Categories
Greinar

Betri þjónusta og aukin lífsgæði eldra fólks

Deila grein

20/08/2021

Betri þjónusta og aukin lífsgæði eldra fólks

Á því kjör­tíma­bili sem er að líða lýsti ég því yfir að mín aðaláhersla yrði mál­efni barna. Það væri brýnt að fjár­festa í börn­um sem allra fyrst, það er nefni­lega hag­kvæmt og dreg­ur úr þeim kostnaði sem hlýst síðar meir af því að sinna þeim mála­flokki ekki nægi­lega vel. Bæði fjár­hags­leg­um kostnaði og ekki hvað síst þeim kostnaði, bæði sam­fé­lags­leg­um og efn­is­leg­um, sem hlýst af fyr­ir viðkom­andi barn og fjöl­skyldu þess allt frá upp­hafi og kostnaði sem barnið fær­ir með sér upp á full­orðins­ár. En fyr­ir ligg­ur að börn sem verða fyr­ir áföll­um í æsku, sem ekki eru tækluð snemma og á rétt­an hátt, taka þau áföll með sér áfram í líf­inu og eiga það á hættu að þróa með sér and­leg­an og lík­am­leg­an vanda sem veld­ur því að þau glíma við sjúk­dóma og ann­ars kon­ar erfiðleika, lifa styttra og geta síður gefið til baka til sam­fé­lags­ins á síðari árum. Fjár­fest­ing í börn­um dreg­ur úr fjár­magni sem ríkið þarf að inna af hendi síðar, til dæm­is til heil­brigðis­kerf­is, greiðslu ör­orku­líf­eyr­is, greiðslur sem falla til í refsi­vörslu­kerf­inu og ann­ars staðar.

Í upp­hafi kjör­tíma­bils fundaði ég með fjöl­mörg­um aðilum sem höfðu reynslu og upp­lýs­ing­ar um hvernig við gæt­um breytt vel­ferðar­kerf­inu fyr­ir börn og fjöl­skyld­ur þeirra. Börn­in sjálf voru spurð, for­eldr­ar þeirra, aðrir fjöl­skyldumeðlim­ir, fagaðilar og ekki síst þeir ein­stak­ling­ar sem hefði þurft að aðstoða á barns­aldri en eru orðnir full­orðnir nú.

Ein­stak­ling­ur­inn á að vera hjartað í kerf­inu

Upp úr stóð að meiri­hluti lýsti því að kerfið væri flókið. Fjöl­skyld­um fannst að þær þyrftu að eyða mikl­um tíma í það að finna út hvaða þjón­ustu þær þyrftu, hvar slíka þjón­ustu væri að fá og sækja hana, oft til nokk­urra mis­mun­andi aðila. Kerf­inu var lýst sem völ­und­ar­húsi og ljóst að það væri ekki á færi allra að rata gegn­um það.

Síðastliðið vor samþykkti Alþingi frum­varp mitt til nýrra laga um samþætt­ingu þjón­ustu í þágu far­sæld­ar barna. Lög­fest­ing skipu­lags samþættr­ar þjón­ustu við börn þvert á alla þjón­ustu­veit­end­ur er ein­hver sú stærsta kerf­is­breyt­ing sem ráðist hef­ur verið í í mál­efn­um barna í seinni tíð. Breyt­ing sem aldrei hefði verið hægt að ná í gegn án gíf­ur­lega um­fangs­mik­ils sam­ráðs og þátt­töku fjöl­margra aðila sem koma að mál­efn­um barna hér á landi. Meira en 1.000 manns komu að vinn­unni með ein­um eða öðrum hætti á þriggja ára tíma­bili, börn, for­eldr­ar og sér­fræðing­ar, þvert á ráðuneyti, kerfi, fag­stétt­ir og póli­tík. Við ákváðum að fjár­festa í fólki vegna þess að það er ein arðbær­asta fjár­fest­ing­in.

