Categories
Greinar

Burt með verðtrygginguna

Deila grein

16/05/2014

Burt með verðtrygginguna

Elsa-Lara-mynd01-vefurVerkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála hefur skilað af sér og niðurstöður þeirrar vinnu eru m.a. þær að tekið verði upp nýtt húsnæðislánakerfi þar sem lánveitingar til húsnæðiskaupa fara í gegnum sérstök og sérhæfð húsnæðislánafélög. Jafnframt kemur þar fram að húsnæðislán til framtíðar verði óverðtryggð, enda hafi nauðsynlegar kerfisbreytingar og mótvægisaðgerðir gert það kleift.

Sérstaklega mikilvægt  er að afnema verðtrygginguna af húsnæðislánum til að minnka vægi verðtryggingar á lánamarkaði. Nauðsynlegt er að stoppa þær eignatilfærslur sem hafa átt sér stað til fjölda ára. Eignatilfærslur sem verða þegar fjármálastofnanir soga til sín eignahluta heimilanna. En þá sorglegu staðreynd hafa margir séð gerast á undanförnum árum.

Hins vegar er það svo að greiðslubyrði óverðtryggðra lána er hærri en greiðslubyrði verðtryggðra lána er í upphafi lánstímans.  Þessi munur jafnar sig á um það bil tíu árum og snýst svo við, þannig að greiðslubyrði óverðtryggðra lána verður mun lægri en greiðslubyrði verðtryggðra lána er á síðari hluta lánstíma.

Í þessu samhengi er afar þarft að grípa til mótvægisaðgerða, til að koma á móts við hærri greiðslubyrði óverðtryggðra lána. Þessar mótvægisaðgerðir geta m.a. verið að nýta séreignasparnað til að greiða niður höfuðstól lána og er það alveg í takt við skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Einnig er hægt að breyta vaxtabótakerfinu á þann veg að bæturnar renni mánaðarlega beint inn á húsnæðislánin, í stað þess að vera greiddar út í peningum einu sinni á ári, eins og nú er.

Tillögur að ofangreindum mótvægisaðgerðum eru m.a. lagðar fram í séráliti sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar af neytendalánum.

Í tillögum Verkefnisstjórnarinnar um framtíðarskipan húsnæðismála, er að mestu komið á móts við sérálit sérfræðingahópsins. Þar er m.a. lagt til að fólki verði gert kleift að nýta séreignasparnað til að húsnæðiskaup. Jafnframt er lagt til að breytingar verði á vaxtabótakerfinu þannig að bæturnar renni beint inn á höfuðstól lána á mánaðarfresti, með það að markmiði að létta greiðslubyrði íslenskra heimila.

Framsóknarmenn hafa talað fyrir afnámi verðtryggingar af neytendalánum. Þess vegna er afar ánægjulegt að sjá að ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins hefur ákveðið næstu skref í afnámi verðtryggingarinnar af neytendalánum. Ábyrgð þeirra verkefna eru hjá Fjármála – og efnahagsráðuneytinu, Velferðarráðuneytinu og Forsætisráðuneytinu.

Nú sjáum við loksins fram á að eignatilfærslur frá heimilunum til fjármálastofnana verði stöðvaðar. Við höfum ríkisstjórn sem sýnir kjark og þor í þessum efnum. Ríkisstjórn sem stígur mikilvæg skref, íslenskum heimilum til hagsbóta.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 16. maí 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.