Categories
Greinar

Athugasemdir við erindi stjórnarandstöðunnar til forystu Evrópusambandsins

Deila grein

16/03/2015

Athugasemdir við erindi stjórnarandstöðunnar til forystu Evrópusambandsins

GBSStjórnarandstaðan, fulltrúar minnihlutans á Alþingi, hafa fundið hjá sér hvöt til að senda forystu Evrópusambandsins bréf þar sem staða aðildarumsóknar á Alþingi er skrumskæld á ýmsa vegu. Nauðsynlegt er að gera athugasemd við verstu rangfærslurnar.

Í bréfinu er látið í veðri vaka að ályktun Alþingis frá 16. júlí 2009 lýsi ríkjandi afstöðu á Alþingi og hafi einhvers konar lagagildi sem ríkisstjórninni sé óheimilt að víkja frá. Ekkert er fjær sanni. Þessi ályktun var samþykkt að frumkvæði þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat og fól í sér pólitíska stuðningsyfirlýsingu við þau áform hennar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Áhrif ályktunarinnar voru því fyrst og fremst pólitísks eðlis en ekki lagalegs. Í ljósi þess hvaðan frumkvæðið kom er ekki örgrannt um að tilgangurinn hafi öðru fremur verið að þétta eigin raðir, en dugði þó ekki til.

Þýðing og áhrif þingsályktana
Stjórnlagafræðingar hafna því almennt – bæði í ræðu og riti – að þingsályktanir hafi lagalega bindandi áhrif. Af lögmætisreglunni leiðir að eingöngu með lagasetningu verður pólitískum stefnumiðum umbreytt í gildandi rétt. Jafnvel þótt þingsályktanir hafi ekki lagalega þýðingu leiðir af þingræðisreglunni að þær geta haft mikla pólitíska þýðingu og að því leyti virkað sem fyrirmæli til ríkisstjórnarinnar. Af þingræðisreglunni leiðir hins vegar að pólitísk áhrif þingsályktana haldast í hendur við þann þingstyrk sem að baki þingsályktun býr. Ef þingstyrkur dvínar eða hverfur, hlýtur þýðing fyrirmæla sem í ályktuninni kunna að vera fólgin að breytast í samræmi við það og eftir atvikum fjara út. Framkvæmd þingsályktunar sem varðar umdeilt pólitískt mál getur þannig verið undir því komin að viðkomandi stefnumál njóti tilskilins stuðnings í þinginu. Pólitísk þýðing þingsályktunar helst í hendur við þann meirihluta sem er í þinginu hverju sinni og tryggir að völd og ábyrgð fari saman. Í kerfið sjálft er þannig innbygð ákveðin tæknileg útfærsla lýðræðislegra stjórnarhátta. Án hennar er hætt við að stefna ríkisstjórnar hverju sinni ætti erfitt uppdráttar og þingræðið yrði í raun lítils virði.

Staða ESB-þingsályktunar
Að þessu athuguðu hefur ESB-þingsályktunin frá 2009 eingöngu pólitíska þýðingu en ekki lagalega. Sá meirihluti sem að henni stóð og þau stefnumál sem hann stóð fyrir féll í kosningunum 2013. Sú ríkisstjórn sem þá tók við verður ekki knúin til að fylgja eftir þeim ályktunum sem fyrri ríkisstjórn fékk samþykktar í tíð meirihluta sem er ekki lengur fyrir hendi. Það samræmist ekki lýðræðislegum stjórnarháttum ef hún væri bundin af að fylgja eftir stefnumálum fyrri ríkisstjórnar. Áhrif ESB-ályktunarinnar eru því þau sömu og áhrif ríkisstjórnarinnar sem að henni stóð, þau fjöruðu út um leið og þeim var hafnað af kjósendum. Það er tímabært að fulltrúar minnihlutans átti sig á þessum leikreglum lýðræðisins og virði þær í stað þess að slá ryki í augu almennings og alþjóðastofnunar á þann hátt sem bréf þeirra er til marks um.

Samráð við utanríkismálanefnd
Bréfritarar halda því einnig fram að ríkisstjórnin hafi vanrækt að hafa lögbundið samráð við utanríkismálanefnd um meiriháttar utanríkismál áður en erindi ríkisstjórnarinnar til stækkunarstjóra og formennskuríkis Evrópusambandsins var sent.

Að því gefnu að meðferð umsóknar um aðild að Evrópusambandinu teljist meiriháttar utanríkismál þrátt fyrir að hafa legið í láginni síðan fyrri ríkisstjórn stöðvaði aðildarferlið fyrir rúmum tveimur árum, hefur afstaða ríkisstjórnarinnar til umsóknarinnar verið öllum ljós. Hún hefur margoft verið rædd í utanríkismálanefnd, þ. á m. þegar hléi fyrri ríkisstjórnar var fram haldið, þegar samninganefndin og -hóparnir voru leystir frá störfum, þegar framkvæmdastjórnin féll frá samningsbundum fégreiðslum til ýmissa aðlögunarverkefna (IPA-styrkir) og nú síðast þegar þingsályktunartillaga um að draga aðildarumsóknina til baka var til meðferðar á síðasta þingi. Það er því fjarri öllu lagi að halda því fram að sú afstaða sem nú hefur verið áréttuð við framkvæmdastjórn og ráð ESB hafi ekki verið rædd við utanríkismálanefnd. Bréfið felur eingöngu í sér aðra útfærslu á þeim áformum sem í þingsályktunartillögunni voru fólgin. Málið hefur margoft verið til umræðu í utanríkismálanefnd og samráðsskylda samkvæmt þingskapalögum er því að fullu uppfyllt.

Bréf stjórnarandstæðinga hefur að geyma fleiri rangfærslur og missagnir sem ég hirði ekki um að leiðrétta hér. Það sem meginmáli skiptir er að með bréfi ríkisstjórnarinnar hefur endapunkturinn verið settur aftan við umsóknarferli sem gangsett var án þess að fullur hugur fylgdi máli og nýtur ekki meirihluta stuðnings á Alþingi. Lýðræðislegt umboð og stjórnskipulegar heimildir ríkisstjórnarinnar eru hafnar yfir vafa og byggja á stefnu sem öllum hafa lengi verið ljósar, jafnt utanríkismálanefnd sem öðrum.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.