Við þurf­um nýja nálg­un

Þessa reynslu má nýta til um­bóta í öðrum mála­flokk­um þar sem þörf er á samþætt­ingu þjón­ustu og betra sam­tali þjón­ustu­veit­enda. Meðal þeirra mála­flokka eru mál­efni eldra fólks.

Íslenska þjóðin er að eld­ast. Nú er sjö­undi hver landsmaður 65 ára eða eldri en árið 2050 verður fjórði hver landsmaður á þeim aldri. Breytt ald­urs­sam­setn­ing þjóðar­inn­ar ger­ir meiri og aðrar kröf­ur til

ým­issa þjón­ustu­veit­enda svo tryggja megi öldruðu fólki hér á landi frelsi, fjár­hags­legt ör­yggi og góð lífs­gæði. Til þess að svo megi vera þarf þjón­usta við eldra fólk að taka mið af þörf­um ein­stak­linga og ganga þvert á kerfi og stofn­an­ir. Með öðrum orðum, við þurf­um að samþætta þjón­ustu við eldra fólk, þvert á kerfi, ráðuneyti og sér­fræðinga og tryggja heild­ræna sýn á mál­efni hvers ein­stak­lings með sam­starfi allra viðeig­andi þjón­ustu­veit­enda. Mik­il­vægt er að hér á landi verði mótuð heild­stæð nálg­un á það hvernig skuli haga slíku sam­starfi í þágu rétt­inda og lífs­gæða eldra fólks.

Þau mál­efni sem eldra fólk lýs­ir hvað helst eru að vissu leyti sam­bæri­leg við þau mál­efni sem lýst var í þeirri vinnu sem snýr að börn­um. Þjón­usta við eldra fólk er á hendi margra mis­mun­andi þjón­ustu­veit­enda sem heyra und­ir mis­mun­andi ráðuneyti. Ekki þarf allt eldra fólk sams kon­ar þjón­ustu – hóp­ur­inn er afar mis­mun­andi inn­byrðis, enda um að ræða fólk á aldr­in­um 67-100 ára, 67 ára ein­stak­ling­ur sem er að láta af störf­um eða minnka við sig hef­ur al­mennt ekki sömu þarf­ir og sá sem er 100 ára gam­all – og einn 75 ára ein­stak­ling­ur hef­ur hreint ekki sömu þjón­ustuþarf­ir og ná­granni hans/​henn­ar sem einnig er 75 ára.

Það er al­gjört lyk­il­atriði að ein­stak­ling­ur­inn sjálf­ur eða aðstand­end­ur hans þurfi ekki að vera sér­fræðing­ar í þjón­ustu til eldra fólks, eða viti strax hvaða þjón­ustu þörf sé á, hvar hana sé að finna og í viss­um til­fell­um tengja sam­an tvo eða fleiri þjón­ustu­veit­end­ur sem veiti heild­ræna þjón­ustu. Þetta er ekki hlut­verk aðstand­enda og ekki eldra fólks­ins sjálfs, ein­stak­ling­ur­inn þarf að vera hjartað í kerf­inu.

Á kom­andi kjör­tíma­bili vil ég setja mál­efni eldra fólks í sama far­veg og mál­efni barna á kjör­tíma­bil­inu sem er að líða. Við höf­um þegar sýnt að það er mögu­legt að fara í stór­ar kerf­is­breyt­ing­ar. Þjón­usta við eldra fólk get­ur verið og á að vera svo miklu ein­fald­ari. Við þurf­um að fjár­festa í fólki vegna þess að það er arðbær­asta fjár­fest­ing­in út frá öll­um hliðum.

Fyr­ir ein­stak­ling­inn og sam­fé­lagið allt. Við erum nefni­lega rétt að byrja!

Ásmundur Einar Daðason, fé­lags- og barna­málaráðherra og fram­bjóðandi fyr­ir xB í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. ágúst 2021.