Categories
Greinar

Bú er landstólpi

Deila grein

01/10/2018

Bú er landstólpi

Við trúum því að það sé skylda okkar sem þjóðar að standa vörð um innlenda matvælaframleiðslu, þar á meðal sauðfjárræktina, sem nú á í erfiðleikum. Samfélagið styður greinina í gegnum búvörusamning sem gerður var 2016. Þar er lögð áhersla á góða framleiðsluhætti sem byggja til dæmis á velferð dýra, heilnæmi afurða, umhverfisvernd og sjálfbærri landnýtingu. Tilgangurinn er einnig að tryggja  fjölbreytt framboð gæðafurða á sanngjörnu verði fyrir neytendur.Stuðningurinn hefur þau áhrif að verðið til þeirra er lægra en annars væri.Þá er lögð áhersla á að minnka kostnað við kerfið sjálft.

Nauðsynleg næstu skref

Það er nauðsynlegt að endurskoða ákveðna þætti búvörusamningsins vegna breyttra forsenda, sérstaklega þá sem geta verið framleiðsluhvetjandi.  Sauðfjárbændur hafa sjálfir bent á að nauðsynlegt sé að ná jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar lambakjöts á innanlandsmarkaði. Það er aðgerð sem er hugsuð til að bregðast við núverandi ytri aðstæðum.

Samið var um að búvörusamningarnir yrðu endurskoðaðir tvisvar á 10 ára samningstíma og nú stendur fyrri endurskoðunin yfir. Afkoman í sauðfjárræktinni hefur verið á niðurleið síðustu þrjú ár. Markaðir hafa lokast og sterkt gengi krónunnar hefur gert útflutning óhagstæðari. Í kjölfarið hefur verð til bænda hríðfallið. Þeir fá nú að meðaltali 387 krónur greiddar fyrir hvert kíló lambakjöts. en þyrfti að vera 650-700 krónur til reksturinn teldist viðunandi. Það er því ljóst að markaðsbrestur hefur orðið í greininni.

Jafnvægi í framleiðslu

Sauðfjárbændur hafa bent á að allt að 10% hækkun gæti komið til greina en sé gengið of langt getur það haft afar neikvæð áhrif á greinina í held og þau samfélög sem á henni byggja. Það eru samfélög sem hafa takmörkuð tækifæri til annarrar starfsemi.  Nauðsynlegt er að stjórnvöld beiti sér fyrir því að til verði verkfæri sem geri mögulegt að takast á við stöðu sem þessa og haft áhrif á markaðinn.  Við höfum engin slík nú, en þau eru til í flestum nágrannaríkjum okkar.  Afurðageirinn þarf líka að hagræða og endurskipuleggja sig með hliðsjón af þessum aðstæðum.  Hann þarf að vera nægileg öflugur til að tryggja gæði og vöruframboð sem svara kröfum neytandans með tilsvarandi markaðsstarfi. Með framantöldum aðgerðum er von til þess að jafnvægi náist og afkoma bænda batni í kjölfarið.

Horft til framtíðar

Þetta eru nauðsynlegar aðgerðir til  að koma á móts við núverandi vanda, sem vonandi verður fljótt að baki svo sauðfjárræktin geti farið að byggja sig upp að nýju.

Ríkistjórnin hefur sett metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum. Þjóð sem hefur það að leiðarljósi að minnka kolefnisspor okkar og nálgast sjálfbærni til framtíðar hlýtur að hlúa vel að umhverfi íslenskrar matvælaframleiðslu.. Sauðfjárbændur vilja taka þátt í því enda hafar þeir sett sér markmið um kolefnisjöfnun greinarinnar.  En greinin hefur víðtæka þýðingu.  Fyrir utan matvælaframleiðsluna og byggðalegu þýðinguna sem áður er nefnd er hún jafnframt verðmætur hluti af menningu íslenskrar þjóðar.  Þess vegna styður samfélagið við hana og við teljum að svo eigi áfram að vera.

Halla Signý Kristjánsdóttir 7. þingmaður NV kjördæmis og Þórunn Egilsdóttir 4. þingmaður NA kjördæmis.

Grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. október 2018.