Iðnaðarráðherra átti á dögunum fund með erlendum aðila, Atlantic Super Connection, sem hefur lýst áhuga á lagningu sæstrengs frá Íslandi. Ég varð verulega hugsi við þessar fréttir því um sama leyti fjallaði Alþingi um frumvarp umhverfisráðherra um Rammaáætlun. Orka, vatn og matvæli eru auðlindir sem alltaf verður eftirspurn eftir og Íslendingar eru í einstakri stöðu til að leggja þar sitt af mörkum. En við verðum að kunna fótum okkar forráð og hafa langtímasjónarmið í fyrirrúmi – ekki skammtíma gróðasjónarmið. Það er kominn tími til að staldra við og velta fyrir sér hvaða sýn við höfum á landið okkar og nýtingu orkunnar til framtíðar.
Hvað er »Ramminn«?
Rammaáætlun er verkfæri til að meta orkukosti og flokka í nýtingar-, bið- eða verndarflokk. Hugmyndin að rammaáætlun er að þar sé unnin fagleg vinna svo pólitísk sátt verði um nýtingu orkunnar. Hvað svo sem okkur finnst um flokkun orkukosta þá þurfum við að vera sammála um að það þarf að hugsa til langrar framtíðar vegna nýtingar á orkuauðlindum okkar.
Hærra orkuverð til heimila
Samkvæmt skriflegu svari iðnaðarráðherra (mars 2017) til greinarhöfundar þá hefur ráðherra ekki mótað stefnu í útflutningi á raforku en vitnar í svari sínu til skýrslu frá árinu 2016 um mat á áhrifum sæstrengs á fjölmarga þætti. Í þeirri skýrslu kemur meðal annars fram að raforkuverð til heimila og smærri fyrirtækja muni hækka; því muni draga úr afkomumöguleikum sprotafyrirtækja og annarra fyrirtækja, svo sem örfyrirtækja í smærri byggðum. Einnig segir í skýrslunni: »Frá sjónarhóli græna hagkerfisins virðist einnig liggja beinna við að sú orka sem annars væri seld úr landi væri þess í stað nýtt til að gera Ísland óháðara innflutningi eldsneytis.«
Ísland er land þitt
Í sviðsmyndinni sem notuð var við kostnaðar- og ábatagreiningu varðandi sæstreng milli Íslands og Bretland er gert ráð fyrir 1.200 km löngum sæstreng með 1.000 MW aflgetu.
Áætlaður stofnkostnaður er 3-500 milljarðar króna og samkvæmt skýrslunni er gert ráð fyrir 1.000 megavöttum en þess má geta að samanlagt uppsett afl allra raforkuvera á Íslandi er 2.700 megavött. Það er því ljóst að slík tenging við raforkumarkað Evrópu mun auka verulega þrýsting á að fleiri virkjanir verði reistar hér á landi. Því þurfum við að gera það upp við okkur hvort við ætlum að fara í stórfelldar virkjanir með tilheyrandi línulögnum um sveitir landsins til að byggja upp iðnað í Evrópu. Tal um sæstreng upp á allt að 500 milljarða til þess eins að flytja út afgangsorku í kerfinu, sem er kannski 150-200 megavött, er blekking. Ef sæstrengur verður lagður frá Íslandi til Evrópu þá þarf við að virkja og fjölga flutningslínum. Erum við tilbúin til þess?
Ójafnfræði sem hamlar atvinnuuppbyggingu
Á sama tíma og yfirvöld funda með fólki sem vill kanna leiðir til að leggja rafstreng til Íslands eru svæði víða um land sem búa við mjög takmarkað öryggi í raforkudreifingu. Nægir að nefna norðausturhornið og Vestfirði þar sem eru endastöðvar í dreifikerfinu auk þess sem veikir punktar eru víðar. Byggðalína Landsnets á Suðvesturlandi er komin að þolmörkum og rafmagnsflutningar um hana takmarkaður. Takmarkanir á flutningsgetu og öryggi hafa veruleg áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja á landsbyggðinni og koma niður á atvinnuuppbyggingu þar. Landsmenn búa heldur ekki allir við þann »munað« að hafa aðgang að þrífösuðu rafmagni, og það stendur atvinnuuppbyggingu verulega fyrir þrifum á ákveðnum landssvæðum. Þeir sem stunda búskap geta til dæmis ekki uppfært tækjabúnað sinn í takt við nýjar reglugerðir þar sem þess er krafist að rafmagn sé þrífasað.
Það er án efa brýnna verkefni að tryggja öruggari afhendingu rafmagns um land allt og veita öllum landsmönnum aðgang að þrífösuðu rafmagni en að vinna að útflutningi raforku.
Silja Dögg Gunnarsdóttir
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. mars 2017.