Categories
Greinar

Byggjum upp traust

Deila grein

15/07/2017

Byggjum upp traust

Margt hefur áunnist á undanförnum árum er varðar endurreisn eftir efnahagsáfallið haustið 2008. Þeirri vegferð er þó ekki lokið þar sem íslenskt samfélag á nokkuð í land með að endurvekja traust til fulls. Þar er sérstaklega horft til fjármálakerfisins en atburðir liðinna mánaða gefa til kynna svo ekki verður um villst að þar er enn verk að vinna þó margt hafi áunnist. Regluverk bankakerfisins hefur verið stórbætt frá hruni til að draga úr áhættu. Eftirlit þarf að vera skilvirkt og grípa inn í þegar þörf krefur. Tiltrú almennings er forsenda þess að traust sé endurvakið, að almenningur upplifi að gripið sé inn í ef hætta steðjar að. Vísbendingar eru um að sú tiltrú sé ekki til staðar auk þess sem stjórnvöld skortir sýn um framtíð fjármálakerfisins. Þess vegna þarf að bregðast við nú þegar komið er að því að selja banka til einkafjárfesta. Með því að sameina eftirlit með bönkunum á einum stað má auka skilvirkni og traust.

Efnahagsleg endurreisn hefur gengið vel
Efnahagsleg endurreisn Íslands hefur gengið vonum framar. Hagvöxtur er kröftugur, fjölmörg störf hafa orðið til, skuldir heimila og ríkissjóðs lækkað og erlendar eignir eru nú meiri en erlendar skuldir í fyrsta sinn síðan mælingar hófust. Að sama skapi hafa átt sér stað miklar breytingar á íslensku fjármálakerfi frá því að bankakerfið hrundi. Regluverk hefur verið aukið í þeim tilgangi að draga úr áhættu kerfisins og stofnanaumgjörð hefur verið efld. Ríkari kröfur eru nú gerðar til fjármálafyrirtækja bæði hvað varðar fjárhagslega stöðu sem og stjórnarhætti. Bankakerfið hefur minnkað og er nú brot af því sem áður var eða rúm 150% af landsframleiðslu. Bankarnir standa mun betur en áður enda með ríflegt eigið fé, vanskil hafa minnkað verulega og kjör á erlendri markaðsfjármögnun hafa batnað mikið.

Efasemdir í tengslum við bankasölu
Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun þá skortir enn á traust og eru nokkur nýleg dæmi um það. Eitt slíkt er nýleg sala á stórum hlut í Arion banka til erlendra vogunarsjóða.Margir hafa goldið varhug við þessari þróun og má nefna a.m.k. þrjár ástæður þess. Í fyrsta lagi þá er ekki vitað hverjir eiga þessa sjóði. Gagnsætt eignarhald er forsenda þess að skapa traust og tiltrú á íslensku bankakerfi. Í öðru lagi má nefna vafasama fortíð eins sjóðanna en hann tengist mútumáli í Afríku. Það sýnir ágætlega hversu langt slíkir aðilar ganga til að verja sína hagsmuni. Í þriðja lagi er alls kostar óljóst hverjar fyrirætlanir nýrra eigenda eru. Eins og fyrr segir eru íslensku bankarnir með ríflegt eigið fé og því hugsanlegt að nýir eigendur vilji greiða sér myndarlegan arð úr Arion. Eins er ekki hægt að útiloka það að einstaka eignir Arion, sbr. dótturfélög bankans, verði seld í þeim tilgangi að skila eigendum bankans fjármunum. Kjarni málsins er sá að ef eftirlitið virkar sem skyldi þá geta eigendur bankanna ekki gengið of nærri þeim og þar með varpað of mikilli áhættu á samfélagið.

