efl­ast og hafa já­kvæð áhrif á sam­fé­lagið hér inn­an­lands sem og sam­fé­lög er­lend­is. Við ætl­um að halda áfram að byggja upp öfl­ugt þekk­ing­ar­sam­fé­lag hér á landi því afrakst­ur þess mun skila okk­ur betri lífs­gæðum, mennt­un, heilsu og efna­hag. Fyrr­nefnt frum­varp er mik­il­vægt skref í að efla um­gjörð vís­inda­starfs og mun færa okk­ur fram á veg­inn á því sviði.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. janúar 2019.