Categories
Greinar

Byr í seglin til að bæta frekar réttarstöðu barna

Deila grein

20/11/2019

Byr í seglin til að bæta frekar réttarstöðu barna

Þrjátíu ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er fagnað í dag. Sáttmála sem gjörbylti réttarstöðu barna um heim allan. Með honum var ekki aðeins samþykkt að börn ættu ákveðin réttindi sem ríki eru skuldbundin til að tryggja heldur einnig að þau eigi sjálf rétt á því að berjast fyrir þeim réttindum og taka þátt í því að móta umhverfi sitt.

Það eru forréttindi að fá að vera barnamálaráðherra á slíkum tímamótum og skynja um leið að heimurinn allur virðist vera að átta sig á þeim krafti og auði sem býr í börnum og ungu fólki og að þau geti verið raunverulegt breytingarafl. Barnasáttmálinn má ekki vera eitthvað sem gripið er í við hátíðleg tilefni eða þegar okkur fullorðna fólkinu hentar heldur á hann að vera raunverulegur áttaviti og leiðarvísir fyrir samfélagið. Til þess að Barnasáttmálinn gegni því hlutverki sem honum er ætlað þurfa börn að njóta þeirra réttinda sem hann kveður á um í sínu nærumhverfi á degi hverjum.

Enn í dag eru börn á Íslandi sem búa við ofbeldi og líða skort. Of mörg börn fá ófullnægjandi aðstoð eða aðstoð sem berst of seint eða ekki yfir höfuð. Þá eru of mörg dæmi þess að börn fái ekki tækifæri til að tjá skoðanir og sömuleiðis of mörg dæmi þess að á raddir þeirra sé ekki hlustað. Þó við getum verið stolt af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og því sem áunnist hefur á síðustu þrjátíu árum þá eru svo sannarlega áskoranir fram undan. Þessi tímamót, þrjátíu ára afmæli Barnasáttmála SÞ, eiga að gefa okkur byr í seglin til þess að bæta enn frekar stöðu barna á Íslandi og í heiminum öllum. Ég mun svo sannarlega gera mitt besta sem ráðherra barna til þess að tryggja að svo verði.

Til hamingju með daginn öll börn og allir þeir sem eitt sinn voru börn.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. nóvember 2019.