Viðbrögð stjórnvalda vekja ekki traust
Áhyggjur almennings í tengslum við þetta mál benda til þess að tiltrú skorti á eftirlit, að eigendur banka geti farið með þá eign sína að vild án þess að gripið sé inn í og að almenningur sitji eftir með reikninginn ef illa fer. Ef ekki tekst að auka traust og tiltrú á fjármálakerfið, þá mun næsti áfangi í endurreisninni misheppnast. Á þeim mánuðum sem liðnir eru frá því málið kom inn á borð stjórnvalda hefur málið lítið skýrst. Fjármálaeftirlitið hefur ekki svarað lykilspurningum í málinu eins og hvort einhver hinna nýju hluthafa í Arion banka fari með virkan eignarhlut, beint eða óbeint. Margítrekað hefur efnahags- og viðskiptanefnd óskað eftir skýrari rökstuðningi en hann hefur ekki fengist þrátt fyrir fundi og skrifleg samskipti við Fjármálaeftirlitið. Þrátt fyrir skort á upplýsingum þegar málið var kynnt opinberlega taldi fjármála- og efnahagsráðherra ekki eftir sér að fagna viðskiptunum og segja að nú væru vogunarsjóðirnir að veðja með Íslandi. Þessi framganga er ekki til að byggja upp traust á kerfinu.

Styrkja þarf fjármálaeftirlit til að byggja upp traust
Fyrir hina alþjóðlegu fjármálakreppu sem hófst árið 2008 þá var í mörgum ríkjum starfsemi fjármálaeftirlits og seðlabanka aðskilin, m.a. vegna þess að skynsamlegt þótt að aðskilja ætti eftirlit með öryggi innstæðueigenda og fjármálastöðugleika. Bankaeftirlitið var aðskilið Seðlabanka Íslands árið 1999 og Fjármálaeftirlitið stofnað. Í fjármálakreppunni komu fram miklir gallar á þessari hugmyndafræði sem gekk út á að skilja að peningalegan og fjármálalegan stöðugleika, þar sem heildarsýn á áhættuþætti fjármálakerfisins skorti hjá seðlabankanum sem lánveitanda til þrautavara. Fram hafa komið sterk rök hjá sérfræðingum á þessu sviði í þá veru að bankaeftirlit eigi heima hjá seðlabankanum. Nefnt er þar að skipulag fjármálaeftirlits, þ.e. aðskilnaður Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, hafi haft þau áhrif að lánveitandi til þrautavara hafi haft ófullnægjandi mynd af fjárhagslegri stöðu bankanna í aðdraganda fjármálahrunsins á Íslandi. Þróunin hefur verið sú hjá þeim ríkjum sem lentu í mestum erfiðleikum í fjármálakreppunni að þau hafa verið að færa seðlabönkum sínum auknar heimildir á sviði þjóðhagsvarúðar og nefna má Holland og Írland. Sum ríki, líkt og Bretland, hafa sameinað eftirlit með fjárhagsstöðu lánastofnana á nýjan leik innan Englandsbanka. Þar í landi er einnig rekin stofnun, FCA, sem annast neytendavernd á fjármálamarkaði og að fjármálafyrirtæki breyti í samræmi við góða viðskiptahætti.

Veigamikil rök hníga í þá átt að sameina fjármálaeftirlit á Íslandi. Í fyrsta lagi mun það auka heildarsýn á helstu áhættuþætti fjármálakerfisins að sameina krafta Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands. Í öðru lagi með því að sameina eftirlit með lausafjárstöðu viðskiptabanka og eiginfjárstöðu þeirra, þá verður framkvæmd fjármálaeftirlits skýrari og auðveldara fyrir lánveitanda til þrautavara að bregðast við með skilvirkari hætti. Í þriðja lagi mun takast betur að viðhalda peningalegum og fjármálalegum stöðugleika í hagkerfinu með því að stýritæki þjóðhagsvarúðarstefnu séu hjá einum aðila. Í fjórða lagi þá mun mannauður nýtast betur og upplýsingaskipti verða greiðari með þessu fyrirkomulagi. Þekkingargrunnur sameinaðs eftirlits verður fjölbreyttari og þar af leiðandi meiri slagkraftur. Kallað hefur verið eftir endurskoðun á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og ætti endurskoðunin að horfa til ofangreindra þátta.

