Á því kjörtímabili sem er að líða lýsti ég því yfir að mín aðaláhersla yrði málefni barna. Það væri brýnt að fjárfesta í börnum sem allra fyrst, það er nefnilega hagkvæmt og dregur úr þeim kostnaði sem hlýst síðar meir af því að sinna þeim málaflokki ekki nægilega vel. Bæði fjárhagslegum kostnaði og ekki hvað síst þeim kostnaði, bæði samfélagslegum og efnislegum, sem hlýst af fyrir viðkomandi barn og fjölskyldu þess allt frá upphafi og kostnaði sem barnið færir með sér upp á fullorðinsár. En fyrir liggur að börn sem verða fyrir áföllum í æsku, sem ekki eru tækluð snemma og á réttan hátt, taka þau áföll með sér áfram í lífinu og eiga það á hættu að þróa með sér andlegan og líkamlegan vanda sem veldur því að þau glíma við sjúkdóma og annars konar erfiðleika, lifa styttra og geta síður gefið til baka til samfélagsins á síðari árum. Fjárfesting í börnum dregur úr fjármagni sem ríkið þarf að inna af hendi síðar, til dæmis til heilbrigðiskerfis, greiðslu örorkulífeyris, greiðslur sem falla til í refsivörslukerfinu og annars staðar.
Í upphafi kjörtímabils fundaði ég með fjölmörgum aðilum sem höfðu reynslu og upplýsingar um hvernig við gætum breytt velferðarkerfinu fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Börnin sjálf voru spurð, foreldrar þeirra, aðrir fjölskyldumeðlimir, fagaðilar og ekki síst þeir einstaklingar sem hefði þurft að aðstoða á barnsaldri en eru orðnir fullorðnir nú.
Einstaklingurinn á að vera hjartað í kerfinu
Upp úr stóð að meirihluti lýsti því að kerfið væri flókið. Fjölskyldum fannst að þær þyrftu að eyða miklum tíma í það að finna út hvaða þjónustu þær þyrftu, hvar slíka þjónustu væri að fá og sækja hana, oft til nokkurra mismunandi aðila. Kerfinu var lýst sem völundarhúsi og ljóst að það væri ekki á færi allra að rata gegnum það.
Síðastliðið vor samþykkti Alþingi frumvarp mitt til nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Lögfesting skipulags samþættrar þjónustu við börn þvert á alla þjónustuveitendur er einhver sú stærsta kerfisbreyting sem ráðist hefur verið í í málefnum barna í seinni tíð. Breyting sem aldrei hefði verið hægt að ná í gegn án gífurlega umfangsmikils samráðs og þátttöku fjölmargra aðila sem koma að málefnum barna hér á landi. Meira en 1.000 manns komu að vinnunni með einum eða öðrum hætti á þriggja ára tímabili, börn, foreldrar og sérfræðingar, þvert á ráðuneyti, kerfi, fagstéttir og pólitík. Við ákváðum að fjárfesta í fólki vegna þess að það er ein arðbærasta fjárfestingin.
Við þurfum nýja nálgun
Þessa reynslu má nýta til umbóta í öðrum málaflokkum þar sem þörf er á samþættingu þjónustu og betra samtali þjónustuveitenda. Meðal þeirra málaflokka eru málefni eldra fólks.
Íslenska þjóðin er að eldast. Nú er sjöundi hver landsmaður 65 ára eða eldri en árið 2050 verður fjórði hver landsmaður á þeim aldri. Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar gerir meiri og aðrar kröfur til
ýmissa þjónustuveitenda svo tryggja megi öldruðu fólki hér á landi frelsi, fjárhagslegt öryggi og góð lífsgæði. Til þess að svo megi vera þarf þjónusta við eldra fólk að taka mið af þörfum einstaklinga og ganga þvert á kerfi og stofnanir. Með öðrum orðum, við þurfum að samþætta þjónustu við eldra fólk, þvert á kerfi, ráðuneyti og sérfræðinga og tryggja heildræna sýn á málefni hvers einstaklings með samstarfi allra viðeigandi þjónustuveitenda. Mikilvægt er að hér á landi verði mótuð heildstæð nálgun á það hvernig skuli haga slíku samstarfi í þágu réttinda og lífsgæða eldra fólks.
Þau málefni sem eldra fólk lýsir hvað helst eru að vissu leyti sambærileg við þau málefni sem lýst var í þeirri vinnu sem snýr að börnum. Þjónusta við eldra fólk er á hendi margra mismunandi þjónustuveitenda sem heyra undir mismunandi ráðuneyti. Ekki þarf allt eldra fólk sams konar þjónustu – hópurinn er afar mismunandi innbyrðis, enda um að ræða fólk á aldrinum 67-100 ára, 67 ára einstaklingur sem er að láta af störfum eða minnka við sig hefur almennt ekki sömu þarfir og sá sem er 100 ára gamall – og einn 75 ára einstaklingur hefur hreint ekki sömu þjónustuþarfir og nágranni hans/hennar sem einnig er 75 ára.
Það er algjört lykilatriði að einstaklingurinn sjálfur eða aðstandendur hans þurfi ekki að vera sérfræðingar í þjónustu til eldra fólks, eða viti strax hvaða þjónustu þörf sé á, hvar hana sé að finna og í vissum tilfellum tengja saman tvo eða fleiri þjónustuveitendur sem veiti heildræna þjónustu. Þetta er ekki hlutverk aðstandenda og ekki eldra fólksins sjálfs, einstaklingurinn þarf að vera hjartað í kerfinu.
Á komandi kjörtímabili vil ég setja málefni eldra fólks í sama farveg og málefni barna á kjörtímabilinu sem er að líða. Við höfum þegar sýnt að það er mögulegt að fara í stórar kerfisbreytingar. Þjónusta við eldra fólk getur verið og á að vera svo miklu einfaldari. Við þurfum að fjárfesta í fólki vegna þess að það er arðbærasta fjárfestingin út frá öllum hliðum.
Fyrir einstaklinginn og samfélagið allt. Við erum nefnilega rétt að byrja!
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og frambjóðandi fyrir xB í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. ágúst 2021.