Nú liggur frammi frumvarp á Alþingi um breytingar á búvörulögum sem undirrituð er fyrsti flutningsmaður að. Frumvarpið felur í sér breytingar á þann hátt að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast og gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Það gæti m.a. falist ísamvinnu um flutning sláturgripa, dreifingu afurða og sölu á erlendamarkaði.
Eins og segir í greinagerð með frumvarpinu er þetta gert í því skyni að undanþiggja afurðastöðvar í kjötiðnaði ákvæðum samkeppnislaga. Þá er allt kjöt undir. Með frumvarpinu er tilgangurinn er að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni við afurðir frá erlendum mörkuðum. Afurðarstöðvar í kjötiðnaði hafa nú takmarkaða möguleika til samstarfs og sameiningar þar sem það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Það skilar sér í of háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lágu afurðaverði til bænda. Þá dregur það úr tækifærum til sóknar á erlenda markaði. Frumvarpinu er líka ætlað að bregðast við auknum innflutningi á landbúnaðarafurðum, en í dag eru um 20% af heildarneyslu innflutt kjöt. Litlar afurðastöðvar um landið hafa ekki einar og sér burði til að keppa á þessum markaði. Veruleikinn er að íslenskur landbúnaðar á nú þegar í alþjóðlegri samkeppni.
Hagur neytenda og bænda
Vandi sauðfjárbænda hefur mikið verið í umræðunni og var á sett á stað nefnd til að skoða hvaða úrræði væru í sjónmáli til að laga stöðu sauðfjárbænda. Í þeim viðræðum hefur verið nefnt að það þurfi að fara ofan í rekstrarumhverfi afurðastöðva. Í landinu eru níu afurðustöðvar sem hafa leyfi til að sinna sauðfjárslátrun. Þessar afurðastöðvar eru í eigu bænda að mestu leiti og því má segja að það sé alltaf hagur bænda að það sé grundvöllur til að hagræða í rekstri. Verði frumvarpið samþykkt verður afurðastöðvum gert kleift að vinna saman og eða sameinast til að vinna t.d. að markaðstarfi erlendis eða hagræða í rekstri, það ætti að skila lægra verði til neytenda og hærri verði til bænda.
Í skýrslu KPMG um úttekt á afurðastöðvum er m.a. sagt að margt bendi til þess að fjöldi sláturhúsa sé of mikill og þeim þurfi að fækka til að auka hagræði í greininni. Þar segir líka að fækkun afurðastöðva gæti aukið arðsemi, sláturhúsin sem eftir verða hefðu svigrúm til að sjálfvirknivæðingar til að bregðast við erfileikum við að manna afurðastöðvarnar yfir háannatímann.
Hagsmunir bænda og neytenda fara saman og því er það sameiginlegt baráttumál að standa vörð um íslenska matvælaframleiðslu.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður.
Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 15. nóvember 2018.