Hörð gagnrýni AGS á fjármálaeftirlit
Það er ekki eingöngu almenningur á Íslandi sem óttast að eftirlitið sé ekki nægilega skilvirkt. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti nýverið reglubundna skýrslu sína um stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi. Meginniðurstöðurnar eru jákvæðar og bent á að Ísland hafi náð miklum árangri eftir fjármálahrunið. Sá árangur hefur verið drifinn áfram af ferðaþjónustu, hagfelldum ytri skilyrðum og síðast en ekki síst skynsamlegri nálgun er varðar úrlausn á fjármálahruninu og eftirmálum þess. Hins vegar er bent á að teikn séu á lofti um ofþenslu hagkerfisins. Ekkert í þessari umsögn kemur á óvart og í samræmi við fyrri álit.

Hörð gagnrýni AGS á fjármálaeftirlit í landinu vekur hins vegar mikla athygli. AGS segir styrkingu fjármálaeftirlits vera forgangsatriði í stefnumótun fyrir fjármálakerfið. Sérstaklega er nefnd sala á hlut í Arion banka og tilgreint að áhættusækni gæti aukist innan kerfisins ef fjármálaeftirlitið sé ekki eflt. Lagt er til að stjórnvöld taki djarfar ákvarðanir og að stofnanauppbyggingin sé endurskoðuð í þeim tilgangi. Annars vegar að fjárhagslegt og rekstrarlegt sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins sé aukið frá fjármálaráðuneytinu og hins vegar að eftirlit með bankakerfinu og lausafjárstöðu þess verði flutt aftur til Seðlabanka Íslands. Meginástæða þess er að þá hefur lánveitandi til þrautavara mun betri yfirsýn yfir bankakerfið og verkaskipting verður skýrari og einfaldari.

Auglýst eftir framtíðarsýn um bankakerfið
Bankakerfið þarf að þjóna almenningi og atvinnulífi á hagkvæman hátt. Fjármálakerfið þarf að vera traust og almenningur að bera traust til þess sem og til eftirlits. Áður en lengra er haldið og tilkynnt er um umfangsmikla eignasölu á kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum þarf að útfæra nánar hvernig fjármálakerfi hentar okkur best og hvernig megi styrkja umgjörðina enn frekar. Stjórnvöld, sem setja fjármálakerfinu umgjörð auk þess að vera hluthafi í bönkunum þremur, virðast skila auðu þegar kemur að framtíðarskipan fjármálakerfisins. Í byrjun júlímánaðar tók gildi ný eigendastefna ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. Engin framtíðarsýn fyrir framtíðarskipan á fjármálamarkaði er sett þar fram fyrir utan það að selja skuli eignarhluti í bönkunum. Ríkisstjórnin stefnir að því að ríkið eigi 34-40% eignarhlut í Landsbankanum hf. til langframa. Að öðru leyti er nefnt að 60-66% eignarhlutur í bankanum verði seldur á næstu árum þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi og jafnframt verði stefnt að skráningu á hlutabréfamarkaði.

Ríkisstjórnin stefnir að því að selja allan eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka og Arion banka þegar aðstæður leyfa. Engin haldbær rök eru færð fyrir því hvers vegna ríkissjóður hyggst eiga að hámarki 40% í Landsbankanum, en ekki meira eða minna. Ástæða þess einföld. Hún er sú að stjórnvöld skortir sýn í þessu veigamikla máli. Það er verðugt umhugsunarefni að ný eigendastefna hafi tekið gildi án þess að vinna sé hafin við heildarendurskoðun á framtíðarskipan fjármálakerfisins. Svo virðist sem ríkisstjórnin ætli stjórnendum bankanna sjálfra að móta slíka stefnu. Almenningur á Íslandi þarf því að reiða sig á erlenda vogunarsjóði, nýja eigendur Arion banka, til að móta slíka sýn fyrir ríkisstjórnina.

Bregðast þarf við fyrir sölu banka
Til að auka traust og tiltrú á fjármálakerfinu og stofnanaumgjörðinni er nauðsynlegt að ráðast í breytingar og færa eftirlit með fjármálastofnunum undir einn hatt í stað tveggja í dag. Að sama skapi þarf að útfæra framtíðarstefnu um fjármálakerfið áður en ráðist er í frekari sölu á bönkum. Að öðrum kosti mun ekki takast að byggja upp traust í samfélaginu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. júlí 2017.