Categories
Greinar

Blekkingarleikur síðustu ríkisstjórnar

Deila grein

22/03/2014

Blekkingarleikur síðustu ríkisstjórnar

vigdishauksdottirÍ kosningasjónvarpi kvöldið fyrir alþingiskosningarnar vorið 2009 sagði Steingrímur J. Sigfússon að það samrýmdist ekki stefnu Vinstri grænna að hefja undirbúning að því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og að hann hefði ekkert umboð til slíks frá flokknum. Þrátt fyrir þessi orð fór Steingrímur ásamt Samfylkingunni rakleiðis í að undirbúa aðildarumsókn og send var umsókn að ESB um sumarið eftir mikil átök í þinginu. Þegar Steingrímur J. Sigfússon lét þessi orð falla 24. apríl 2009 upphófst einn sá stærsti blekkingarvefur sem spunninn hefur verið hér á landi. Þessi ákvörðun hefur verið landi og þjóð dýrkeypt og ekki sagður nema hálfsannleikur á öllum stigum þrátt ábendingar um annað. Það hefur verið alveg sama hvaða rök og staðreyndir hafa verið dregnar fram í umræðunni sem opinbera eðli og uppbyggingu ESB. Viðkvæðið hjá VG og Samfylkingu var ætíð á þá leið að um mikinn misskilning væri að ræða – viðkomandi væri ekki nógu upplýstur og ekki síst að Ísland væri á fyrsta farrými í aðlögunarferlinu og hinar og þessar staðreyndir um galla umsóknarinnar ættu ekki við.

Byggjum á staðreyndunum
Eftir 2004 var umsóknarferli að ESB breytt og umsóknarríki þurfa nú að laga sig að löggjöf ESB og jafnframt að byggja upp innviði, hagkerfi og lagakerfi að vestur-evrópskri fyrirmynd til að stuðla að svokallaðri einsleitni ESB-ríkja. M.ö.o. stjórnast aðildarferlið af kröfum og viðmiðum sem Evrópusambandið sjálft setur og skiptir skoðun umsóknarríkisins engu þar sem það hefur lýst sig viljugt til inngöngu og sóst formlega eftir henni. Segir í sáttmálum sambandsins að umbreytingafrestir, sérlausnir, undanþágur, tímafrestir skuli vera mjög takmarkaðir og eingöngu gefnir til að gefa svigrúm til skamms tíma til að uppfylla skilyrði ESB. Þetta þýðir að engar varanlegar undanþágur eru gefnar og því um gríðarlegan blekkingaleik að ræða af þáverandi stjórnvöldum í aðlögunarferlinu.

Árið 2006 voru ný viðmið sett er umsóknarríki urðu að lúta hinum svokölluðu opnunar- og lokunarviðmiðum. Ísland var því að sækja um aðild að ESB í umsóknarferli sem hafði tekið miklum breytingum miðað við það sem áður þekktist. Því var það hrein blekking hjá stjórnvöldum að tala um að Ísland fengi hraðferð í aðildarferlinu. Slíkt var aldrei í boði. Líklega eru alvarlegustu blekkingar síðustu ríkisstjórnar þær að margsinnis var fullyrt að Icesave- og makríldeilan væru ekki hluti af baktjaldamakki stjórnvalda og ESB. Þegar opnunar- og lokunarskilyrðin voru sett af ESB þýddi það að eitt ríki eða fleiri gætu beitt neitunarvaldi gagnvart umsóknarríki væru milliríkjadeilur í gangi. Til að halda viðræðunum lifandi lagði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar allt undir í að »semja um« Icesave-skuldina eins og þau kölluðu Icesave-deilurnar. Það er grafalvarlegur hlutur þegar stjórnvöld fara svo gegn þjóð sinni – að taka þannig á sig ólögvarðar kröfur í samningaviðræðum að þjóðarhag er stefnt í hættu. Samt var sífellt hamrað á því að Icesave væri alls ekki tengt ESB-umsókninni. Makríldeiluna er óþarft að rifja upp hér – en hún byggðist á nákvæmlega sömu sjónarmiðum.

Umsóknin strandaði árið 2011
Þetta segir okkur meðal annars hve mikið var að marka formann Vinstri grænna daginn fyrir kosningarnar vorið 2009. Upptakturinn hjá ríkjum ESB er að lagarökum ríkis skal fórnað fyrir samningarök. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er varpað ljósi á skollaleik síðustu ríkisstjórnar og sýnt fram á að viðræðurnar höfðu siglt í strand í árslok 2011. Samt hélt ríkisstjórnin áfram blekkingarleik sínum með tilheyrandi kostnaði. Í framvinduskýrslum ESB kom fram að sjávarútvegsstefna Íslands væri ekki í samræmi við stefnu ESB og að auki væru miklar takmarkanir á staðfesturétti og frjálsu flæði fjármagns og ekkert hefði verið gert í að aflétta takmörkunum á fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi hér á landi en slíkt væri ekki í samræmi við réttarreglur ESB. Opnunarviðmið setja umsóknarríki þær skorður að umsóknarríkið þarf að leggja fram tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig og hvenær viðkomandi ríki aðlagast löggjöf ESB. Þar sem sjávarútvegsstefna og lagaumgjörð íslensk sjávarútvegs er mjög ólík sjávarútvegi ESB gátu Íslendingar ekki lagt fram aðgerðaáætlun til breytinga nema með því að setja fram óaðgengileg skilyrði fyrir ESB – því þjóðin vill halda yfirráðum yfir sjávarútvegsauðlindinni. Í raun má því fullyrða að viðræðum hafi verið slitið í árslok 2011. Samt var blekkingarleiknum haldið áfram af ríkisstjórninni og guldu VG og Samfylkingin sögulegt afhroð í síðustu alþingiskosningum. Þessir flokkar hrópa nú á þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt yrði hvort halda eigi aðlögunarferlinu áfram, en í því fælist að Íslendingar væru tilbúnir að uppfylla opnunarskilyrði ESB um að ganga inn í sjávarútvegsstefnu sambandsins og aflétta takmörkunum á fjárfestingum erlendra aðila í sjávarútvegi hér á landi. Þá yrði um leið gengið gegn þeim yfirlýsta vilja þjóðarinnar að hún hefði veruleg áhrif á nýtingu auðlindarinnar. Erum við tilbúin til þess?

Vigdís Hauksdóttir

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. mars 2014.)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.