Categories
Greinar

Auðlindirnar okkar

Deila grein

05/09/2019

Auðlindirnar okkar

Umræðan um stefnumörkun í orkumálum og eignarhald og nýtingu auðlinda hefur verið í brennidepli síðustu misseri. Umræðan er mjög mikilvæg og hefur ýtt við stjórnvöldum um/í að setja skýrari stefnu varðandi eignarhald og nýtingu á jörðum og um að gerð verði breyting á lögum um vatnsréttindi, sem og að skoða breytingar á dreifingarkostnaði raforku með jafnræðissjónarmið að leiðarljósi.

Sama verð fyrir alla

Eitt verð fyrir dreifingu raforku, þ.e einn taxti fyrir dreifbýli og þéttbýli, og jafnvel sérstakur taxti fyrir garðyrkjuna, hafa einnig borið hátt í umræðuna. Að mínu mati er það réttlætismál að allir landsmenn greiði sama verð fyrir dreifingu raforku. Núverandi ríkisstjórn ætlar sér að breyta þessu, sem er vel. Og ef við ætlum raunverulega að verða sjálfbærari hvað matvælaframleiðslu varðar, fækka kolefnisfótsporum og tryggja endurnýjun og vöxt innan garðyrkjunnar, er mál til komið að taka pólitíska ákvörðun og hafa sérstaka taxta fyrir garðyrkjubændur. Það þætti mér vera framfaraskref.

Auðlindaákvæði í stjórnarskrá

Nú er ekkert ákvæði í stjórnarskrá Íslands um sameign þjóðarinnar á auðlindum þrátt fyrir að 80% þjóðarinnar hafi greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um að þau vildu fá slíkt ákvæði. Auðlindaákvæði er nú loks komið í samráðsgátt Stjórnarráðsins og gerir ráð fyrir því að þessi þjóðareign verði undirstrikuð í stjórnarskrá. Vonandi myndast samstaða hjá þingheimi um að afgreiða ákvæðið þegar það kemur til afgreiðslu í þingsal.

Uppkaup á vatnsréttindum

Fyrir fáum árum síðan var lítil eftirspurn eftir bújörðum. Framsýnir fjárfestar sáu sér leik á borði og keyptu upp fjölmargar jarðir. Sumir eiga orðið umtalsverð jarðasöfn. Margir hafa áhyggjur af þessari þróun. Góðar bújarðir eru ekki endilegar nýttar sem slíkar. Aðgengi almennings hefur í sumum tilfellum verið takmarkað mjög, eitt dæmi um það er Mýrdalurinn. Við erum með hvað frjálslegasta löggjöf innan EES um þessi mál og gætum litið til annarra landa, hvort sem er Danmerkur, Noregs eða Írlands, um skýrari ramma. Það er tími til kominn að löggjafinn setji skýrari ramma um landakaup og ræði jafnframt hvort það sé eðlilegt að vatnsréttindi fylgi landsréttindum. Hér eru erlendir fjárfestar að fjárfesta fyrir á fimmta milljarð í vatnsverksmiðjum. Þeir eru að fjárfesta í vatnsréttindum og vatnsauðlindinni. Ég er ekki viss um að það þjóni hagsmunum Íslands til lengri tíma.

Land er ekki „venjuleg“ fasteign

Við höfum ekki enn sett regluverk um kaup á landi og endurskoðað þar með þá löggjöf sem sett var fyrir fimmtán árum. Þá voru allar gáttir opnaðar, sem var ekki til bóta. Ríkisstjórnin hefur hins vegar í hyggju að setja aftur á slíkar reglur. Meðferð og notkun alls lands skiptir alla landsmenn máli, bæði nú og til framtíðar. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands og því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Suðra 5. september 2019.