Categories
Greinar

Aukinn séreignarsparnað í stað hærri stýrivaxta

Deila grein

08/12/2015

Aukinn séreignarsparnað í stað hærri stýrivaxta

frosti_SRGBFrá aldamótum hefur Seðlabankinn reitt sig á stýrivaxtatækið til að halda verðlagi stöðugu. Því miður fylgja stýrivaxtahækkunum ýmsar aukaverkanir og þess vegna er mikilvægt að finna ásættanlegri leiðir til að stuðla að stöðugu verðlagi. Þar gæti breytilegur séreignarsparnaður komið til álita.

Helstu aukaverkanir stýrivaxta
Stýrivaxtahækkanir bitna aðallega á þeim sem skulda, eins og Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi benti á í nýlegum pistli. Því koma stýrivaxtahækkanir hart við fjölskyldur sem eru að koma sér upp húsnæði. Ung og vaxandi fyrirtæki þurfa einnig á meira lánsfé að halda en þroskuð fyrirtæki og hækkandi stýrivextir geta hamlað eðlilegri fjárfestingu í uppbyggingu atvinnulífsins. Það er ekki réttlátt að þeir skuldsettari leggi meira af mörkum en aðrir til að viðhalda verðstöðugleika en þannig virka stýrivaxtahækkanir.

Þegar stýrivextir hér eru hærri en í öðrum löndum getur það leitt til innstreymis á kviku erlendu fjármagni. Slíkt innstreymi fjármagns getur leitt til styrkingar á gjaldmiðlinum umfram það sem raunhagkerfið þolir. Viðskiptahalli getur þá vaxið og um leið erlend skuldsetning þjóðarbúsins. Þegar erlendir eigendur fjármagns telja skuldir þjóðarbúsins orðnar hættulega miklar getur brostið á fjármagnsflótti sem leiðir til gengisfalls.

Auk þess að vera taldir óskilvirkt stýritæki með margar aukaverkanir, þá ber Seðlabankinn og þar með ríkissjóður, mikinn kostnað af stýrivaxtatækinu. Seðlabankinn greiðir bönkum 5,75% vexti á allar innstæður þeirra í Seðlabankanum en vegna þess hve bankar eiga mikið af lausu fé þurfa þeir lítið að taka lán í Seðlabanka og hann hefur því engar tekjur af stýrivöxtum. Seðlabankinn hefur því árlega greitt bönkunum marga milljarða í vexti en haft litlar tekjur á móti. Seðlabankinn gæti reyndar dregið verulega úr tapi sínu með því að hætta að greiða vexti á þær innstæður bankanna sem eru á bindiskyldu. Það fyrirkomulag tíðkast einmitt hjá flestum seðlabönkum heims og ætti að taka upp hér líka.

Eftir því sem stýrivextir verða hærri því meiri verða allar aukaverkanir og þess vegna er nauðsynlegt að leita ásættanlegri leiða til að draga úr hækkunum verðlags.

Séreignarsparnaður til sveiflujöfnunar
Í stað þess að hækka stýrivexti mætti draga úr hækkun verðlags með því að auka sparnað allra. Slíkar hugmyndir hafa verið til skoðunar á Nýja-Sjálandi þar sem háir stýrivextir hafa iðulega leitt til of mikillar styrkingar gjaldmiðilsins og fleiri vandkvæða. Með auknum séreignarsparnaði væri hægt að draga úr neyslu flestra en ekki bara þeirra sem skulda eins og gerist við týrivaxtahækkun.

Það mætti útfæra sparnað sem stýritæki með ýmsum hætti. Á þenslutímum mætti t.d. beita blöndu af skattalegum hvötum og skyldusparnaði til að auka séreignarsparnað landsmanna. Það
mætti líka vera valkostur að greiða niður húsnæðislán í stað þess að leggja í séreignarsjóð og taka yrði tillit til þeirra sem ekki hafa nægar ráðstöfunartekjur til að leggja aukalega í sparnað.

Með breytilegum séreignarsparnaði myndi þjóðin nota góðærin til að leggja meira fyrir en í meðalári og væri þannig betur undir það búin að mæta samdráttarskeiðum í framtíðinni. Það mætti líka nota séreignarsparnaðinn til að mæta persónulegum áföllum.

Margt bendir til þess að breytilegur séreignarsparnaður geti að hluta til komið í stað stýrivaxtahækkana og þannig stutt við markmið peningastefnunnar. Með því að bæta breytilegum séreignarsparnaði í verkfærakistu Seðlabankans mætti þannig stuðla að meiri stöðugleika í verðlagi og um leið lækka stýrivexti og þar með almennt vaxtastig í landinu.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í DV 8. desember 2015.