Categories
Greinar

Aukið framlag Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Deila grein

15/10/2014

Aukið framlag Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Þórunn EgilsdóttirAllt frá stofnun Atlantshafsbandalagsins árið 1949 hefur Ísland verið aðildarríki. Aðildin ásamt varnarsamningnum við Bandaríkin hefur því verið hornsteinn íslenskra öryggis- og varnarmála í 65 ár. Samstarf við okkar nánustu bandalags- og vinaríki hefur gert það að verkum að uppbygging varnargetu landsins hefur ekki orðið Íslandi ofviða.

Sem aðildarþjóð getum við ekki verið eingöngu í hlutverki þiggjandans heldur ber okkur að taka þátt í víðtæku samstarfi sem fram fer á vettvangi bandalagsins og leggja okkar af mörkum með ýmsu móti.

Á nýafstöðnum leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Wales tilkynnti forsætisráðherra um fyrirætlanir íslenskra stjórnvalda að efla þátttöku og framlög í þágu eigin varna og bandalagsins. Efld þátttaka Íslands verður á sviði borgaralegrar sérfræðiþekkingar á þeim sviðum sem okkur hugnast og farnast best.

Aukið framlag verður m.a. nýtt til eflingar þyrlubjörgunarsveitar Landhelgisgæslu vegna loftrýmisgæslu, sem einnig kemur til góða almennri björgunarþjónustu í landinu.

Boðnir verða fram borgaralegir sérfræðingar til starfa á vettvangi bandalagsins þar sem það á við, til dæmis á sviði almannavarna, jafnréttismála, sprengjuleitar, vefvarna, upplýsingamiðlunar og öryggis á hafi.

Einnig verður lagt til fé í sjóði til styrktar uppbyggingu í Úkraínu og til framfylgdar ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Þátttaka íslenskra starfsmanna í samstarfi af þessu tagi eykur þeim einnig þekkingu, innsýn og tengslanet sem aftur nýtist þegar heim er komið.

Þjóðaröryggi Íslands verður eingöngu tryggt með ábyrgum hætti með alþjóðasamstarfi við bandalagsríki okkar. Þó að engar beinar ógnir steðji að landi og þjóð væri það mikil skammsýni og beinlínis óábyrgt að standa berskjölduð gagnvart utanaðkomandi hættum.

Því hefur frá upphafi ríkt þverpólitísk samstaða um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, þó ekki hafi aðildin verið óumdeild.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.