Categories
Greinar

Betri samgöngur, sterkara samfélag

Deila grein

10/10/2019

Betri samgöngur, sterkara samfélag

Þörf er á sam­göngu­bót­um um land allt og það er trú mín að með betri og fjöl­breytt­ari sam­göng­um verði sam­fé­lagið sterk­ara. Aukið ör­yggi á veg­um skipt­ir höfuðmáli en sömu­leiðis fram­kvæmd­ir sem stytta ferðatíma og leiðir á milli byggðarlaga sem aft­ur efl­ir at­vinnusvæðin.

Við stönd­um frammi fyr­ir því að á næsta ald­ar­fjórðungi er brýnt að sinna 200 vega­tengd­um verk­efn­um um land allt og er kostnaður áætlaður yfir 400 millj­arðar. Upp­hæðirn­ar eru æv­in­týra­leg­ar háar, sem kall­ar á nýja hugs­un í fjár­mögn­un fram­kvæmda. Um­ferðin er víða mik­il og hef­ur auk­ist í takt við fjölg­un ferðamanna. Unnið er að úr­bót­um en bet­ur má ef duga skal. Breytt for­gangs­röðun á sam­göngu­fram­kvæmd­um mun sjást í end­ur­skoðaðri sam­göngu­áætlun í nóv­em­ber þar sem um­ferðarör­yggi er haft að leiðarljósi. Á næstu sjö árum mun fram­kvæmd­um sem metn­ar eru að fjár­hæð í heild um 130 millj­arða króna verða flýtt fyr­ir utan höfuðborg­ar­svæðið.

Aðskilnaður akst­urs­stefnu

Í sam­göngu­áætlun er lagt til að á tíma­bili henn­ar verði lokið við að aðskilja akst­urs­stefn­ur á um­ferðarþyngstu veg­un­um sem eru út frá höfuðborg­ar­svæðinu, þ.e. Reykja­nes­braut­in að Flug­stöð, Suður­lands­veg­ur aust­ur fyr­ir Hellu og Vest­ur­lands­veg­ur að Borg­ar­nesi. Fram­kvæmd­um á um­ferðarþyngstu köfl­un­um verður lokið á fyrsta tíma­bili.

Stytt­ing og minni bið

Ávinn­ing­ur­inn af flýt­ingu fram­kvæmda er efna­hags- og sam­fé­lags­leg­ur. Brú yfir Horna­fjarðarfljót stytt­ir suður­leiðina til Hafn­ar um tæpa 12 km og los­ar um þrjár ein­breiðar brýr. Lág­lendis­veg­ur um Mýr­dal/​jarðgöng um Reyn­is­fjall bæt­ir ör­yggi fjöl­margra farþega sem fara þar um og ný brú yfir Ölfusá dreg­ur úr um­ferðarteppu sem mynd­ast gjarn­an við Sel­foss. Sömu­leiðis mun tvö­föld­un Hval­fjarðarganga og ný Sunda­braut bæta flæði um­ferðar. Þá mun veg­ur yfir Öxi stytta hring­veg­inn um 70 km.

Með sér­stöku gjaldi fyr­ir staðbund­in mann­virki eft­ir að fram­kvæmd­um lýk­ur, t.d. 20-30 ár, líkt og Hval­fjarðarganga­mód­elið gekk út á, geta sam­göngu­mann­virki orðið að veru­leika fyrr en ella. For­senda þess er að val sé um aðra leið. Að því loknu fell­ur gjald­tak­an niður.

