Íslenski dansflokkurinn fagnar því í ár að 50 ár eru liðin frá stofnun hans. Í hálfa öld hefur dansflokkurinn verið framsækinn nútímadansflokkur skipaður úrvalsdönsurum í hæsta gæðaflokki en um er að ræða listastofnun á sviði sviðslista í eigu íslensku þjóðarinnar. Hlutverk hans er að sýna dansverk, vera vettvangur fyrir framþróun og nýsköpun danslistar á Íslandi og glæða áhuga landsmanna á danslist. Dansflokkurinn hefur unnið með mörgum af fremstu danshöfundum veraldar auk þess að leggja rækt við íslenska danssköpun með því að setja á svið verk eftir íslenska danshöfunda. Verkefnaval hans er fjölbreytt og tryggt skal að á dagskrá hvers starfsárs séu íslensk dansverk. Dansflokkurinn ferðast víða um heim með verk sín og heldur fjölbreyttar sýningar á Íslandi og þá alla jafna í Borgarleikhúsinu sem hefur verið heimili flokksins síðan 1997. Ár árinu 2022 sýndi Íslenski dansflokkurinn 62 sýningar, þar af 18 erlendis í 10 sýningarferðum. Það er merkilegur árangur en dagskrá afmælisársins ber vel með sér þennan mikla þrótt sem býr í þessum hálfrar aldrar gamla dansflokki. Fjölbreytni ræður ríkjum í dagskrá ársins, sem tekur mið af afmælisárinu þar sem saga dansflokksins og dansins á Íslandi í fortíð, nútíð og framtíð er áberandi.
Dans sem listform gagnrýnir og hvetur, hneykslar og hrífur. Dansarinn tekst á við allar víddir mannlegrar tilvistar, dans er landamæralaust afl sem getur hreyft við öllum gerðum áhorfenda, ungum sem öldnum. Listræn fjölbreytni og náin tengsl við grasrótina eru mikilvægir þættir fyrir dansumhverfið á Íslandi, sem er í stöðugri mótun, og á síðustu árum hafa sýnileiki dansins og vinsældir hans aukist til muna. Enda hefur Íslenski dansflokkurinn kappkostað að eiga í nánu samstarfi við stofnanir, félög og aðra sem sinna danslist með listrænan ávinning og fjölbreytni að markmiði og lagt sín lóð á vogarskálarnar með því að stuðla að listuppeldi og fræðslustarfi í samvinnu við menntastofnanir og gera nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi dansflokksins.
Á undanförnum árum hafa verið stigin mikilvæg skref til þess að efla umgjörð sviðslista á Íslandi. Árið 2019 voru fyrstu heildarlögin um sviðslistir sett hér á landi sem hafa það að markmiði búa leiklist, danslist, óperuflutningi, brúðuleik og skyldri liststarfsemi hagstæð skilyrði. Á þeim grunni var meðal annars sviðslistaráð sett á laggirnar og tók ný Sviðslistamiðstöð formlega til starfa – en sambærilegar miðstöðvar hafa lengi verið starfræktar fyrir aðrar listgreinar. Með Sviðslistamiðstöð skapast fleiri sóknarfæri fyrir sviðslistafólk innanlands sem utan, meðal annars með stuðningi í formi ráðgjafar, tengslamyndunar, kynningar, miðlunar og útflutnings. Samhliða þessu hafa fleiri hópum verið tryggðir kjarasamningar og vinna við þarfagreiningu vegna óperustarfsemi í landinu sem hefur miðað vel áfram með það að markmiði að setja á laggirnar þjóðaróperu. Samspil ólíkra sviðlistagreina skiptir máli, en þegar á fjalirnar er komið haldast gjarnan í hendur dans, tónlist, leikur og fleira. Allt ofantalið eru atriði sem skipta máli í öflugu menningarlífi þjóðarinnar.
Það er ekki sjálfsagt að eiga jafn framúrstefnulegan dansflokk og við eigum hér á landi en hann hefur getið sér gott orð víða um heim undir styrkri handleiðslu Ernu Ómarsdóttur listdansstjóra og hennar teymi. Ég er stolt af þeirri frumsköpun og framleiðslu á menningu sem okkar frábæra listadansfólk drífur áfram. Stjórnvöld munu halda áfram að skapa menningu í landinu góð skilyrði og styðja þannig við fjalir fullar af lífi. Ég óska Íslenska dansflokknum, starfsfólki hans og unnendum til hamingju með 50 ára afmælið og hvet fólk til þess að kynna sér þá metnaðarfullu dagskrá sem hann hefur upp á að bjóða.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. apríl 2023.