Categories
Greinar

Byggjum upp skólaþjónustu til framtíðar – taktu þátt!

Deila grein

25/10/2022

Byggjum upp skólaþjónustu til framtíðar – taktu þátt!

Hinn 17. október sl. kynnti ég áform um viðamiklar breytingar á menntakerfinu og ný heildarlög um skólaþjónustu. Uppbygging heildstæðrar skólaþjónustu um allt land, sem byggð er á þrepaskiptum stuðningi, er ein af meginaðgerðum menntastefnu til ársins 2030. Að baki menntastefnunni var umfangsmikið samráð og greiningarvinna við að þróa og byggja upp íslenska menntakerfið til framtíðar. Nú er kominn tími til að hrinda þessum verkþætti í framkvæmd og ná þannig mikilvægum áfanga í þágu farsældar barna.

Markmið nýrra laga er að tryggja jafnræði í þjónustu við börn og ungmenni í leik-, grunn- og framhaldsskólum óháð aldri, uppruna og búsetu, mæta ákalli um aukna ráðgjöf og stuðning við starfsfólk og stjórnendur á vettvangi skólans, efla þverfaglega samvinnu og samþættingu milli skóla- og þjónustustiga í þágu farsældar barna og tryggja öllum skólum faglegt bakland í sínum fjölbreyttu verkefnum.

Í þeirri vinnu sem er fram undan er mikilvægt að fá fram sjónarmið sem flestra til að ná farsælli niðurstöðu. Samráð við hlutaðeigandi gegnir lykilhlutverki til að koma sem best til móts við þarfir haghafa skólasamfélagsins og tengdra þjónustukerfa. Nú fyrir helgi sendi ég boð til haghafa um allt land og hvet öll sem hafa áhuga til að taka þátt í samráði og móta skólaþjónustu til framtíðar.

Á næstu vikum taka til starfa samráðshópar þar sem kallað er eftir víðtæku samráði við börn og ungmenni, foreldra, kennara, stjórnendur og starfsfólk í leik-, grunn- og framhaldsskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum, skólaþjónustu og öðrum þjónustukerfum.

Þau sem hafa áhuga á því að taka þátt í þessari vinnu eru hvött til að senda inn ábendingar eða skrá sig til þátttöku í samráðshópum með því að senda póst á netfangið mrn@mrn.is með „Skólaþjónusta“ í efnislínu fyrir lok dags 4. nóvember nk.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. október 2022.