Breytt for­gangs­röðun og aukið fjár­magn

Við val á flýtifram­kvæmd­um voru skoðuð verk­efni sem til­heyra grunnn­eti sam­gangna með hliðsjón af um­ferðarör­yggi, um­ferðarþunga og þjóðfé­lags­leg­um sparnaði af fækk­un um­ferðarslysa. Árleg­ur sam­fé­lags­leg­ur kostnaður af um­ferðarslys­um er met­inn um 40 til 60 ma.kr. og er þá ómælt til­finn­inga­legt tjón í viðbót sem fólk upp­lif­ir í tengsl­um við slys. Þannig mætti hugsa sér að ef hægt væri að fækka um­ferðarslys­um um 10% gætu spar­ast 4 til 6 millj­arðar ár­lega sem nýta mætti til vega­gerðar. Ávinn­ing­ur­inn er ótví­ræður.

For­gangs­röðunin birt­ist í að stór­aukið fjár­magn hef­ur verið sett í vega­kerfið og birt­ist í fjár­mála­áætl­un. Um 5,5 millj­arða króna hækk­un er núna á milli ára, 2019-2021 ásamt ríf­lega 10 millj­arða hækk­un síðustu tveggja ára, 2018 og 2019. Til að mæta auk­inni um­ferð renna 27 millj­arðar til ým­issa verk­efna, sem er aukn­ing um 16,8% á milli ára. Þetta eru háar fjár­hæðir sem gera okk­ur kleift að taka risa­stökk inn í framtíðina og renna styrk­ari stoðum und­ir sam­keppn­is­hæft at­vinnu­líf og góð efna­hags­leg lífs­kjör.

Sam­vinnu­verk­efni flýta fyr­ir

En bet­ur má ef duga skal. Fjár­magn til vega­fram­kvæmda ræðst á hverj­um tíma af svig­rúmi í fjár­mála­stefnu. Nauðsyn­legt fjár­magn um­fram svig­rúm verður því best tryggt með sam­vinnu á milli op­in­berra aðila og einkaaðila. Sér­stakt fé­lag, líkt og Hval­fjarðarganga­mód­elið, héldi utan um bæði hvaðan tekj­ur koma og hvert þær fara. Þannig yrði tryggt að inn­heimt veg­gjöld renni með gagn­sæj­um hætti til þeirra fram­kvæmda sem þeim er ætlað að fara. Ábyrgð ut­anaðkom­andi aðila nær til fjár­mögn­un­ar á mann­virk­inu, í heild eða að hluta þar til gjald­töku lýk­ur. Í lok samn­ings­tíma tek­ur Vega­gerðin við eign­inni. Við höf­um ein­fald­lega ekki tíma til að bíða með sum verk­efni, stærsta verk­efnið er að auka ör­yggið í um­ferðinni.

Jarðganga­áætl­un

Jarðganga­gerð er dýr og með um­fangs­mestu op­in­beru fram­kvæmd­un­um hér á landi. Jarðgöng eru þeim kost­um gædd að þau geta um­bylt heil­um svæðum og eflt at­vinnu­líf á fá­menn­um svæðum sem hafa búið við fólks­fækk­un og hnign­un.

Hval­fjarðarganga­mód­elið er dæmi um vel heppnaða fram­kvæmd sem styrkti svæðið sér­stak­lega norðan gang­anna á marg­vís­leg­an hátt og tekj­ur af um­ferð stóðu straum af fram­kvæmd­inni. Dýra­fjarðargöng klár­ast á næsta ári og eru Aust­f­irðing­ar næst­ir í röðinni. Halda þarf áfram og mik­il­vægt er að hafa sýn til lengri tíma. Sér­stök jarðganga­áætl­un verður því hluti af sam­göngu­áætlun. Í henni verður einnig til­greint hvaða jarðgöng falla und­ir gjald­töku, en rekst­ur og viðhald jarðganga er al­mennt dýr­ara en rekst­ur og viðhald vega.

Drög að end­ur­skoðaðri sam­göngu­áætlun liggja fyr­ir og verða brátt til um­sagn­ar á vef ráðuneyt­is­ins. Með henni eru tek­in brýn skref til að svara ákalli um að hraða upp­bygg­ingu vega­kerf­is­ins. Með því er lagður grunn­ur að sterk­ara sam­fé­lagi um allt land.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2019.