Þörf er á samgöngubótum um land allt og það er trú mín að með betri og fjölbreyttari samgöngum verði samfélagið sterkara. Aukið öryggi á vegum skiptir höfuðmáli en sömuleiðis framkvæmdir sem stytta ferðatíma og leiðir á milli byggðarlaga sem aftur eflir atvinnusvæðin.
Við stöndum frammi fyrir því að á næsta aldarfjórðungi er brýnt að sinna 200 vegatengdum verkefnum um land allt og er kostnaður áætlaður yfir 400 milljarðar. Upphæðirnar eru ævintýralegar háar, sem kallar á nýja hugsun í fjármögnun framkvæmda. Umferðin er víða mikil og hefur aukist í takt við fjölgun ferðamanna. Unnið er að úrbótum en betur má ef duga skal. Breytt forgangsröðun á samgönguframkvæmdum mun sjást í endurskoðaðri samgönguáætlun í nóvember þar sem umferðaröryggi er haft að leiðarljósi. Á næstu sjö árum mun framkvæmdum sem metnar eru að fjárhæð í heild um 130 milljarða króna verða flýtt fyrir utan höfuðborgarsvæðið.
Aðskilnaður akstursstefnu
Í samgönguáætlun er lagt til að á tímabili hennar verði lokið við að aðskilja akstursstefnur á umferðarþyngstu vegunum sem eru út frá höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Reykjanesbrautin að Flugstöð, Suðurlandsvegur austur fyrir Hellu og Vesturlandsvegur að Borgarnesi. Framkvæmdum á umferðarþyngstu köflunum verður lokið á fyrsta tímabili.
Stytting og minni bið
Ávinningurinn af flýtingu framkvæmda er efnahags- og samfélagslegur. Brú yfir Hornafjarðarfljót styttir suðurleiðina til Hafnar um tæpa 12 km og losar um þrjár einbreiðar brýr. Láglendisvegur um Mýrdal/jarðgöng um Reynisfjall bætir öryggi fjölmargra farþega sem fara þar um og ný brú yfir Ölfusá dregur úr umferðarteppu sem myndast gjarnan við Selfoss. Sömuleiðis mun tvöföldun Hvalfjarðarganga og ný Sundabraut bæta flæði umferðar. Þá mun vegur yfir Öxi stytta hringveginn um 70 km.
Með sérstöku gjaldi fyrir staðbundin mannvirki eftir að framkvæmdum lýkur, t.d. 20-30 ár, líkt og Hvalfjarðargangamódelið gekk út á, geta samgöngumannvirki orðið að veruleika fyrr en ella. Forsenda þess er að val sé um aðra leið. Að því loknu fellur gjaldtakan niður.
Breytt forgangsröðun og aukið fjármagn
Við val á flýtiframkvæmdum voru skoðuð verkefni sem tilheyra grunnneti samgangna með hliðsjón af umferðaröryggi, umferðarþunga og þjóðfélagslegum sparnaði af fækkun umferðarslysa. Árlegur samfélagslegur kostnaður af umferðarslysum er metinn um 40 til 60 ma.kr. og er þá ómælt tilfinningalegt tjón í viðbót sem fólk upplifir í tengslum við slys. Þannig mætti hugsa sér að ef hægt væri að fækka umferðarslysum um 10% gætu sparast 4 til 6 milljarðar árlega sem nýta mætti til vegagerðar. Ávinningurinn er ótvíræður.
Forgangsröðunin birtist í að stóraukið fjármagn hefur verið sett í vegakerfið og birtist í fjármálaáætlun. Um 5,5 milljarða króna hækkun er núna á milli ára, 2019-2021 ásamt ríflega 10 milljarða hækkun síðustu tveggja ára, 2018 og 2019. Til að mæta aukinni umferð renna 27 milljarðar til ýmissa verkefna, sem er aukning um 16,8% á milli ára. Þetta eru háar fjárhæðir sem gera okkur kleift að taka risastökk inn í framtíðina og renna styrkari stoðum undir samkeppnishæft atvinnulíf og góð efnahagsleg lífskjör.
Samvinnuverkefni flýta fyrir
En betur má ef duga skal. Fjármagn til vegaframkvæmda ræðst á hverjum tíma af svigrúmi í fjármálastefnu. Nauðsynlegt fjármagn umfram svigrúm verður því best tryggt með samvinnu á milli opinberra aðila og einkaaðila. Sérstakt félag, líkt og Hvalfjarðargangamódelið, héldi utan um bæði hvaðan tekjur koma og hvert þær fara. Þannig yrði tryggt að innheimt veggjöld renni með gagnsæjum hætti til þeirra framkvæmda sem þeim er ætlað að fara. Ábyrgð utanaðkomandi aðila nær til fjármögnunar á mannvirkinu, í heild eða að hluta þar til gjaldtöku lýkur. Í lok samningstíma tekur Vegagerðin við eigninni. Við höfum einfaldlega ekki tíma til að bíða með sum verkefni, stærsta verkefnið er að auka öryggið í umferðinni.
Jarðgangaáætlun
Jarðgangagerð er dýr og með umfangsmestu opinberu framkvæmdunum hér á landi. Jarðgöng eru þeim kostum gædd að þau geta umbylt heilum svæðum og eflt atvinnulíf á fámennum svæðum sem hafa búið við fólksfækkun og hnignun.
Hvalfjarðargangamódelið er dæmi um vel heppnaða framkvæmd sem styrkti svæðið sérstaklega norðan ganganna á margvíslegan hátt og tekjur af umferð stóðu straum af framkvæmdinni. Dýrafjarðargöng klárast á næsta ári og eru Austfirðingar næstir í röðinni. Halda þarf áfram og mikilvægt er að hafa sýn til lengri tíma. Sérstök jarðgangaáætlun verður því hluti af samgönguáætlun. Í henni verður einnig tilgreint hvaða jarðgöng falla undir gjaldtöku, en rekstur og viðhald jarðganga er almennt dýrara en rekstur og viðhald vega.
Drög að endurskoðaðri samgönguáætlun liggja fyrir og verða brátt til umsagnar á vef ráðuneytisins. Með henni eru tekin brýn skref til að svara ákalli um að hraða uppbyggingu vegakerfisins. Með því er lagður grunnur að sterkara samfélagi um allt land.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2019.