Categories
Greinar

Börnin okkar og betra samfélag

Deila grein

31/05/2021

Börnin okkar og betra samfélag

Ekk­ert í heim­in­um er mik­il­væg­ara en börn­in okk­ar – vellíðan þeirra, ham­ingja og framtíðar­tæki­færi. Það er skylda stjórn­valda að gera allt hvað þau geta svo öll börn vaxi og dafni. Finni sig í skóla og tóm­stund­a­starfi, njóti jafnra tæki­færa óháð bak­grunni og fé­lags­leg­um aðstæðum. Við vilj­um að öll börn fái örvun við hæfi, hvatn­ingu og mennt­un sem legg­ur grunn­inn að framtíð þeirra. Stuðning í erfiðum aðstæðum og hjálp hvenær sem þau þurfa á henni að halda.

Það er leiðarljós Fram­sókn­ar­flokks­ins eins og verk­in sýna, bæði fyrr og síðar. Á þessu kjör­tíma­bili höf­um við breytt fé­lags­kerf­inu og lagað að hags­mun­um barna. Við höf­um eflt og ein­faldað þjón­ustu við börn og fjöl­skyld­ur þeirra, lengt fæðing­ar­or­lof, ráðist í kerf­is­breyt­ing­ar í skóla­kerf­inu, stutt sér­stak­lega við fá­tæk börn og ráðist í mik­il­væg verk­efni til að styrkja stöðu barna af er­lend­um upp­runa. Ný­samþykkt mennta­stefna tek­ur fyrst og fremst mið af þörf­um barna og vinna er haf­in við breyt­ing­ar á sam­ræmdu náms­mati, þar sem hags­mun­ir stofn­ana munu víkja fyr­ir hags­mun­um barna. Í Covid var gríðarleg áhersla lögð á að halda skól­un­um opn­um, til að tryggja mennt­un barna og lág­marka áhrif heims­far­ald­urs á líf þeirra. Það tókst og sam­an­b­urður við önn­ur lönd sýn­ir glögg­lega að ár­ang­ur­inn er merki­leg­ur, því víða voru skól­ar lokaðir með ófyr­ir­séðum lang­tíma­áhrif­um á börn. Við höf­um sagt lestr­ar­vanda barna stríð á hend­ur og gripið til aðgerða til að efla lesskiln­ing. Útgáfa nýrra barna- og ung­linga­bóka hef­ur stór­auk­ist vegna póli­tískr­ar stefnu um stuðning við ís­lenska bóka­út­gáfu.

Það eru ekki nýj­ar frétt­ir að Fram­sókn­ar­flokkn­um sé um­hugað um börn og fjöl­skyld­ur lands­ins. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn inn­leiddi á sín­um tíma feðra­or­lof, rétt­ar­bót sem þótti frum­leg í fyrstu en öll­um þykir sjálf­sögð í dag. Ávinn­ing­ur barna og for­eldra af breyt­ing­unni er ómæld­ur og fjöl­skyldu­tengsl­in sterk­ari.

En við vilj­um gera enn bet­ur, fyr­ir börn úr öll­um átt­um. Búa svo um hnút­ana að öll börn fái jöfn tæki­færi og þjón­ustu við hæfi, til dæm­is sál­fræðiþjón­ustu sem nú er bæði af skorn­um skammti og kostnaðar­söm fyr­ir for­eldra. Slík þjón­usta á að vera eins og önn­ur heil­brigðisþjón­usta; aðgengi­leg fyr­ir alla enda brýnt að leysa úr vanda á fyrstu stig­um hans, en ekki bíða eft­ir því að barnið vaxi og vand­inn með.

Full­orðið fólk, bæði í fjöl­skyld­um og flokk­um, á að kenna börn­um á lífið. Vekja for­vitni þeirra og áhuga á heim­in­um, sjálf­um sér og öðrum. Hjálpa þeim að finna sína styrk­leika, tjá sig, leika sér og læra. Í því verk­efni ætl­ar Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn ekki að láta sitt eft­ir liggja og við vilj­um að Ísland verði barn­vænsta sam­fé­lag í heimi. Taktu þátt í því með okk­ur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. maí 2021.