Categories
Greinar

DÝRAFJARÐARGÖNG OPNUÐ

Langþráð stund rann upp í gær þegar Dýrafjarðargöngin voru opnuð fyrir umferð. Hér er um að ræða gríðarlega samgöngubót á Vestfjörðum. Heilsárssamgöngur milli norður- og suðursvæðis verða að veruleika. Göngin leysa af Hrafnseyrarheiðina sem hefur verið mikill farartálmi stóran hluta ársins, þótt hún hafi verið þrekvirki og mikil bót á sínum tíma þá var löngu kominn tími á bættar samgöngur. Vestfirðingar hafa verið langeygir eftir heilsárssamgöngum á milli svæða.

Deila grein

27/10/2020

DÝRAFJARÐARGÖNG OPNUÐ

Langþráð stund rann upp í gær þegar Dýrafjarðargöngin voru opnuð fyrir umferð. Hér er um að ræða gríðarlega samgöngubót á Vestfjörðum. Heilsárssamgöngur milli norður- og suðursvæðis verða að veruleika. Göngin leysa af Hrafnseyrarheiðina sem hefur verið mikill farartálmi stóran hluta ársins, þótt hún hafi verið þrekvirki og mikil bót á sínum tíma þá var löngu kominn tími á bættar samgöngur. Vestfirðingar hafa verið langeygir eftir heilsárssamgöngum á milli svæða.

Göngin eiga eftir að breyta miklu fyrir okkur og ég efast ekki að með tilkomu þeirra verða til ný tækifæri. Á meðan Dýrafjarðargöng hafa verið í vinnslu þá hefur mikilvæg atvinnugrein verið að vaxa hér fyrir vestan sem er fiskeldið. Við tilkomu ganganna verða samlegðaráhrif þeirrar greinar meiri fyrir samfélögin sem kúra hér á norðan- og sunnanverðum.  Göngin koma líka til með að styrkja ferðaþjónustu, menningu og menntun. Þau tækifæri sem þessi samgöngubót greiðir fyrir er ekki í öllu fyrirsjáanleg en eitt er víst að þau munu nýtast á marga vegu.

Tækifæri til framtíðar

Á næsta ári verða 25 ár síðan fyrstu jarðgöngin voru opnuð á Vestfjörðum undir Breiðadals- og Botnsheiði. Þegar þau voru tekin í notkun opnaðist ný vídd í samgöngum í fjórðungnum. Við vinnslu þeirra lágu margvíslegir útreikningar á áhrifum og arðsemi þeirra. Nú er það ljóst að áhrif þeirra ná langt út fyrir þær mælistikur sem þá lágu til grundvallar. Jarðgöng er mannvirki sem standa um aldir. Nú hefur komið í ljós að þessi göng anna ekki þeirri umferð sem um þau fara, enn á umferðin eftir að aukast með áhrifum frá opnun Dýrafjarðarganga. Fyrir 25 árum síðan hefði það ekki hvarflað að okkur að göngin myndu ekki duga. Ég nefni þetta hér til að minna á að við sjáum ekki endilega í dag öll þau tækifæri sem Dýrafjarðargöng móta inn í framtíðina.

Áfram veginn

Framundan er uppbygging á Dynjandisheiðinni. Hafin er vinna á tveimur köflum við heiðarsporð hvoru megin annarsvegar fyrir Meðalnesið og svo upp frá Vatnsfirði upp á heiðina að sunnanverðu. Því ætti að vera lokið  næsta ár og  verður unnið svo áfram með uppbyggingu heiðarinnar sem skipulag og hönnun vegarins leyfir. Hver áfangi er mikilvægur þótt við viljum sjá hraðari framvindu þá er verkið hafið og það er fyrir mestu. Uppbygging vegarins bætir einnig aðstæður til vetrarþjónustu og því mikilvægt að leiðin frá heiðinni niður Arnarfjörðinn til Bíldudals verði hraðað enda miklir flutningar frá Bíldudal og suður vegna fiskeldisins.

Vetrarþjónusta

Vetrarþjónusta á Dynjandisheiði hefur fylgt G- reglu Vegagerðarinnar. Þessi regla endurspeglar þá órjúfanlegu leið sem þær systur  Dynjandis- og Hrafnseyrarheiðar byggðu. Vegagerðinn hefur þegar ráðgert að halda uppi þjónustu 5 daga vikunnar í vetur eins og mögulegt er. Vetrarþjónusta er nauðsynleg, að auki þarf þjónustuna strax til að fá reynslu hvernig eigi að festa hana í sessi í framtíðinni. Öryggi vegfaranda er höfð að leiðarljósi við framkvæmdir og þjónustu á vegum landsins því er góð vetrarþjónusta lykilatriðið fyrir þá samfélagsmynd sem ríkir. 

Til hamingju Vestfirðingar og aðrir landsmenn með þessa mikla samgöngumannvirki.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokks.

Greinin birtist fyrst á bb.is 26. október 2020.